Hraunið og tíminn

eldgos

Um daginn gekk ég að gosinu í Geldingadölum og fannst það tilkomumikið. Við förunautur minn ræddum aðeins um kraftinn í þessari jörðu og hvernig mannlegur máttur gæti engan veginn staðið í vegi fyrir flæði hraunsins. Það minnir mig á tímann, hvernig hann silast áfram og ryður öllu öðru úr vegi, er kraftmeiri en allt sem reynir að standa í vegi fyrir honum. Ekkert stenst tímans tönn. 

Svo fer ég að velta fyrir mér því sem skiptir máli. Er hægt að gera greinarmun á því sem annars vegar kemur fljótt inn í þennan heim og hverfur svo fljótt aftur, eitthvað eins og tískubylgja, líf dægurflugu, lítið lag eða heitur hraunmoli og hins vegar einhverju sem kemur seint og hverfur seint, eða hugsanlega einhverju sem varir alltaf í þessum heimi? 

Af því sem líður hægt inn í þennan heim og svo hægt út úr honum aftur getum við talið hluti eins og tré, fjöll, fjölskyldur, samfélög, lönd, plánetur, sólina, stjörnuþokur og jafnvel alheiminn. 

En er eitthvað sem varir að eilífu? Getum við sagt að alheimurinn vari að eilífu þar sem kenningar eru til um hvernig hann varð til úr mikla hvelli og mun síðan á endanum skreppa saman inn í svarthol, sem síðan springur sjálfsagt aftur út síðar með öðrum miklum hvelli, eða eins og einhver húmoristi sagði, með smá væli? 

Í þessum heimi er erfitt að finna eitthvað varanlegt. Það er að segja þegar við tölum um hluti. En þegar við förum yfir í andlegu hliðina, þá finnum við fullt af hugmyndum sem virðast varanlegar, og stinga upp höfðinu í ólíkum menningarheimum, óháð trúarbrögðum eða siðum.

Til dæmis virðum við visku, góðmennsku og hugrekki umfram fáfræði, illmennsku og heigulshátt hvert sem farið er. Svo eru það þeir sem trúa á eilífan Guð og ódauðleika sálarinnar. Eins og gefur að skilja verður fátt sannreynt um slíka hluti, enda eiga vísindi fyrst og fremst við um hinn efnislega heim, þó að ýmis fræði snerti á þeim andlega. Og það kæmi mér alls ekki á óvart þó að öll hin andlegu gæði hverfi þegar mannkynið er horfið á brott. 

Og ég velti svolítið fyrir mér, þúsund árum eftir að mannkynið er horfið af jörðinni, og þá ekkert endilega í geimskipum, heldur hefur liðið undir lok eins og svo margar aðrar dýrategundir, verður þá eitthvað eftir sem hægt væri að kalla sál mannkynsins? Mun eitthvað lifa okkur af? Verða borgir okkar og byggingar étnar upp af gróðri og tímanum sjálfum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband