Hugmynd um heimspeki
11.10.2021 | 21:41
"Einn hefðbundinn skilningur á heimspeki er sá að hún sé endalaus leit þekkingar og skilnings á heiminum. Annar hefðbundinn skilningur er sá að hún sé heild eða kerfi allrar öruggar þekkingar á veruleikanum, vísindi allra vísinda. Hinn þriðji hefðbundni skilningur á heimspeki er sá að hún sé fræðigrein um hinstu rök og ástæður hlutanna, hún sé altækust allra fræða því að hún fjalli um undirstöðuatriði í skilningi okkar á veruleikanum." - Páll Skúlason, Pælingar II
Mig langar að grípa þessar pælingar Páls á lofti og velta aðeins vöngum yfir þeim. Vonandni finnst gjafmild heimspeki í slíkum vangaveltum.
Leit þekkingar og skilnings á heiminum
Í þessari hugmynd felst heimspekin í manneskju sem leitar sannleikans, en þekking og skilningur á heiminum er ekkert annað en sannleikurinn. Þessi manneskja er oft kölluð heimspekingur eða heimspekileg, enda er það hegðun hennar og hugsun sem skilgreinir hana. Hún fær ákveðin verkfæri í þessa ævintýralegu leit, sem eru skynfæri hennar, rökhugsun og dómgreind. Takist henni að beita þessum verkfærum vel, er hún líklegri til að nálgast sannleikann heldur en með nokkrum öðrum verkfærum sem við þekkjum, eins og skoðunum, trú, innsæi og tilfinningum. Samt gæti verið áhugavert fyrir manneskjur sem stunda sömu leit en með ólíkum verkfærum að ræða saman og átta sig á hvað hvert og eitt okkar hefur fundið á lífsleiðinni, hvert leitin hefur leitt okkur.
Heild eða kerfi allrar öruggar þekkingar á veruleikanum
Þetta er frekar vandasöm hugmynd, þar sem stóra spurningin er hvort örugg þekking sé yfir höfuð möguleg. Við getum leitað að öruggri þekkingu bæði í stóru og smáu samhengi og áttað okkur á að hugsanlega sé enginn munur á öruggri þekkingu og trú. Reyndar er þar mikill munur, því trú getur byggt á nánast hvaða forsendu sem er, á meðan örugg þekking þarf að byggja á rökum sem hægt er að réttlæta með sönnunargögnum. Við getum vitað af öryggi að jörðin snýst um sólina, rétt eins og Bubbi, en getum við vitað hvað það þýðir, hvað jörðin og sólin eru bæði í hinu smáa samhengi einstaklingsins og stóra samhengi himintunglanna? Getum við skilið þetta samband af slíkum hreinleika að við byrjum ekki að skálda eitthvað til að átta okkur betur á hlutunum, og að okkar eigin skáldskapur villi okkur sýn? Er nóg að sjá samhengið með skýrum rökum, eða þurfum við að bæta einhverju kjöti á beinin?
Fræðigrein um hinstu rök og ástæður hlutanna
Þetta er í raun sú hugsun sem við heyrum stöðugt hjá börnum, oft áður en þau byrja í skóla og eru að velta fyrir sér öllu mögulegu í heiminum. Stundum reynum við að útskýra hlutina fyrir barni, sem jafnvel skilur ekki öll orðin sem við notum, hvað þá heiminn, og getur þá lítið annað gert en að beita því öfluga vopni sem undrunin er, og spyrja í sífellu: "Af hverju?" Það að spyrja af hverju við hverju svari er góð leið til að kafa djúpar í meiningu þess sem heldur einhverju fram. Það getur verið pirrandi að vera á hinum enda 'af-hverju-spurninga', en ef þú gerir þitt besta til að svara, þá muntu á endanum átta þig betur á eigin takmörkunum og skilningi, þú getur átt von á að uppgötva að þú vitir og skiljir ekki hlutina jafn vel og þú hélst. Og það eitt gefur þér aukna dýpt og þekkingu á þér og veruleikanum.
Athugasemdir
Hérna getum við séð heimspeki í verki:
www.vetrarbrautin.com
Jón Þórhallsson, 12.10.2021 kl. 08:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.