Kapphlaupið um lífsgæðin
1.5.2021 | 22:40
Manneskjur eru sífellt á fleygiferð hvar sem er í heiminum. Reyndar hvílast þær flestar á nóttinni, en yfir daginn skjótast þær fram og til baka á fleygiferð, alltaf að flýta sér að komast eitthvert annað, kannski vegna þess að þeim sýnist grasið alltaf vera grænna hinumegin.
Við keppumst um að eignast hús og bíla, tæki og alls konar. Keppum við hvert annað í íþróttum og spilum. Setjum bestu listamennina nánast í guðatölu, hvort sem það eru söngvarar, skáld, kvikmyndagerðarmenn, málarar eða tölvuleikjahönnuðir.
Við sjáum þá sem gera góða hluti og njótum þess að fylgjast með því, en jafnframt viljum við sjálf geta gert jafnvel og hugsanlega betur. Við erum í stöðugri samkeppni, hvort sem það er við annað fólk, eða við okkur sjálf.
Ef við hættum að keppast við að bæta okkur, stöndum við í stað í heimi sem er sífellt á fleygiferð. Það að stoppa í þessum heimi er svipað og að stoppa bílinn á hraðbraut og stíga út. Það er stórhættulegt. Við þurfum alltaf að leita einhvers.
Spurningin er hvers skulum við leita?
Ef við leitum efnislegra hluta, það er hluta eins og peninga og allt sem þeir geta keypt, þá fáum við aldrei nóg. Það er einfaldlega eðli efnisins, ef við viljum bara meira, þá er alltaf hægt að vilja meira, sama þó að það sem við höfum geti verið nóg.
Ef við leitum andlegra hluta er líka alltaf hægt að finna meira, en það furðulega við hið andlega er að eftir því sem maður hefur meira af því, hefur maður minni þörf fyrir hið efnislega. Ætli það virki ekki eins á báða bóga? Efnisleg gæði snúast um að stækka eigin tilveru á þessari jörðu út á við, en andleg gæði snúast um að átta sig á eigin tilvist, þau leita inn á við.
Auðvitað getur sérhver manneskja lifað í báðum þessum heimum, fundið jafnvægi á milli andlegra og efnislegra gilda. Það er ekki eins og við séum bara annað hvort efnislegar eða andlegar verur, eða réttara sagt, við ættum ekki að vera það.
Sú sem er algjörlega efnisleg reynir að dreifa úr sér eins og mykjudreifari, án þess að velta fyrir sér hvort hún sé að bæta heiminn eða ekki. Þá er það bara sjálfið sem skiptir máli, óháð því hversu ánægt eða vansælt það kann að vera. Líkast til er það afar vansælt þegar einu gæðin sem skipta máli í lífi viðkomandi eru efnisleg.
Sumt fólk hellir sér algjörlega út í andlegu gæðin. Það er einhvern veginn erfiðara að gagnrýna slíkt fólk, en þau sem standa sig vel þar verða að fyrirmyndum fyrir þá sem á eftir fylgja. Hægt er að nefna nokkur góð dæmi: Platón, Sókrates, Aristóteles, Jesús, Múhammed, Búdda, Gandhi, Móðir Teresa og fjöldinn allur af eðalfólki sprettur þarna fram.
Siðferðið virðist vera það sem tengir saman efnisleg og andleg gæði, það sem við gerum ekki aðeins fyrir sjálf okkur heldur einnig fyrir aðra í heiminum. Þar vegur mikið hamingjan, ástin, vináttan, réttlætið, hugrekki, hreinskilni, heiðarleiki og þar fram eftir götunum. Þeir sem lifa aðeins í hinum efnislega heimi gætu verið tortryggnir á slík hugtök og talið nóg að fylgja eftir lögum eða gera það sem maður getur komist upp með, og það sé nóg, en þeir sem eru meira andlega þenkjandi vilja skilja dýptina á bak við af hverju við setjum lög og reglur, og af hverju við þurfum að breyta rétt.
Mynd eftir Oleksandr Pyrohov frá Pixabay
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.