Hverjar eru forsendur þess að geta notið lífsins?

Þessi spurning er flóknari en virðist við fyrstu sýn og krefst þess kannski að við spyrjum hvað það er að lifa og hvað það er að njóta.

Það að lifa hlýtur að tengjast því að uppfylla grundvallarþarfirnar: að nærast á súrefni, vatni og mat, hafa gott skjól fyrir náttúrunni með fötum og húsnæði, hafa hreint í kringum sig, aðgang að salerni, og kannski sturtu eða baðkeri. Allt þetta stuðlar að heilbrigðu lífi, en þegar við lifum heilbrigðu lífi getum við notið þess, ef heilsan brestur mun mest af athygli okkar beinast að veikleikum. Það er varla gaman. Það að lifa er semsagt heilbrigt líferni, við þurfum að næra okkur vel, halda okkur á hreyfingu, sofa vel og láta streitu ekki fara neitt alltof langt út fyrir þægindarammann.

Að lifa heilbrigðu lífi er semsagt skilyrði fyrir því að njóta. Og það er hægt að njóta ýmislegs í lífinu. Það er hægt að njóta matar og drykkja, en þó þarf að passa sig á að éta og drekka ekki of mikið. Það er hægt að njóta þess að leika sér spila, en aftur þarf að passa sig aðeins á meðalhófinu. Að njóta einhvers til styttri tíma er frekar auðvelt - hægt að skella sér í bíó, hægt að klífa tind, hægt að dansa og syngja nokkur lög; en það að njóta til lengri tíma gæti verið vandasamara, og virðist krefjast þess að við lifum lífinu vel, en það þýðir sjálfsagt ólíka hluti fyrir ólíkar manneskjur.

Væri mikil nautn að geta hámað í sig ís og páskaeggjum viðstöðulaust? Bragðið svo unaðslegt, það gefur einhvern ljóma, eitthvað undursamlegt, einhverja nautn. En svo gerist eitthvað sem við höfum ekkert vald á: Maður fitnar of mikið, fer að upplifa heilsuvandamál sem geta verið tengd hjartanu eða sykurmagninu í blóðinu. Og í ljós kemur að ef maður nýtur ekki íss og páskaeggja í hófi, hefur það afleiðingar sem koma í veg fyrir að maður geti lifað og notið til lengri tíma. Þarna kemur í ljós að of mikil nautn getur komið niður á heilbrigði okkar, og ef við þurfum að hafa áhyggjur af heilbrigði okkar, eins og áður segir, þá fer meiri athygli í að hugsa um heilsuna en að njóta.

Sumir hafa farið flatt á því að sækjast í sæluna sem fylgir vímuefnum, áfengi og sígarettum tímabundið, en til lengri tíma litið er engin sæla í þeirri framtíð. Afleiðingar of mikils af annarlegum efnum kemur niður á heilsunni.

Sams konar freisting birtist þegar kemur að öllu efninu sem hægt er að nálgast á sjónvarpsveitum eins og Netflix, Prime og Disney+, og heldur betur hægt að festast í snappinu, Facebook og tölvuleikjum. Spurningin er hvort að slíkt hafi slæm áhrif á heilsu okkar, sjálfsagt verður slíkur lífsstíll rannsakaður af dýpt. Heyrst hefur að sófinn sé hin nýja sígaretta, eitthvað sem okkur finnst algjörlega sjálfsagður hluti af daglegu lífi og leið til að slaka á að leggjast upp í sófa eða hægindastól, en of mikið af því getur vafalaust verið hættulegt heilsunni. Við vitum það ekkert endilega í dag, en sannleikurinn kemur í ljós með tíð og tíma.

En hvað getum við valið til að lifa og njóta? Þurfum við bara að velja það sem er skynsamlegt og í hófi? Borða grænmeti og ávexti, hæfilegt magn af próteini og kolvetni, forðast sykur og hveiti? Hreyfa okkur reglulega, fara út að ganga, hlaupa eða hjóla, skella okkur í ræktina? Horfa bara á einstaka þætti eða bíómyndir, takmarka tíma okkar á netinu, festa okkur ekki í leikjaheimum?

Eða eru það bara forsendurnar til að geta notið lífsins almennilega? Getum við kannski bara sleppt af okkur beislinu þegar við höfum unnið okkur inn fyrir því með skynsamlegum lífsstíl?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

MASLOV-pýramídinn útskýrir margt.

Jón Þórhallsson, 30.3.2021 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband