Stöndum gegn auðræði og með þeim kúguðu
27.4.2021 | 08:29
Í sérhverju samfélagi eru manneskjur sem styðja við þá sem standa höllum fæti, fólki sem skortir hluti eins og menntun, fjármuni, heilsu eða atvinnu. Í heilbrigðu samfélagi styðja stjórnvöld slíkar manneskjur með stofnunum og kerfum, til dæmis með skólum og miðlum til að vernda sannleikann, spítala og heilbrigðiskerfið til að vernda heilsuna, lögreglu og slökkvilið til að vernda öryggi, og svo fram eftir götunum.
Þessar stofnanir eru svo rótgrónar um víða veröld að okkur getur þótt þær vera sjálfsagður hlutur. En þær eru það ekki. Þær eru stofnaðar til að vernda okkur gegn ýmsum ógnum, og þessar ógnir eru sífellt á ferðinni.
Í sumum samfélögum þar sem siðferði er ábótavant er þekkt að fjársterk fyrirtæki noti áhrif sín til að múta embættismönnum í stofnunum til að ná sínu fram. Þetta er þekkt í heimi alþjóðaviðskipta og þess vegna ber fyrirtækjum skylda til að mennta eigið starfsfólk í siðfræði og lögum, sem sýnir þeim að slík hegðun er ekki ásættanleg. Samt eru sum fyrirtæki spillt, einhverjir siðlausir einstaklingar eru ráðnir inn sem ráða síðan fleiri siðlausa einstaklinga sem hvorki virða lög né almennt siðferði. Þetta er fólkið sem býr til ógn gegn heilum samfélögum.
Í traustum samfélögum geta embættismenn sem reynt er að kúga, til dæmis með mútum og ef það gengur ekki, hótunum eða öðrum slæmum meðölum, staðið í fæturna og treyst á að samfélag þeirra standi með þeim gegn ógnvaldinum. Í veikari samfélögum fá þessir einstaklingar engan slíkan stuðning og þeim rutt í burtu af miskunnarleysi.
Ekki má gleymast að þessir einstaklingar eru þeir sem eru að verja þá sem verr standa í samfélaginu, og þeir geta stutt þá með því að hafa stofnun í kringum þá sem ver þá gegn slíkum ógnum. En þegar stofnanirnar bregðast þessu fólki og þegar samfélagið bregst þeim, þá er harmleikur vís.
Þeir sem vilja sölsa undir sig völdin í samfélaginu (þetta fólk er til), reyna að gera ríkjandi stofnanir tortryggilegar. Hugtök eins og falsfréttir eru búin til einmitt í þeim tilgangi. Í slíkum samfélögum er lítið fé lagt í menntun fólks, og oft meira í vopnabirgðir og heraga, þannig verða manneskjur gerðar að tækjum fyrir þeim sem völdin hafa, í stað lýðræðislegra þegna sem beita gagnrýnni hugsun af frjálsum vilja.
Við þurfum að vernda embættismenn okkar, þessar hetjur sem eru það róttækar að verja lífi sínu í að verja sannleikann, heilbrigði og öryggi okkar, í að verja þessar þarfir okkar og gildi sem gefa lífi okkar sérstöðu og merkingu. Mikill fjöldi þessara hetja starfa bakvið tjöldin og enginn þekkir þau, og sum eru þau í sviðsljósinu og þurfa að þola mikla hríð árása, einfaldlega vegna þess að þau eru að vinna vinnuna sína.
Stöndum með þessu fólki. Stöndum gegn auðræði og með þeim kúguðu.
Mynd eftir kirillslov frá Pixabay
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.