Af hverju er svona erfitt að skilja heiminn og sjálfan sig?
28.4.2021 | 23:19
Sá sem reynir að skilja sjálfan sig og heiminn áttar sig fyrr eða síðar á þeim vanda að allt er stöðugt að færast úr stað, að þegar maður nær loks tökum á einhverju fyrirbæri, sama hvort það er hlutur eða skilningur, þá breytist eitthvað sem veldur því að hann rennur milli fingra okkar og hverfur út í tómið. Bæði er heimurinn stöðugt að breytast og við líka.
Það sérstaka við sjálfskilninginn er að þegar við höfum loksins öðlast innsæi í sjálf okkur, þá erum við ekki búinn að höndla endanlega hvernig við erum, heldur höfum við færst upp um stig, við skiljum aðeins meira sem þýðir að heimur okkar stækkar aðeins meira, sem þýðir að við þurfum að leggja meiri vinnu á okkur til að ná utan um hið breytta sjálf.
Og þannig gengur þetta, rétt eins og í goðsögninni um Sísýfos sem stöðugt ýtir stórum grjóthnullungi upp brekku, og þegar hann komst loks á toppinn rann hann alltaf niður hinumegin. Nema að þegar við lítum til baka upp brekkuna eftir að hafa elt hnullunginn niður hlíðina, þegar við höfum öðlast meiri skilning, hefur hóllinn stækkað og svo eftir nokkur skipti til viðbótar orðið að svo háu fjalli að enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi, og þannig verður þrautin sífellt þyngri og erfiðara að ljúka henni.
Málið er að til að skilja okkur sjálf og heiminn þyrftum við að frysta tímann. Ef við gætum fryst tímann myndum við hætta að lifa lífinu og breyttum því sem við erum. Það hefur áhrif á niðurstöður rannsóknarinnar ef rannsóknin sem slík breytir okkur í eitthvað annað, nokkuð sem gerist alltaf þegar við öðlumst dýpri skilning á sjálfum okkur.
Málið er að við þurfum tíma til að öðlast þennan skilning og við þurfum líka að lifa lífinu, öðlast dýpri skilning á meðan við lifum því og framkvæmum. Við þurfum að átta okkur á að við erum ekki fullkomnar verur, að okkur mun alltaf skorta einhvern skilning eða þekkingu, sama hvað það er sem við tökum okkur fyrir hendur, og að við þurfum stöðugt að læra eitthvað nýtt, sem er viðeigandi fyrir nýjar aðstæður.
Ef við ákveðum að hætta að læra á einhverjum ákveðnum tímapunkti, höldum að við höfum lært nóg, klárað allt nám, þá munum við ekki ná góðum árangri í störfum okkar.
Þar sem við erum alltaf að læra og alltaf að framkvæma gefst lítill tími til að skilja heiminn og mann sjálfan. Þó eru til undantekningar á þessu. Einn besti fjárfestir í heimi, Warren Buffett, er þekktur fyrir að vera stöðugt í námi, hann lokar sig inni á skrifstofu sinni og les gegnum ársskýrslur fyrirtækja, les bækur og spilar heilmikið brids á netinu. Hann hefur öðlast djúpan skilning á fyrirtækjarekstri og sjálfum sér með þessum stöðugu pælingum í fjölmarga áratugi. En jafnvel hann viðurkennir að mistök hans eru mörg og þekking hans takmörkuð, reyndar það takmörkuð að hann skoðar aðeins fyrirtæki sem hann getur skilið. Einn af hans mestu styrkleikjum er að átta sig á hvað er ofan hans skilningi og hvað hentar honum. Ef honum finnst of erfitt að skilja rekstur fyrirtækis, hendir hann skjölum viðkomandi í hólf sem segir of erfitt, og flest af því sem hann skoðar lendir reyndar í þeim bunka. Það gerist öðru hverju, kannski einu sinni á ári, að hann finnur eitthvað nýtt og spennandi.
Þessi viska Warren Buffets minnir svolítið á visku Sókratesar, sem komst að því að hann væri vitrari en flestir aðrir samferðamenn hans gegnum tíma og rúm vegna þess að hann áttaði sig á takmörkunum eigin þekkingar, hann áttaði sig á hvað hann vissi ekki, en flestir aðrir töldu sig vita eitthvað sem var utan þeirra sérfræðisviðs, og Sókrates hafði lag á að sýna þessu fólki að það vissi ekki jafn mikið og það taldi sig vita. Þannig safnaði hann að sér óvinum sem á endanum dæmdu hann til dauða. En það er önnur saga.
Kannski er málið að það er ómögulegt að skilja allt sem tengist okkur og allt í heiminum. Kannski getum við bara skilið einhvern einn hlut. Ekkert annað. Vandinn getur verið að velja þennan eina hlut og verja lífinu í að rannsaka hann, og átta sig á að allt annað en þessi eini hlutur er utan okkar skilnings, og jafnvel hluturinn sjálfur, sérstaklega ef við lærum sífellt meira um þennan eina hlut - námið á honum lýkur ekki frekar en nokkuð annað nám.
Mynd eftir Gordon Johnson frá Pixabay
Athugasemdir
Hvað er það sem að þú skilur ekki?
Jón Þórhallsson, 29.4.2021 kl. 07:18
Jón. Kannski er þetta þannig að því minna sem maður veit, því meira telur maður sig skilja, og því meira sem maður veit, því minna telur maður sig skilja.
Hrannar Baldursson, 29.4.2021 kl. 10:44
Aðal-atriðið er að fólk sé alltaf með einhverjar SPURNINGAR á lofti sem að það vantar svör við svo að einhver framþróun eigi sér stað.
Jón Þórhallsson, 29.4.2021 kl. 16:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.