Spider-Man 2 (2004) ***1/2

SpiderMan2_Poster3

Peter Parker (Tobey Maguire) hefur ákveðið að fórna einkalífi sínu til að geta látið gott af sér leiða sem ofurhetjan Spider-Man. Hann er hræddur um að ef hann leyfi öðrum manneskjum að komast of nálægt sér persónulega, þá munu illmenni nýta sér það gegn honum, rétt eins og Green Goblin (Willem Defoe) gerði í fyrri myndinni, þar sem að hann réðst bæði á ástkæra frænku Peter; May Parker (Rosemary Harris) og á stúlkuna sem hann elskar; Mary Jane Watson (Kirsten Dunst). Besti vinur hans, Harry Osborn (James Franco), er hundfúll út í hann fyrir að taka ljósmyndir af Spider-Man og gefa ekki upp hver hann er, enda telur Harry að Spider-Man hafi myrt föður hans.

SpiderMan2_04

Peter Parker á aðeins þrjá vini í öllum heiminum: May frænku, Mary Jane og Harry Osborn. Hann hefur fjarlægst May frænku frá því að Ben frændi hans (Cliff Robertson) var myrtur og hann telur sjálfan sig ábyrgan fyrir dauða hans. Hann hefur fjarlægst Harry vegna dauða föður hans, og hann hefur fjarlægst Mary Jane af því að hann vill halda henni í öruggri fjarlægð.

Allt í einu kemur upp sú staða að bæði Mary Jane og Harry hafa gefist upp á honum. Í sömu veislunni opinberar Mary Jane trúlofun sína við John Jameson (Daniel Gillies), geimfara og son ritstjórans J. Jonah Jameson (J.K. Simmons) og Harry slær Peter utan undir fyrir að vera lélegur vinur. Ofan á þetta kemur að Peter játar fyrir frænku sinni hlut sinn í dauða Ben, og þar að auki gengur honum illa í skólanum, hefur verið rekinn sem pizzasendill og er skítblankur. Um stund virðist líf hans vera í rúst.

SpiderMan2_14

Til að bæta gráu ofan á svart verður til nýtt ofurillmenni þegar vísindamaðurinn Dr. Otto Octavius (Alfred Molina) reynir að búa til nýja smásól sem framtíðar orkugjafa. Til að stilla smásólina af notar hann fjóra langa vélararma með gervigreind sem hann hefur tengt við mænuna á sér. En tilraunin fer til andskotans, eiginkona Dr. Octavius, Rosalie Octavius (Donna Murphy) deyr í slysinu og Spider-Man mætir á staðinn til að kippa tilrauninni úr sambandi. Örgjörvinn sem Dr. Octavius notar til að stjórna hreyfiörmunum eyðileggst í látunum, og fyrir vikið missir hann stjórn á þeim, en þeir ná stjórn á honum.

Allt þetta stress sem Peter Parker upplifir í einkalífinu verður til þess að hann langar ekki lengur til að vera Spider-Man. Þetta veldur því að Peter Parker missir ofurkraftana, hættir að sjá jafn vel og getur ekki lengur skotið vef eða klifið veggi. Hann er sáttur við það og hendir búningnum í ruslið, ákveðinn að hætta því að vera Spider-Man.

SpiderMan2_19

Við taka góðir dagar hjá Peter Parker. Honum tekst að bæta örlítið samskiptin við þá fáu vini sem hann á, og tengjast nýjum einstaklingum, eins og nágranna sínum, Ursula (Mageina Tovah), stúlku sem virðist vera hrifin af honum. Skólinn fer að ganga betur, og jafnvel Mary Jane er farin að sýna honum athygli á ný þegar ósköpin dynja yfir.

Dr. Octavius þurfti eldsneyti til að ljúka við að búa til nýja sól. Eini maðurinn sem gæti keypt slíkt handa honum er Harry Osburn. Þeir gera samning. Ef Dr. Octavius kemur Spider-Man í hendur Harry, þá fengi hann eldsneytið.

SpiderMan2_23

Peter og Mary Jane eru á kaffihúsi, og við það að kyssast, þegar bíll flýgur inn um gluggann og yfir þau. Dr. Octavius er kominn til að fá upplýsingar um hvar hann getur fundið Spider-Man, og hann heldur að Peter sé rétti maðurinn til að útvega þær. Hann tekur Mary Jane í gíslingu, og segir honum að koma ákveðnum skilaboðum til Spider-Man, annars muni hann drepa hana.

Við þetta fær Peter ofurkraftana aftur, klæðist búningnum og sveiflar sér í langan og strangan bardaga gegn Dr. Octavius, sem meðal annars felur í sér magnað atriði yfir, innan í og fyrir framan stjórnlausa hraðlest.

SpiderMan2_29

Spider-Man 2 fjallar um mikilvægi þess að huga að eigin vandamálum og leysa þau í samhengi við annað sem maður gerir í lífinu. Það er ekki hægt að vera tvær manneskjur í einum líkama. Þetta minnir á togstreituna milli þess persónulega og þess faglega, og hvernig þætta verður þetta tvennt saman til að manneskja getur lifað farsælu lífi. Ef þú aðskilur algjörlega þitt faglega og persónulega líf, er spurning hvort þú lifir lífi sem vert er að lifa.

Þó að ég sé hrifinn af Spider-Man 2 finnst mér hún ekki jafngóð og fyrsta myndin. Í fyrsta lagi er litasamsetningin í framhaldinu ekki jafn björt og í þeirri fyrstu, sem er reyndar bara spurning um smekksatriði. Fyrir utan það fannst mér Kirsten Dunst og James Franco alls ekki standa sig vel í hlutverkum sínum, og í stað dýptar sem ég varð var við í fyrri myndinni, fannst mér persónur þeirra orðnar flatar og óáhugaverðar.

SpiderMan2_15

Aftur á móti eru þeir Tobey Maguire og Alfred Molina frábærir í sínum hlutverkum, auk þess að tæknibrellurnar eru trúverðugri en í þeirri fyrri - það er eins og þyngdaraflið hafi verið reiknað betur inn í hreyfingar persónanna; og hver einasti hlutur sem hreyfist virðist gera það í réttri þyngd. Tæknibrellurnar höfðu semsagt skánað en leikurinn er ekki jafn góður. Það hefur sjálfsagt eitthvað með handritið að gera, sem er skrifað af Alvin Sargent í þetta skiptið, en David Koepp, ansi mistækur en hugmyndaríkur handritshöfundur, hafði skrifað fyrri myndina, og mun víst skrifa þá fjórðu líka, auk Indiana Jones 4, sem kemur út á næsta ári; en til gamans má geta að Alfred Molina lék einmitt lítið hlutverk í fyrstu myndinni um Indiana Jones: Raiders of the Lost Arc.

Ég mæli hiklaust með Spider-Man 2, en veit samt af nokkrum einstaklingum sem þola hana ekki; finnst hún hræðileg, og af öðrum sem finnst hún betri en Spider-Man.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

mér fannst þessi mynd betri en sú fyrri, en sammála um Kirsten Dunst og James Franco, Dunst fer svolítið í taugarnar á mér. Ég hlakka svakalega til að sjá nr. 3. og ég held að hún verði sú verði sú besta af þeim 3. eða það vona ég

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 11:40

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Á enn eftir að berja Tobey augum í svarta búningnum en hlakka til eftir þennan lestur.

Steingerður Steinarsdóttir, 6.5.2007 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband