Aðeins um eyðingarhyggju

TheNoAssholeRule

Eyðingarhyggja (nihilismi) er ein af mörgum mögulegum leiðum til að hugsa um heiminn, og að mínu mati afar vond leið, en manneskja sem lifir eftir þessu hugarfari efast um öll mannleg gildi og þekkingu. Slík manneskja virðir ekki sannleikann viðlits og er líkleg til að vera fjandsamleg óhagstæðum staðreyndum og rökum. Það er ekkert gott eða illt í heimi hennar, engar lygar heldur, enda hvað getur verið lygi í heimi þar sem sannleikurinn er ekki til?

Nihilismi hefur oft verið þýddur sem tómhyggja á íslensku, en mér finnst nærtækara að kalla þetta eyðingarhyggju, þar sem hugtakið er tengt eyðileggingu, rétt eins og ‘annihilation’ þýðir ‘gjöreyðing’. 

Í heimi slíkrar manneskju er engin ást, því að ástin er gildi og gildin ekki til í hennar heimi. Þess í stað finnur hún fyrir girnd og reynir að svala þörfum sínum og kallar það kannski ást enda skipti hana engu máli hvaða orð eru notuð um hlutina enda sannleikurinn ekki til í hennar heimi. 

Slík manneskja efast um áreiðanleika frétta sem byggja á staðreyndum og gildismati fréttamanna, þeirra sem ákveða hvað er fréttnæmt og hvað ekki eftir settum reglum fréttamanna. Ef henni líkar ekki fréttin gæti hún jafnan orðið fjandsamleg fréttafólkinu og úthrópað það sem boðbera ósanninda. Annað eins hefur gerst. Fréttafólk bæði á Íslandi og erlendis hefur verið gagnrýnt fyrir falsfréttir, á meðan gagnrýnin sjálf ætti frekar að vera gagnrýnd sem ósanngjarnt dæmi um eyðingarhyggju.

Slík manneskja gerir ekki greinarmun á samsæriskenningum, skáldskap og sagnfræði, því það að eitthvað hafi gerst skiptir minna máli en að hún geti séð fyrir sér að hlutirnir hefðu getað verið öðruvísi.

Slík manneskja segir og gerir hvað sem er til að sannfæra annað fólk um eigin málstað, sama þó að hún eigi sér engan málstað, með hvaða meðulum sem er, með því fyrst að vekja athygli, helst mikla athygli og þá með því að gagnrýna aðra og tala illa um hvað allir aðrir eru að gera, en dásama í leiðinni sjálfa sig. Þetta getur virkað og þetta hefur virkað. Bæði hérlendis og erlendis. Við þekkjum öll slík dæmi.

Þegar slík manneskja kemst til áhrifa er líklegt að stefna hennar leiði til hörmunga, einfaldlega vegna þess að hún hefur ekki hugmynd um í hvaða átt væri gott að stefna, þar sem að ekkert skiptir hana máli nema kannski að svala eigin hungri, hvers eðlis sem það kann að vera. Þegar slíkar manneskjur komast til áhrifa, óháð flokki eða skoðunum, skilja þær ætíð eftir sig sviðna jörð.

Talað er um slíkar manneskjur sem skíthæla (asshole), en fyrir manneskjur þar sem gildin skipta engu máli er lítið mál fyrir þær að þykjast vera eitthvað annað en þær eru í raun, því að fyrir manneskju sem er innst inni ósönn, getur hún auðveldlega þóst vera hvað sem er og komist upp með það, um stund að minnsta kosti. Þannig getur slík manneskja auðveldlega platað sig inn í áhrifastörf, það eina sem hún þarf að gera er að leika hlutverk sitt nógu vel fyrir rétta áhorfendur.

En veltu aðeins fyrir þér manneskju sem efast á svo öfgafullan hátt að hún efast um allt, trúir alls engu, virðir alls ekkert. Ef slík manneskja yrði að hópi færi hún sjálfsagt um heiminn eins og eldibrandur sem reyndi að eyða öllu því sem stangast á við þessa trú hennar, að ekkert hafi gildi. 

