Hvað ættu ríkustu manneskjur veraldar að gera við auð sinn?

tesla-car-5934919_1920

Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvenær maður hefur eignast nóg af hlutum eða peningum? Eru kannski engin takmörk fyrir slíku? Er heilbrigt að eignast allt það sem hægt er að eignast eða eru einhver takmörk fyrir því?

Lítum á menn eins og Jeff Bezos, Elon Musk, Bill Gates og Warren Buffett. Þeir eiga milljarða á milljarða ofan. Jeff Bezos byrjaði með því að selja bækur úr bílskúr, en gætti þess alltaf að þær væru vel pakkaðar inn, kostnaður væri í lágmarki og þjónusta í hámarki. Í dag er þessi verslun, Amazon, komin út um allan heim og stækkar enn. Ástæðan fyrir því að hún hefur stækkað svona gríðarlega er fyrst og fremst að tekist hefur að viðhalda þessum grunngildum, vel innpakkaðar vörur, traust þjónusta og verðið eins lágt og mögulegt er, en nú er ekki bara hægt að kaupa bækur, heldur nánast hvað sem er. Það má ekki gleyma að kaupferlið er gríðarlega traust og einhvern veginn gengur allt upp í viðskiptum við þennan risa. Jeff Bezos hefur selt traust og heimurinn keypt það, og fyrir vikið er hann einn af ríkustu mönnum veraldar. Hvað ætti hann að gera við auðinn sem hann getur ekki notað?

Elon Musk var einn af stofnendum PayPal, sem síðan keypti uppboðsvefinn eBay, og í dag þekkja hann allir sem manninn á bakvið Tesla, rafmagnsbílinn sem hefur sigrað heiminn og jafnvel verið skotið út í geim. Auður hans er tengdur eignum hans í fyrirtækinu, en stundum rjúka hlutabréf þess upp í hæstu hæðir, en stundum falla þau. Einn daginn er hann ríkasti maður heims, og þann næsta á meðal þeirra tíu ríkustu. En þarf hann að verða ríkari? Hvað ætti hann að gera við auðinn sem hann getur ekki notað?

Bill Gates stofnaði Microsoft í bílskúrnum sínum, en hugbúnaður þaðan nær út um allt. Hann á einnig einhver hlutabréf í gamla fyrirtækinu sínu og er vellauðugur, en hann ákvað að hætta störfum hjá Microsoft, og fór þess í stað út í góðgerðarmál. Markmið hans er að útrýma farsóttum og sjúkdómum víða um veröld, sérstaklega þar sem fólk hefur ekki efni á úrræðum. Hann stofnaði ásamt eiginkonu sinni Melindu sjóð til að styðja þessa vinnu. Gates er líka þekktur fyrir að lesa gríðarlega mikið. Það getur verið gaman að fylgjast með meðmælum hans um bækur. Ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum enn. Laun þeirra hafa að einhverju leyti verið vanþakklæti, þar sem samsæriskenningar halda því fram að hann sé að koma örgjörvum eða einhverju slíku í þau lyf sem hann gefur víða um heim. Það er eins og fólk geti ekki trúað að hann vinni góðgerðarmennsku af góðmennsku. Ég get alveg trúað því og hef enga góða ástæðu til að efast um það, hef ekki séð nein sönnunargögn sem styðja samsæriskenningarnar. Það er áhugavert hvað Bill hefur ákveðið að gera með auð sinn, því hann stefnir ekki aðeins að því að græða endalaust og miklu meira, heldur reynir hann að þjóna mannkyninu með því að bæta líf fólks um allan heim. 

Warren Buffett hefur lengi verið einn af ríkustu mönnum heims. Hann er góður vinur Bill Gates og hefur veitt fé í sjóð þeirra hjóna. Hann hefur safnað að sér gríðarlegum auð með því að byggja traust viðskiptaveldi, og kaupa hluta af góðum fyrirtækjum eins og Coca Cola og tryggingarfélaginu Geico. Hann er þekktur fyrir að vera strangheiðarlegur og gjafmildur þegar kemur að því að deila eigin þekkingu, hann hefur góðan húmor og eyðir ekki peningum í vitleysu. Hann minnir svolítið á Jóakim aðalönd, karl á níræðisaldri sem fær sér MacDonalds máltíðir því þær eru svo ódýrar, þambar Cherry Coke og étur ís á Dairy Queen, en hann er einn af eigendum þess ágæta fyrirtækis. Auður hans vex stöðugt, en hann tekur ‘aðeins’ út um hundrað þúsund dollara á ári. Hann ekur um á gömlum bíl en leyfði sér að kaupa einkaþotu til að ferðast milli fylkja í Bandaríkjunum. Hann ákvað fyrir löng síðan að börn hans myndu ekki erfa hann, heldur færu peningarnir í góðgerðarmál eftir hans daga. Honum finnst skemmtilegast að lesa bækur og spila brids.

Það er áhugavert hversu ólíkir þessir milljarðamæringar eru og spennandi að sjá hvað þeir gera við öll þessi auðæfi. Það hlýtur að vera erfið ákvörðun að ákveða hvað verður um slíkan auð, í raun er það gríðarleg ábyrgð. Auður þessara manna vex ennþá stjarnfræðilega á hverju ári á meðan sífellt fleiri lifa undir fátæktarmörkum.

En hvað myndir þú gera ef þú ættir svo mikinn auð að þú gætir í raun ekki á auðveldan hátt fundið leiðir til að eyða honum? Myndirðu halda áfram að safna honum að þér, eða myndirðu reyna á einhvern hátt að bæta lífið á jörðinni?

Ef þú veldir hið síðarnefnda, hvernig færir þú að því?

 

Mynd: Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvenær hefur þú sjálfur eignast nóg af hlutum eða peningum? Á mælikvarða mikils meirihluta jarðarbúa ert þú fáránlega ríkur. Þú átt auð sem samsvarar nokkurra alda tekjum heilu þorpanna. Svo mikinn auð að þú gætir í raun ekki á auðveldan hátt fundið leiðir til að eyða honum, að þeirra mati. Það fólk gæti spurt hvort þú ætlir að halda áfram að safna auði eða reyna á einhvern hátt að bæta lífið á jörðinni. Ætlar þú að selja þínar eignir eða opna þitt heimili? Taka út þinn sparnað til að hjálpa fólki sem aldrei hefur átt nýja skó? Eða hafðir þú, gjafmildur þó þú sért á annarra auð, hugsað þér eitthvað annað?

Hvað ætlar þú sem ein af ríkustu manneskjum veraldar að gera við auð þinn?

Þú ert í þeirri stöðu að réttlæti er ekki eitthvað sem þú berst fyrir, réttlæti er eitthvað sem þú verður fyrir. Þú ert elítan og aðallinn. Líf þitt forréttindi fárra. Og þín er höndin sem á svipunni heldur.

Vagn (IP-tala skráð) 23.3.2021 kl. 22:56

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Góð pæling hjá Kerrunni

Halldór Jónsson, 24.3.2021 kl. 00:40

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Vagn: sammála um að þetta er spurning sem við þurfum öll að svara út frá eigin brjósti. 

Hrannar Baldursson, 24.3.2021 kl. 07:43

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

13.7.2020:

"Rúm­lega áttatíu auðmenn hafa birt ákall um aukna skatt­heimtu til að mæta þeirri alþjóðlegu fjárþörf sem skap­ast hef­ur vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins." cool

"Hóp­ur­inn er alþjóðleg­ur en flest­ir á list­an­um eru frá Banda­ríkj­un­um."

"Hóp­ur­inn sem kall­ar sig "Millj­óna­mær­ing­ar fyr­ir mann­kyn" (e. Milli­onaires for Humanity), birti nú á dög­un­um opið bréf þar sem rík­is­stjórn­ir heims­ins eru hvatt­ar til að leggja aukn­ar álög­ur á hina of­ur­ríku og legg­ur áherslu á að slík­ar aðgerðir þurfi að ger­ast um­svifa­laust, vera um­fangs­mikl­ar og var­an­leg­ar." cool

"Ólíkt tugum millj­óna manna um heim­ all­an þurf­um við ekki að hafa áhyggj­ur af því að tapa vinn­unni, heim­ili eða get­unni til að halda uppi fjöl­skyld­um okk­ar," seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni.

Þar er staðhæft að marg­ir of­ur­rík­ir séu mjög af­lögu­fær­ir að leggja til fjár­magn í bar­átt­una. cool

Ekki sé nægi­legt að gefa til góðgerðar­mála, stjórn­mála­menn verði að bera ábyrgð á því að afla fjár og tryggja að því sé dreift á rétt­lát­an hátt."

Vinsamlega skattleggið okkur segir hópur auðmanna

Þorsteinn Briem, 24.3.2021 kl. 08:40

5 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Allir þessir menn eru eign auðæfa sinna og flestir eru þeir aðeins staðgenglar annarra. Það eru tvær "fallacíur" í þessu. Annars vegar sannast ítrekað (eins og t.d. með Covid farsanum) að þegar auður fer yfir ákveðin mörk verður honum beitt öðru fólki til skaða. Hins vegar að þegar fólk veltir of mikið fyrir sér "auði" missir það sjónar a hvað hann er.

Þetta síðast nefnda á bæði við auðmenn og öfundsmenn, því eign er í rauninni ekki til. Þeir sem lengst ná í auðsöfnun gera það vegna leiksins en ekki ávinningsins, um leið og þeir missa sjónir á leiknum tapa þeir báðu innan tveggja kynslóða. Það eina sem þarf að skilja um auð, er að hann snýst ekki um eignina heldur brautina sem hann fer eftir.

Guðjón E. Hreinberg, 25.3.2021 kl. 09:25

6 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þeir mættu gefa 1 milljarð til íslenskra skáta 

það væri hægt að halda úti launuðum skátafélagsforingum í öllum byggðalögum landsins bara fyrir vextina af þeirri upphæð á hverju ári.

SKÁTAR  eru góðar FYRIRMYNDIR sem að heimsbyggðin þarfnast og þeir eru mikilvægur grunnur að öllum staðarbjörgunarsveitum.

Jón Þórhallsson, 25.3.2021 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband