Er "manneskjan" til eða bara hugarburður?

530px-Da_Vinci_Vitruve_Luc_Viatour

Allir sem lesa þennan texta eru manneskjur reikna ég með. Það kæmi mér virkilega á óvart ef einhver sem ekki er manneskja les þetta, og reikna ég þá með að það séu mörg hundruð ár síðan ég skrifaði þetta og þú lest þetta.

En hvað þýðir það að vera manneskja? 

Ég geri ráð fyrir að þetta sé sama spurning og spurð hefur verið í mörg hundruð ár en sumir hafa túlkað sem kynbundna ‘hvað þýðir það að vera maður’, en ég sjálfur hef ávallt túlkað það þannig að maður sé ókynbundið hugtak.

Hvort ætli það að vera manneskja sé föst mótuð hugmynd eða eitthvað sem við búum til á meðan við lifum lífinu og breytum hinum mannlega veruleika? Mig grunar að svarið sé hvort tveggja, og tel ljóst að við höfum frelsi til að skilgreina okkar eigið líf og móta mannkynið í þá átt sem okkur langar. Við höfum þróað valkerfi til að ákveða í hvaða átt við ætlum að stefna, og skásta valkerfið af mörgum slæmum, höfum við flest sætt okkur við, er lýðræðið.

Við getum valið hvort við viljum fara veg frelsis og lista, vísinda og fræða, auðs og vaxtar, laga og reglna, eða látið okkur fátt um finnast um allt sem hefur gerst, og allt sem getur gerst. Þetta er allt val, og sá velur fyrir okkur sem völdin hefur, hvort sem viðkomandi hefur verið kosinn af lýðnum eða hrifsað til sín völdin með lygum og blekkingum, eða erft þau af foreldrum sínum.

Allt þetta val, niður í hverja einustu manneskju, skilgreinir hvað við erum og hvað við verðum sem manneskja. 

Svo er hægt að sjá þetta frá öðru sjónarhorni. Við höfum hugmynd um manneskju. Hún er nokkuð skýr. Við sjáum hana fyrir okkur í huganum. Við áttum okkur á að hún hugsar, getur líklega talað, unnið með höndunum, stendur yfirleitt upprétt, og þar fram eftir götunum. Við getum jafnvel gert okkur í hugarlund hina fullkomnu manneskju, en þá förum við fljótt út í goðafræði og önnur trúarbrögð, enda er slík manneskja ekkert endilega til þó að við getum gert okkur hana í hugarlund. 

En hvað um þessa hugmynd sem við sjáum öll í hendi okkar og er svo auðskiljanleg? Hvernig getur verið að hún sé okkur öllum sýnileg, en eigi sér samt ekki tilvist? Er þessi hugmynd eitthvað sem við fæðumst með? Og ef svo er, var einhver sem gróðursetti þessa hugmynd í huga okkar?

Nú munu einhverjir hrópa ‘Já, það var Guð’ og aðrir ‘Nei, þetta er bara eitthvað í mannlegu eðli sem orðið hefur til með þróun mannkyns’. Ég ætla ekki að skera úr um hvor hópurinn hefur rétt eða rangt fyrir sér, en ljóst er að þessi hugmynd, þetta fyrirbæri sem við köllum manneskjuna, er eitthvað sem við getum gert okkur í hugarlund. Kannski er það form, eins og hinir fornu heimspekingar kölluðu þetta, og svo breytist manneskjan með reynslunni, sem er efnið.

Það er reyndar svolítið magnað að við getum nefnt eitt orð, eins og ‘svín’, ‘hestur’, ‘penni’ eða ‘stóll’ og samstundis sprettur fram mynd í huga okkar. Heimspekingar hafa rætt það sundur og saman hvort að þessi sameiginlega hugmynd sé okkur í raun sameiginleg eða ekki, hvort að hún spretti úr reynslu okkar, eða hvort þetta sé einhver skilningur meðfæddur í okkur öllum.

En ég er nokkuð viss um að ef við reynum að svara þessari spurningu sjálf, og erum tilbúin að hlusta á ólíkar skoðanir, ólík rök, ólíkar hugmyndir, þá munum við í leiðinni komast nær því að svara spurningunni hvað manneskja er og hvort hún sé til eða bara hugarburður.

Hefurðu nokkurn tíma hitt þessa manneskju sem þú gerir þér í hugarlund þegar þú sérð fyrir þér hvað manneskja er?

 

Mynd eftir Leonardo da Vinci - Leonardo Da Vinci - Ljósmynd frá www.lucnix.be. 2007-09-08 (photograph). Photograpy:This image is the work of Luc ViatourPlease credit it with: Luc Viatour / https://Lucnix.be in the immediate vicinity of the image. A link to my website https://lucnix.be is much appreciated but not mandatory.An email toViatour Luc would be appreciated too.Do not copy this image illegally by ignoring the terms of the license below, as it is not in the public domain.If you would like special permission to use, license, or purchase the image please contact me Viatour Luc to negotiate terms.More free pictures in my personal gallery[Note: this is in the public domain, despite the photographer's contradictory claim. Any use is permissible, and no credit to the photographer is necessary.]Nikon case D80 optical Sigma 17-70mm F2,8/4,5 Macro, Public Domain, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=2738140


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband