Um sannfæringu

handshake-3139227_1920

Við höfum öll einhverja sannfæringu í lífinu og stundum eru þær andstæðar sannfæringum annarra. Þessi staðreynd er ein forsenda lýðræðis, þar sem að ólíkar hugmyndir koma saman og yfir ákveðinn tíma verða sumar þeirra ofan á en aðrar ekki. Þetta er óneitanlega betra stjórnarfar en þegar einvaldur ræður öllu, þar sem einungis ein sannfæring ræður hvernig allir þegnar lifa lífinu, hverju þeir eiga að trúa, hvernig þeir eiga að hugsa, og þrælbindur þannig bæði huga og líkama, en kannski ekki sál, hvers manns. Það er svipað þegar auðræði ræður ríkjum, þá miðast lífsgæðin við að þeir sem eiga auðinn, eiga landið og þannig starfskraftinn sem þjóðin býður upp á. Sannfæring auðræðisins snýst um hvernig hægt er að hámarka hagnað fyrir þá sem eru þegar við völd. Þannig eru bæði einræði og auðræði andlýðræðislegar hugmyndir.

Í lýðræðisríki þurfum við að flétta saman öllum okkar sannfæringum, og bera hæfilega virðingu fyrir öllum þeim ólíku skoðunum sem fram koma, þó helst ekki með sannfæringum sem leiða til hörmunga, en slík sannfæring er oftast byggð á misskilning eða röngum upplýsingum. Vandinn vex þegar fólk fer að trúa slíkri sannfæringu og er ekki tilbúið að endurskoða forsendur eigin trúar.

Það er til fólk sem er sannfært um að best sé að lifa lífinu í samræmi við það sem yfirvaldið segir, hvort sem að yfirvaldið sé falið í skikkju trúarbragða eða pólitíkur. Þegar kemur að trúarbrögðum eru það yfirleitt foreldrar sem velja leiðina fyrir barnið, sem síðan þarf að staðfesta trú sína með manndómsvígslu eins og fermingu, veiða eitthvað dýr úti í skógi eða kaupa fulla búðarkerru úti í búð. Ef manneskja kemst til valda í samfélaginu, og verður þannig yfirvald, óháð því hvort að hann náði völdum löglega eða með svikum og prettum, þá er sumt fólk sannfært um að það sé þeirra skylda að fylgja honum sem yfirvaldi í einu og öllu.

Svo er annað fólk sem heldur að blind trú og hlýðni séu hræðileg mistök, að betra sé að hugsa sjálfstætt og beita gagnrýnni hugsun þegar teknar eru mikilvægar ákvarðanir, að það sé eðlilegt að efast um gildi trúarstofnanna og verk stjórnmálamanna sem eru við völd. 

Enn annað fólk festir sig við ákveðnar sannfæringar og velur sér trúarbrögð og stjórnmálaflokka sem passa við þær. Þannig eru sumir sem leggja áherslu á að vernda umhverfið, aðrir sem leggja áherslu á velmegun og ríkidæmi, enn aðrir sem leggja megin áherslu á jöfnuð, sumir vilja ganga í Evrópusambandið og aðrir vilja það alls ekki, sumir vilja gæta að öldruðum og öryrkjum á meðan öðrum finnst það lítilvægt mál. Sumir vilja vernda hag bænda og sjómanna, en aðrir vilja vernda hag allra þegna þjóðarinnar, óháð störfum eða skuldbindingum. Sumir vilja að landið sé aðeins fyrir þá sem fæddust í landinu og geti rekið ættir sínar ellefu ættliði innanlands, en öðrum finnst eðlilegt að engu máli skiptir hvaðan þú kemur, svo framarlega sem þú ert tilbúinn að leggja þitt af mörkum þar sem þú býrð. Þessi flóra er mikil og misjafnlega skemmtileg og stundum hættuleg, stundum skaðleg og stundum það sem heimurinn þarf. 

Stefnan sem við veljum á Íslandi er ráðin í kosningum á fjögurra ára fresti. Stundum veljum við vel, stundum veljum við illa. Stundum eru þeir sem hafa rétt fyrir sér í minnihluta, stundum í meirihluta. En enginn virðist nokkurn tíma hafa rétt fyrir sér í einu og öllu.

Þeir sem ná völdum þurfa líklegast að vera listamenn að einhverju leyti. Þetta er fólk sem þarf að geta tjáð eigin skoðanir og sannfæringu, og safnað fólki saman í kringum málstaðinn, í kringum sannfæringuna.

Í allri þessari ringulreið sannfæringa getur gleymst að sannleikurinn kemur ekki úr sannfæringunni, heldur utan frá, við uppgötvum hann með vísindum og fræðum, innsæi í mannlegt eðli og skilningi á heiminum. Og sannleikurinn kemur hægt í ljós á meðan sannfæringin getur skotist hundrað sinnum kringum heiminn. Sannfæringin þarf að vera vinsæl til að verða almenn, en sannleikurinn er yfirleitt frekar leiðinlegur og sumum virðist finnast betra að hunsa hann bara.

Sannfæring mín er þannig: heimsmynd okkar allra er í mótun og ég er stöðugt að læra eitthvað nýtt eða átta mig betur á hvernig málunum er háttað. Ég hlusta á ólíkar hliðar, reyni að skoða þær vandlega, og tek svo mínar ákvarðanir og held þeim möguleika opnum að ég geti haft rangt fyrir mér og gert mistök. Ég reikna reyndar með að þekking hverrar einustu manneskju sé svo takmörkuð að allir hafi margoft rangt fyrir sér og geri margoft mistök. Harmleikurinn felst í því þegar maður er ekki tilbúinn að viðurkenna fyrir sjálfum sér að maður hafi rangt fyrir sér eða hafi gert mistök. 

Einnig held ég að slíkar sannfæringar séu einkamál, og að hver og einn megi hafa sína eigin sannfæringu og ef þú hefur ólíka sannfæringu um lífið og tilveruna, þá er það bara í fínu lagi, en ég er tilbúinn að rökræða við þig og móta áfram mínar eigin hugmyndir um þína og mína eigin sannfæringu á grundvelli skynsamlegra raka. Ef ég dæmi sannfæringu þína sem skaðlega eða til þess gerð að hún bæti heiminn, þá er það algjörlega mitt mál, og þitt mál hvort þú hlustir á mig eða ekki.

Í þessari leit minni krefst ég þó almennrar kurteisi og að fólk ræði saman af einlægni og sé tilbúið til að skoða forsendur eigin sannfæringar. Ef þú ert ekki tilbúinn til þess, og ég verð var við hegðun sem mér líkar ekki, þá gæti ég misst áhugann á að kynnast þér betur, enda vex maður aðeins og dafnar í samskiptum við heilsteyptar manneskjur.

 

Mynd: Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband