Teiknimyndir: Hellboy: Sword of Storms (2006) ***

Hellboy: Sword of Storms er ekki teiknimynd fyrir ung börn. Hún er aðgengilegri fyrir unglinga og eldri áhorfendur.

HellboySwordOfStorms02

Hellboy teiknimyndasagan hefur náð töluverðum vinsældum, en höfundur hennar, Mike Mignola, notar goðafræði og fornar sögur óspart til að skapa ný ævintýri handa hetju frá helvíti.

Guillermo del Toro leikstýrði kvikmyndinni Hellboy (2004), þar sem Ron Perlman fór með hlutverk hetjunnar sem lítur út eins og skrýmsli, en hagar sér eins og tólf ára strákur. Hellboy hefur fullan hug á að vernda mannkynið gegn öllum þeim ófreskjum sem spretta endalaust fram úr ólíkum menningarheimum. 

Nú taka þeir höndum saman, Mike Mignola og Guillermo del Toro, og framleiða teiknimyndina Hellboy: Sword of Storms. Hún hefur annan stíl og söguheim en frumgerðin; en fjallar um sömu persónur. Ron Perlman raddleikur titilhlutverkið og gerir það afbragðs vel, honum tekst að skjóta inn húmor á ólíklegustu augnablikum, sem alltaf virðist passa vel inn í aðstæður og ævintýri Heljarstráks.

HellboySwordOfStorms03

Hellboy kom í mannheima á lokadögum síðari heimstyrjaldar, en þá slysaðist lítill angi með horn á hausnum og gífurlega stóran handlegg sem minnir helst á hamar út úr vítisvíddum og í hendur bandarískra hermanna. Meðal þeirra var kaþólskur prestur sem tók Hellboy að sér, og ól hann upp við kaþólska trú. 

Það væri reyndar að skjóta sig í fótinn að taka trúarbrögð og goðsögur þær sem birtast í Hellboy heiminum alltof alvarlega. Ævintýrin sem Hellboy lendir í eru með ólíkindum. Hann er sífellt að berjast við ósigrandi skrýmsli og maður veit að hann mun samt sigra þau.

Sword of Storms fjallar um ungan Samúrai sem fyrir mörghundruð árum bjargaði unnustu sinni frá því að vera fórnað af föður hennar til guðanna Þrumu og Eldingar. Við þetta reiddust guðirnir, og í samráði við föðurinn eltu þeir hann uppi. En í stað þess að gefast upp, barðist samúrainn gegn guðunum með sérstaklega áletruðu sverði, sem hafði þann mátt að það gat fangað sál þess sem veginn var með því. Samúraianum tókst að fanga guðina í sverðinu, en hann sjálfur varð að steinstyttu og heitmey hans myrt af föður hennar.

HellboySwordOfStorms04

Í nútímanum les japanskur prófessor texta á papírus sem endurvekur guðina. Þeir ná valdi yfir prófessornum sem leitar sverðsins. Markmiðið er að brjóta það til þess að guðirnir sleppi aftur út. Þegar Hellboy finnur þetta sverð sogast hann inn í aðra vídd, þar sem hann þarf að berjast við alls kyns forynjur í leit sinni að sögunni um sverðið. Á sama tíma leita vinir hans annarra lausna í Japan. 

Síendurtekið þema Hellboy er það að hver og einn eigi sér val; að sama hvar þú fæddist og hvað þér var ætlað, þá er það einstaklingurinn sem á úrslitaorðið með ákvörðunum sínum. Hellboy átti að gjöreyða jörðinni, en gerði það ekki. Hann átti að vera óvinur mannkyns, en varð það ekki. Hann er að berjast vil ófreskjur sem hugsa ekki jafn sjálfstætt og hann, og það er einmitt það sem þeim verður oftast að falli. 

HellboySwordOfStorms01

Hellboy: Sword of Storms er vel teiknuð og ég hafði mjög gaman að henni. Sífellt spruttu fram frumlegar verur og aðstæður sem Hellboy þurfti að leysa úr. Hann þarf að berjast við köngulær, risa, vampírur, guði og fleiri skrýmsli, en vinir hans þurfa annars staðar að berjast við skrýmsli sem rís úr iðrum jarðar. 

Teiknimyndin grípur vel anda upprunalegu myndskreyttu skáldsögunum.  Þó að Hellboy sé kannski ekki fyrir alla, er hann skemmtileg afþreying fyrir þá sem gaman hafa að frumlegum ævintýrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Þó ég hafi gaman af ævintýrum þá hef ég ekki séð þessa mynd, en það er annað sem mig langar að spyrja þig um. Hvar fæ ég kvikmyndina, Sideways.????? Ég er búin að athuga málið víða en ekkert gengur en ég hef mikinn áhuga á því að berja þessa ræmu augum.

Var í nýlega að sjá, loksins, myndina,"About Schmidt, " og vil endilega ná í myndina Sideways. Getur þú hjálpað? Fyrirfram....takk. Sóldis

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 12.4.2007 kl. 19:25

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Blessuð Sóldís. Ég held að ekkert mál sé að fá Sideways á nánast hvaða vídeóleigu sem er. Þannig nálgaðist ég hana að minnsta kosti. Og ef allt bregst, þá eru þeir í Laugarásvídeó með mikið og gott safn.

Hrannar Baldursson, 12.4.2007 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband