Ég er kennari. Bæði hef ég lesið töluvert um kennslu, rætt við aðra kennara og sérfræðinga og lagt mig fram við að læra ennþá meira til að skara fram úr sjálfum mér í þessu starfi. Það er margt sem ég hef lært í mínum fræðslustörfum sem var mér alls ekki augljóst þegar ég sat sjálfur á skólabekk. Sem krakki og unglingur taldi ég að best væri að læra með því að einbeita mér að viðfangsefninu, gera æfingar og endurtaka þær, lesa texta það vandlega að skilningur um málefnið yrði skýr og hafði aldrei tröllatrú á að leggja allt mögulegt á minnið. Það er ekki vegna þess að það er eitthvað slæmt, heldur einfaldlega eitthvað sem hentaði mér ekki. Við lærum á ólíkan hátt, sumir þurfa að skilja merkinguna bakvið það sem þér eru að læra, aðrir þurfa aðeins að leggja hlutina á minnið stundarkorn. Ef þú lærir merkinguna ertu líklegri til að muna þekkinguna lengur en ef þú leggur hana samhengislaust á minnið er hún líkleg til að hverfa fljótt.
Ég er líka skákmaður. Finnst æðislegt að sitja á móti annarri manneskju og tefla. Í undirbúningi fyrir skákmót les ég bækur um byrjanir, skipulag, taktík og allskonar, auk þess æfi ég mig að tefla á netinu og á skákæfingum með félögum. Ég hef áttað mig á að sama hvað ég les mikið og stúdera sjálfur, þá læri ég hvergi meira en þegar ég tefli við annað fólk. Það er eitthvað sem gerist, einbeitingin eykst, spennan verður raunveruleg og maður þarf að vanda sig meira. Að tefla er í raun prófið sem maður þarf að standast. Stundum nær maður góður árangri, stundum ekki. Það getur verið erfitt að átta sig á af hverju eitthvað klikkar þegar það klikkar. Ein góð leið er að fara heim og leggjast yfir eigin taflmennsku og skoða eigin mistök, ennþá betra væri að fara yfir eigin skák með annarri manneskju. Það er nefnilega eitthvað sem gerist þegar við lærum saman, eitthvað sem gerist ekki þegar maður lærir einn.
Þegar kemur að kennslu í skólastofu hef ég löngu áttað mig á að ein besta leiðin til að deila þekkingu og skilningi, að minnsta kosti í þeim fögum sem ég hef kennt, er að hvetja nemendur til að ræða saman, deila reynslu sinni og pælingum. Þá er mikilvægt að vera skýr um að samræðan sé ekki eins og kappræða, en kappræða snýst um að sannfæra aðra, ná vinsældum og að keppast um að vera bestur á meðan samræðan snýst um að ræða saman, átta sig á hugmyndum, bæði eigin og annarra, og reyna að komast nær eigin skilningi, ekkert endilega sameiginlegum skilningi, um ýmis mál.
Þegar ég les heimspekitexta, til dæmis eitthvað eftir Platón, Aristóteles, Descartes, Hegel eða Kant, þá á hugur minn til að flakka eitthvert annað, ekki í einhverja tilviljunarkennda draumóra, heldur eltandi uppi hugmyndirnar sem spretta fram þegar ég les, svolítið eins og hundur á eftir beini. Þegar ég les þessa sömu texta með öðrum, stundum aðeins einni manneskju, stundum hópi, þá gerast undur og stórmerki. Textinn öðlast nýtt líf í ólíkri túlkun þeirra sem lesa hann og í ólíkum spurningum sem við spyrjum og í samræðunum áttum við okkur á hliðum sem okkur hefði aldrei dottið í hug sitjandi alein við arineldinn heima, í hægindastólnum með lampann yfir höfðinu.
Einhver galdur á sér stað. Heimspekin, sem áður var kannski eitthvað fjarlægt og óraunverulegt, sprettur lifandi upp úr textanum og dansar um huga okkar og málbönd, og við getum ekki annað en heillast með því við þurfum ekki annað en að snerta hana til að hún fari á flug.
Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég skrifa þessa texta, meðal annars þennan texta, mig langar að pæla í heimspeki og þegar ég sé að einhver er að lesa þetta (ég sé það á heimsóknartölum og stundum athugasemdum), þá finnst mér ég ekki vera einn að velta þessum hugmyndum fyrir mér, heldur í félagsskap. Þessi tilfinning er nógu mikils virði til að setjast við bloggskrif á hverju einasta kvöldi þegar tími gefst, og ekki aðeins reyna að átta mig á eigin hugmyndum, heldur koma þeim í orð, og kannski átta mig á þeim með því að koma þeim í orð. Hugsanlega væri hægt að nota eitthvað af þessum textum til að koma í gang samræðum um heimspeki, í einhverri framtíð sem ekki er ennþá ljós. Kannski núna.
Mynd: Pixabay
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.