Ég velti þessu til dæmis fyrir mér þegar kemur að mútumálum þar sem fólki er mútað með gjöfum og peningum til að gera eitthvað sem stríðir gegn skyldum þeirra. Báðir aðilar í mútumáli hljóta að aðhyllast einhvers konar eyðingarhyggju, að gildin sem samfélög þeirra byggja á skipti ekki svo miklu máli, hugsanlega engu máli, og séu kannski bara til trafala.

Einnig velti ég fyrir mér fólki sem lýgur blákalt og reynir að sannfæra annað fólk um eitthvað sem augljóslega ekki er satt. Slík manneskja hlýtur að aðhyllast eyðingarhyggju. Það sama á við um þá sem ákveða að fremja skipulagða glæpi. Þetta er fólk sem vantar tengsl við veruleikann, og er fullt efasemda um öll gildi sem við flest virðum og notum til að byggja traust samfélag.

Slíkar manneskjur eiga það til að ráðast á saklaust fólk til þess að ná sínu fram.

Það er til frábær bók um hvernig slíkar manneskjur sem ráðnar eru inn í fyrirtæki geta skaðað fjárhagsstöðu þess til lengri tíma, því að þegar svona manneskjur safnast saman rústa þær smám saman því sem byggt hefur verið upp. Þessi bók heitir “The No Asshole Rule” og er eftir Stanford prófessorinn Robert I. Sutton. Mæli með henni. 

Stóra spurningin er hvernig hægt er að koma í veg fyrir að eyðingahyggja nái farvegi í okkar eigin lífi, hvað gerum við til að komast undan slíkum áhrifum eða koma í veg fyrir að þau vaxi? Eða erum við kannski það langt leidd sjálf að slíkir hlutir skipta okkur ekki máli, og þar af leiðandi orðin að einhverju leyti eyðingarhyggjufólk?

 

Mynd af síðu Amazon


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þetta er mjög þörf grein hjá þér og nákvæmlega rétt útlistun á afleiðingum níhílismans, eyðingarstefnunnar, eða gjöreyðingarstefnunnar. Þessi stefna er búin að gegnsýra okkar vestrænu samfélög býsna lengi, og tók við af rómantísku stefnunni og þjóðfrelsisstefnunni á 19. öld. 

 

Ef vel er að gáð sést að níhilisminn spilaði stórt hlutverk í trúleysisstefnu Sovétríkjanna sálugu. Hann er ennþá að verki í samtímanum, þar sem fólk hugsar um eigin hag frekar en hag fjöldans, enda er það síðasta vígi þess einstaklings sem misst hefur trúna á næstum allt. 

 

Þú spyrð hvernig hægt er að koma í veg fyrir að eyðingarhyggjan nái farvegi í okkar eigin lífi. 

 

Vandinn er sá að ég held að fæstir hugsi um þetta á eins heimspekilegum nótum og þú, fólk verður fyrir andlegum áhrifum og gerir sér ekki grein fyrir hvers vegna það hugsar á einhvern hátt og hvort þörf sé á að breyta því. 

 

Hér er á ferðinni arfur frá fortíðinni sem má missa sín. Að vísu er eyðingarstefnan frekar ný í mannkynssögunni, en ég hygg að þetta sé viðkvæmt mál fyrir sumar stjórnmálahreyfingar, sem hafa byggt sínar byltingarkenningar á svona eyðingarstefnu, hún hefur opnað dyrnar fyrir breytingar sem síðar hafa verið nefndar góðar.

 

Að lokum vil ég vitna í konu hér á bloggsvæðinu sem í fyrra fjallaði um "Frankfurt skólann", og sagði allt þetta niðurrif hafa byrjað eftir 1920. 

 

Af hennar orðum að dæma eru skarast starfsemi leynifélaga og stjórnmálaflokka, og niðurrifsstarfsemi stunduð víða. Það er svo sem augljóst. 

 

Margar af heilögu kúnum í stjórnmálahreyfingum nútímans eru mjög undir áhrifum frá eyðingarhyggjunni. Er fólk tilbúið að taka slíka umræðu? Það er bara nauðsynlegt.

 

Ég tek vissulega undir það sem kemur fram hér.

 

Ingólfur Sigurðsson, 6.5.2021 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband