Getum við valið um að lifa innihaldsríku eða tómu lífi?
17.5.2021 | 21:19
Til að svara þessari spurningu þurfum við fyrst að átta okkur á hvort að innihaldsríkt eða tómt líf sé eitthvað sem kemur fyrir okkur eða hvort það sé eitthvað sem við veljum. Aðstæður okkar geta verið ólíkar, við getum verið á erfiðum stað í lífinu og átt erfitt með að sjá leiðina út úr depurð og inn í hamingjuna, eða getum verið á þægilegum stað þar sem erfiðast er að stinga sig ekki á rósunum sem dansað er á.
Ég tel án nokkurs vafa að hægt sé að vinna sig úr nánast öllum vanda, sama hversu erfiður hann virðist vera. Það er hægt að vinna sig upp úr atvinnuleysi, skuldum, heimilisleysi, alkóhólisma, þunglyndi, áfallastreitu og kvíða, að svo miklu leyti að við getum ekki ákveðið í hverju við lendum, en getum ákveðið hvernig við tökum því sem gerist.
Það eru til alls konar stofnanir í samfélaginu sem hjálpa okkur að sigrast á nánast hvaða vanda sem er, þessar stofnanir innihalda sérfræðinga sem gera sitt best að finna allar bestu aðferðirnar til að styðja við þá sem eru í vanda staddir. Úrræðin eru til staðar, en stundum strandar þessi ákvörðun að nýta þau á manni sjálfum, hugsanlega eigin stolti, eigin skort á von, skort á trú um að hlutirnir geti verið betri.
En það er eitt fyrirbæri í þessum heimi sem getur hjálpað hverjum sem er að finna leiðina að innihaldsríku lífi, jafnvel að hamingjunni. Það felst í að rækta samband, hugsanlega við einhvern hlut, hugsanlega við aðra manneskju, jafnvel við huglægt fyrirbæri. Það er sama hvað þú velur, ef þér tekst að rækta þetta samband og kveikt neista sem fær þig til að elska, þá er það fyrsta og síðasta skrefið í rétta átt.
En þetta verður að vera ást sem endist. Þetta þarf að vera sönn ást. Ekki eitthvað dúllerí, föndur eða framhjáhald. Þetta verður að vera eitthvað eða einhver sem þú getur lært að elska af öllu hjarta, þetta getur jafnvel verið þú sjálf, þó að sjálfsást geti því miður leitt til hörmunga á endanum eins og þeir sem kannast við goðsöguna um Narsissus þekkja vel, en hann var ungur sveinn sem dáðist svo að eigin spegilmynd að hann gat ekki annað en speglað sig í tjörn þar til vatnið gleypti hann.
Það merkilega gerist þegar þú elskar af öllu hjarta, þá verður líf þitt innihaldsríkara, það er eins og einhverjar víddir opnist, og möguleikar þínir til að njóta lífsins opnist með. Ef þú ert á slæmum stað í lífinu hljómar þetta kannski eins og fjarlægur draumur. Það má vel vera. En þessi draumur er raunverulegur, hann getur breytt öllu í tilvist þinni, bætt hana, gert hana skemmtilegri og litríkari. Þú þarft bara að átta þig á hvað er að og fá hjálp til að finna leiðina út.
En það er samt ekkert bara. Fyrst þarf maður að finna djúpt í sjálfum sér að eitthvað er ekki í lagi. Síðan þarf að greina hvað það er sem ekki er í lagi. Hugsanlega þarf sérfræðihjálp til að greina vandann, og svo þegar vandinn hefur verið greindur þarf að finna úrræði sem hægt er að framkvæma.
Ég hef heyrt af fólki sem vill fá hjálp frá sálfræðingum til að greina eigin vanda og finna úrræði, en er ekki tilbúið til að greiða hönd og fót fyrir hjálpina. Nú er búið að festa í lög að fólk geti fengið aðstoð frá sálfræðingum og loforð um að ríkissjóður borgi brúsann. Hins vegar vantar fjármagn til að gera þetta að veruleika.
Eftir kórónuveiruna og langvarandi atvinnuleysi verður ennþá mikilvægara að fólk sem þarf þessa hjálp fái hana. Án þessarar hjálpar gæti stór hlutur þjóðarinnar staðið fastur í einhverju tómi, á meðan það gæti verið að vinna sig inn í innihaldsríkara líf.
Þetta er ekki framboðsræða né ákall til stjórnmálaflokka um að gera betur, heldur ákall til okkar allra, að gera aðeins betur fyrir þá sem minna mega sín á meðal okkar. Og þetta er ein leiðin: að útvega fjármagn fyrir ríkisstudda sálfræðiþjónustu.
Hjálpum þeim sem vilja hjálpa sér út úr myrkrinu.
Athugasemdir
Það er sorgleg staðreynd að við erum varla til.
Jesús segir: "ÉG ER (til)". Biblían segir okkur að allt sem til er eigi tilveru sína í Jesú. En það er vissulega sorgleg staðreynd að ekki eru allir menn til því sumir eru blekking og lýgi. William Shakespeare hafði þetta á hreinu.
Jesús segir þetta við þá sem ekki trúa: "Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.
Innihald lífs er trú á Jesú Krist.
Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 17.5.2021 kl. 23:52
Takk fyrir athugasemdina Guðmundur. Næsta færsla tengist því sem þú ert að velta fyrir þér.
Hrannar Baldursson, 19.5.2021 kl. 21:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.