Nýtt í bíó: Next (2007) **1/2

NextPoster

Chris Johnson (Nicolas Cage) hefur frá barnsaldri getað séð tvær mínútur inn í framtíð sem tengd er hans persónulegu reynslu. Hann getur ekki séð inn í framtíð annarra. Hann uppgötvar að þegar hann er í návist stúlku, Liz (Jessica Biel), sem hann rekst á fyrir tilviljun á kaffihúsi getur hann séð allt að tólf mínútur fram í tímann. Hann furðar sig á þessu og vill ólmur kynnast henni betur, enda er hún með glæsilegri konum.

FBI fulltrúinn Callie Ferris (Julianne Moore) hefur áttað sig á þessum hæfileikum Chris, og vill samstarf með honum þar sem að hann gæti hjálpað til við að finna kjarnorkusprengju sem smyglað hefur verið inn í Bandaríkin af evrópskum hryðjuverkamönnum.

Á sama tíma eru hryðjuverkamennirnir að hlera FBI og komast að mikilvægi Chris Johnson, en vita ekki af hverju hann er mikilvægur, þannig að þeir ákveða að drepa hann áður en FBI nær til hans.

Þannig hefst mikill eltingarleikur. Hryðjuverkamenn elta FBI sem eltir Chris sem eltir Liz. Chris nær Liz og sefur meira að segja hjá henni. FBI nær Liz og hvetur hana til að svíkja Chris með því að stinga svefnlyfi í drykkinn hans. FBI nær Chris, en hryðjuverkamennirnir ná Liz, og því þarf Chris að hjálpa FBI til að ná hryðjuverkamönnunum svo að hann geti náð Liz aftur. Kannski myndin hefði betur mátt heita 'Getting There'. Flókið? Ekkert svo.

Það eru nokkur skondin og snjöll atriði í Next sem tengjast því hvernig Chris stjórnar atburðarrás vegna þess hversu auðveldlega hann getur séð inn í framtíðina. Til dæmis getur hann prófað fjölmargar línur til að ná athygli Liz, án þess nokkurn tíma að framkvæma þær, fyrr en hann sér fram á hvernig hann getur náð árangri. Það er í raun besti hluti myndarinnar sem minnir skemmtilega á Groundhog Day (1993), þar sem Bill Murray fór á kostum sem sjálfselskur veðurfréttamaður sem upplifði í nokkur hundruð eða jafnvel þúsund ár sama daginn.

Annað skemmtilegt atriði sýnir Chris leita að manneskju í rangölum, en þar skiptir hann sér upp í margar mögulegar framtíðir þar til hann finnur það sem hann leitar að, og þá fyrst fer hann sjálfur þangað. Því miður veldur endirinn miklum vonbrigðum, því að hann er alls ekki í anda þess sem áður hefur gengið á. Sjálfsagt átti þessi endir að þykja snjall, - og ég get skilið af hverju kvikmyndamönnunum hefur þótt hann það, en hann virkar bara því miður ekki.

Ég var nokkuð ánægður með að ekkert var reynt að útskýra hvernig Chris fékk þessa eiginleika eða hvað var í raun og veru í gangi. Hann bara fæddist svona. Hvort hann nýtir hæfileikana til að vera skúrkur eða ofurhetja er hans val.

Next vekur mig til umhugsunar um mikilvægi þess að taka góðar ákvarðanir á réttu augnabliki og af réttum ástæðum; nokkuð sem að kvikmyndagerðarmennirnir hefðu mátt hafa í huga áður en þeir sendu myndina endanlega frá sér. Eftir smá umhugsun um mögulegar afleiðingar gjörða þinna, getur þessi umhugsun gjörbreytt því hvernig þú hagar þér, og þannig allri þinni framtíð. Þetta finnst mér flott pæling og er nokkuð sáttur við að hafa þó fengið hana út úr myndinni.

Annars er Next ágætis stundargaman, en þar sem hún veldur vonbrigðum með slökum endi og frekar slöppum samtölum í handritinu og leik sem hangir í meðalmennsku, þá hef ég sterka fyrirvara þegar ég mæli með henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband