Nýtt í bíó: Spider-Man 3 (2007) **1/2
9.5.2007 | 00:33
Um daginn þegar ég skrifaði umfjöllun um Spider-Man spáði ég að Spider-Man 3 myndi slá öll aðsóknarmet. Þegar þetta er skrifað hefur hún þegar náð inn 392 milljónum dollara í tekjum um allan heim, en hún kostaði 258 milljónir dollara í framleiðslu og markaðssetningu. Þannig að sú spá stóðst, enda hefur auglýsingaherferðin fyrir myndina verið ævintýralega flott. Því miður stendur myndin ekki undir þessum háu væntingum.
Peter Parker er aldrei þessu vant ánægður með lífið og tilveruna. Hann er byrjaður í sambandi með Mary Jane (Kirsten Dunst) og allir í New York virðast elska hann, fyrir utan besta vin hans, Harry Osborn (James Franco), sem þráir ekkert heitar en að drepa hann. Harry umbreytir sér í ofurhermanninn New Goblin og ræðst á Peter Parker; en fær slæma útreið, lendir á spítala og missir minnið.
Þannig að nú er allt í ennþá betri málum hjá Peter. Harry hefur gleymt að þeir eru óvinir og allt leikur í lyndi, eða þar til Spider-Man verður á kyssa Gwen Stacy (Bryce Dallas Howard) fyrir framan mikinn mannfjölda í New York, og þar á meðal Mary Jane.
Peter skilur ekkert í því þegar Mary Jane er honum reið fyrir kossinn; og hann fær ekki tækifæri til að biðja hennar, eins og hann ætlaði sér. Nú fara hlutirnir að ganga á afturfótunum fyrir hetjuna. Sambandið að hrynja, og slímug geimvera tekur yfir búning hans, sem gerir Peter sterkari, fimari, árásargjarnari og illkvittinn.
Á meðan hann er í þessum ham reynir hann að drepa Harry, særa Mary Jane og útrýma Sandmanninum (Thomas Haden Church), af því að hann er klæddur svarta búningnum sem geimveran stjórnar, en Sandmaðurinn er ólánsamur smákrimmi sem Peter fréttir að var maðurinn sem skaut Ben frænda hans. Sú persóna er alveg út í hött. Handritið reynir að réttlæta glæpi sem hann hefur framið og reynir að vekja með honum samúð þar sem að dóttir hans er lasin og hann þurfti að safna saman peningum til að koma henni í meðferð. Það gleymist algjörlega að í leiðinni verður hann nokkrum saklausum vegfarendum að bana, veltir nokkrum bílum og misþyrmir öryggisvörðum.
Á sama tíma og allt þetta gengur yfir hefur Peter fengið keppinaut við ljósmyndun á Spider-Man, en Eddie Brock (Topher Grace) keppist um að ná stöðu sem Peter ætti réttilega að fá eftir áralanga vinnu við dagblaðið sem J. Jonah Jameson (J.K. Simmons) stjórnar með mikilli heift.
Vandamálið við Spider-Man 3 er að söguþráðurinn er ofhlaðinn nýjum persónum, og engri þeirra er gerð nógu góð skil. Samt eru Kirsten Dunst og James Franco mun betri í þessari mynd heldur en Spider-Man 2, þar sem þau voru áður flöt - en eru nokkuð líflegri núna; en Tobey Maguire virðist vera að missa tökin á persónunni, rétt eins og Sam Raimi virðist vera að missa tökin á leikstjórninni. Mig grunar að þeir séu einfaldlega búnir að þurrausa persónuna, orðnir eitthvað þreyttir á þessu, enda gerði handritið fátt annað en að endurtaka þemu úr fyrstu tveimur myndunum, annars vegar að með miklum mætti fylgi mikil ábyrgð og hins vegar að mikilvægt sé að vanda valið á mikilvægum ákvörðunum.
Mesti galli Spider-Man 3 er handritið sjálft; það er einfaldlega ofhlaðið hugmyndum sem skynsamlegra hefði verið að dreifa yfir tvær kvikmyndir en setja í eina, og þar að auki er enga yfirvegun að finna í samtölunum eins og í fyrri tveimur myndunum, þar sem maður hafði á tilfinningunni að ekki einhver klisja, heldur sæmilega djúp skilaboð væru undir yfirborðinu.
Tæknibrellurnar eru flottar, hasaratriðin vel gerð, hljóðið mjög gott og myndatakan glæsileg, en það er bara ekki nóg þegar dramað klikkar. Það eru mörg góð atriði í Spider-Man 3, og gaman loksins að sjá Venom birtast; en hann er frekar illa nýttur og virðist fyrst og fremst vera þarna bara til að vera þarna.
Ég hefði gefið myndinni þrjár stjörnur ef ekki hefði bæst ofan á það sem ég hef minnst á hreint hryllilega væminn endir, þar sem í einu og sama atriðinu ofleika Tobey Maguire og Kirsten Dunst þannig að mín viðbrögð voru að mér fannst þetta frekar fyndið, en samúð var sjálfsagt það sem leikstjórinn var að leita eftir frá áhorfendum. Auk þess er einfaldlega illa gengið frá lausum endum. Ætli framleiðsla myndarinnar hafi ekki verið á síðasta snúningi og þeim ágætu listamönnum sem komu að gerð hennar ekki gefist færi á að fínpússa hana.
Því miður get ég ekki mælt með Spider-Man 3. Það er bara ekkert nýtt þarna, þó að hún sé augnakonfekt. Þó er hægt að hafa gaman að henni, en til þess þyrfti helst að skilja heilann eftir heima.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Sammála eiginlega Hrannar. Ég byrjaði að horfa á hana, en fannst þetta svo leiðinlegt, að ég slökkti bara og fór að kíkja á nokkrar skákir með Karpov. Miklu skemmtilegra!
Snorri Bergz, 9.5.2007 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.