Hvernig getum við komist hjá því að spillast?

global-warming-2958988_1920

Þegar ég var krakki man ég eftir að börn töluðu svolítið um að eitthvað barn spillti öðru barni, þannig að barnið hætti að haga sér eins og það átti að haga sér, en fór að haga sér meira eins og hitt barnið sem spillti því. Þetta heyrðist nokkuð oft á mínum æskuslóðum, og ég held svei mér þá að ég hafi tekið þetta sem alvarlegan möguleika og ákveðið að láta aldrei spilla mér.

Það má reyndar spyrja að því hverju var verið að spilla, í þessu dæmi var verið að spilla hegðunarmynstri, en sjálfsagt væri hægt að setja alls konar viðmið. Til dæmis þegar trúuð manneskja hættir að trúa, gæti hið trúaða samfélag talað um að búið væri að spilla viðkomandi. Á sama hætt gætu hinir trúlausu talað um að einhverjum hafi verið spillt ef viðkomandi snýr frá trúleysi yfir í trú. 

Einu sinni spillti starfsfélagi minn á bensínstöð Egils appelsíni með tvígengisolíu. Ég veit og man þetta því ég drakk drykkinn úr glasi og var með ógeðsbragð lengi á eftir. Það væri reyndar hægt að snúa þessu við og segja að appelsínið hafi spillt tvígengisolíunni, því varla var hún nothæf eftir að hafa verið blandað í appelsín. Sláttuvélar og trabantar hefðu sjálfsagt brugðist svipað við og ég eftir að kyngja þessu drykk.

En þegar við tölum um að eitthvað spillist erum við að ræða um eitthvað sem fer úr góðu ástandi yfir í verra ástand. Sjúkdómur getur spillt heilbrigði okkar og gert okkur veik. Fíkn getur spillt geðheilsu okkar og við getum bæði henni og sjálfum okkur. Slæm hegðun getur spillt menntun okkar og gert okkur að verri manneskjum. Flest þetta góða sem við höfum í lífinu er eitthvað sem við höfum byggt, og því getur öllu verið spillt og hægt er að leggja það í rúst. 

Eru til manneskjur sem ekki er hægt að spilla? Þó að engin manneskja sé nógu öflug til að sigrast á öllu illu, enda erum við víst þannig að við töpum öll á endanum fyrir tímanum og dauðanum, eru til manneskjur það sterkar að þær geti staðist einhverjar tegundir spillingar? Að þegar tvígengisolían blandast í huga þeirra, sál eða líkama, að þær getir sigrast á spillingunni, drukkið hana í sig og spýtt henni út?

 

Mynd eftir Chris LeBoutillier frá Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband