Fyrirbærin sem skipta máli

Staðreyndir eru ekki fyrirbæri. Þær eru bara. Það er hægt að skoða þær frá óteljandi sjónarhornum, en alltaf er staðreyndin sú sama.

Skoðun er fyrirbæri. Það flækist um huga okkar. Við höfum jafnvel skoðanir um staðreyndir, sem gerir þá staðreyndina í huga okkar að annars stigs fyrirbæri. Samt er staðreyndin ennþá þarna einhversstaðar úti. Hún breytist ekki. Skoðunin tifar eins og tíminn. Ekkert sem heldur henni kyrri.

Rökhugsun er fyrirbæri í huga okkar sem hefur þann ofurkraft að stoppa tímann. Við tengjum rökin í staðreyndir og sjáum að þessi bönd eru traust, en þegar við tengjum rökin í fyrirbæri, teygjast þau og slitna fljótt. 

Samsæriskenningar eru líka fyrirbæri - þær víxla staðreyndum og skoðunum, og rökin sem eru í raun veik virðast eins og marmarasúlur sem halda uppi musterum í skýjaborgum.

Þegar við lítum á sannleikann, þennan hlutlæga sannleika, það sem við sjáum öll út frá okkar eigin sjónarhorni, þá vitum við að hann er eitthvað miklu meira en fyrirbæri, en vitum líka að sjónarhorn okkar á honum er fyrirbæri í sjálfu sér. 

Það sem mig langar að segja er ansi fjarri því sem ég skrifaði hér að ofan. Mig langar að minnast á fyrirbæri sem skiptir máli. Það er að viðurkenna aðra manneskju, ekki bara fyrir það sem hún hefur gert, það sem hún getur, eða það sem hún mun geta gert, heldur fyrir það sem hún er, fyrir það eitt að vera til. Það eitt er nóg til að hún skipti máli. 

Það er staðreynd að manneskjan er til staðar, en það er fyrirbæri að bera nógu mikla virðingu fyrir henni til að viðurkenna hana fyrir það sem hún er.

Hvaða önnur fyrirbæri skipta máli sem ekki eru staðreyndir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

"Hvaða önnur fyrirbæri skipta máli

sem ekki eru staðreyndir?"

------------------------------------------------------------------------------

Lítur þú svo á að endurholdgunar og karmalögmálið

sé 100% staðreynd eða ekki? Y/N?

Jón Þórhallsson, 1.3.2021 kl. 22:35

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alls kyns "staðreyndir" eru nú fljótar að verða úreltar og sífellt er verið að skrifa nýjar kennslubækur. cool

En það er trúlega enn innan skekkjumarka að tveir plús tveir séu fjórir.

"And if you take one from three hundred and sixty-five, what remains?"

"Three hundred and sixty-four, of course."

Humpty Dumpty looked doubtful.

"I would rather see that done on paper," he said. cool

Lewis Carroll, Through the Looking-Glass, and What Alice Found There.

Þorsteinn Briem, 2.3.2021 kl. 10:40

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón Þórhallsson: takk fyrir spurninguna. Þetta er ekki jafn einfalt og það hljómar. Skrifa hugsanlega færslu um þessar pælingar í kvöld, en ekki gera ráð fyrir já/nei svari.

Þorsteinn: Hvort ætli 2+2=4 sé staðreynd eða fyrirbæri? Í veruleikanum getur 2+2 auðveldlega orðið að einum, til dæmis ef við blöndum tveimur vatnsdropum við tvo vatnsdropa, þá er bara einn vatnsdropi til staðar, eða þegar maður leggur tvær hugmyndir saman við tvær aðrar hugmyndir, þá getur útkoman verið margfalt hærri en einn. Samt eftir lögmálum stærðfræðinnar myndi ég gera ráð fyrir að 2+2=4, en hef heyrt að stærðfræðilegri röksemdafærlsu sem reynir að sanna að 2+2=5, eins og gert var í skáldsögu George Orwell, 1984. Þannig geta stærðfræðileg ósannindi orðið að félagslegum og skáldlegum sannindum.

Hrannar Baldursson, 2.3.2021 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband