Aðeins um það mikilvægasta í lífinu

Á meðan við fetum okkur gegnum lífið reynum við að skilja heiminn í kringum okkur, samfélagið sem við búum í og okkur sjálf. Það magnaða við okkur sjálf, er hvað maður á sífellt mikið ólært. Bara það eitt, að langa til að vera góður í einhverju, hvort sem það er að skrifa, að læra, að tefla, að spila handbolta, að stýra verkefnum, að stýra hóteli, að elda góða máltíð; allt er þetta eitthvað sem við getum lært að gera, sama hvort við höfum áhuga á því eða ekki.

Eitt af því sem er magnað við frjálsan vilja okkar, er að við getum valið okkur áhugamál. Við getum lært ekki bara nýja þekkingu og færni, heldur einnig viðhorf. Það er sífellt auðveldara að leita sér þekkingar, en vandinn er að viðhalda áhuga til að þjálfa sig vísvitandi til að ná árangri í því sem maður tekur sér fyrir hendur, og síðan að verja tímanum í að þjálfa sig á réttan hátt. 

Við getum lært það sem okkur langar, en til að læra hraðar er skynsamlegt að velja okkur góðan kennara, einhvern sem getur hjálpað okkur að yfirstíga hindranir á vegi okkar. Og það magnaða er að við höfum þetta frelsi. Við getum gert þetta.

Það er samt alls ekkert þægilegt að læra. Til að læra þarf maður að stíga út fyrir þægindarammann, aga sjálfan sig til að gera það sem kennarinn mælir með, og leggja á sig vinnu til að ná tilætluðum árangri. 

En hvernig veljum við vel í hvað við viljum verja tíma okkar? Er mikilvægast af öllu að byrja á því að vinna í okkar eigin þörfum, og síðan þegar okkur hefur tekist að sigrast á þeim, takast á við það sem fangar huga okkar og hjarta? Eða getum við gert hvort tveggja samtímis, tekið á lífinu og þörfum okkar, og samtímis byggt okkur sjálf upp með þeim hætti sem við viljum?

Á Íslandi höfum við gríðarlega traustan ramma í kringum okkur, samfélag sem gætir að þörfum okkar flestra, og okkur þykir leitt þegar sumir gleymast, eins og kann að gerast. En samfélagið reynir af besta megni að flétta saman leiðir fyrir alla í samfélaginu, reynir að hjálpa okkur öllum að læra, reynir að hjálpa okkur öllum að vinna, reynir að hjálpa okkur öllum að lifa lífinu með sem minnstum áhyggjum. Samfélaginu tekst jafn misjafnlega upp með að gefa og einstaklingum tekst að þiggja. 

Þetta gerir okkur fært að átta okkur á því sem er okkur mikilvægast. Stundum eru persónulegir erfiðleika það miklir af ólíkum ástæðum að við komum okkur aldrei að verki. En þegar við náum að finna okkar fjöl og blómstra getum við fundið leið að hamingju í því sem við gerum og sinnum.

Galdurinn er að uppfylla allar þínar nauðsynlegustu þarfir og síðan finna það sem þér þykir mikilvægast að rækta í lífinu. Og síðan rækta það af alúð, þekkingu og færni, og gleyma alls ekki að njóta þess af dýpt í leiðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband