Í bíó: Sunshine (2007) *

Sunshine er ein af þessum myndum sem manni ber siðferðileg skylda til að vara við. Hún er vel gerð tæknilega, en þegar kemur að sögu, persónusköpun og viti fellur hún flöt.

Í framtíðinni hefur sólin tapað orku. Jörðin verður sífellt kaldari. Reynt hefur verið að senda geimskipið Íkarus til sólar og því ætlað að koma af stað kjarnasamruna sem á að kveikja í nýrri sól innan í þeirri gömlu og vekja hana þannig til nýs lífs. Ekkert hefur spurst til þessa hóps, og því er Íkarus II sendur í sama leiðangur sjö árum síðar.

Hetjurnar sem ætla til sólar eru héðan og þaðan af hnettinum. Mér sýndist leikararnir koma frá öllum heimsálfum jarðar nema Afríku.

Mikilvægasti einstaklingurinn í hópnum er Robert Capa (Cillian Murphy) en hann er eðlisfræðingur sem hannaði sólarsprengjuna, og til að þjóna söguþræðinum, sá eini sem kann að setja hana í gang. Cillian Murphy er efnilegur leikari sem gerði mjög góða hluti í Batman Begins (2005) og Red Eye (2005). Hér hefur hann stjörnuútlitið og sjarmann með sér, en vantar aðeins á dýptina.

Aðrir leikarar sem mér hefur líkað við í öðrum hlutverkum eru Cliff Curtis í hlutverki sálfræðingsins og sólardýrkandans Searle, en hann lék eftirminnileg hlutverk í Once Were Warriors (1994) og Whale Rider (2002), en fær því miður mun flatara hlutverk í Sunshine, sem hann skilar reyndar ágætlega. Sjálf Hong-Kong og Kung-Fu stjarnan Michelle Yeoh er þarna í hlutverki Corazon, konu sem elskar plöntur, en fyrir utan það er hlutverk hennar mjög vanþakklát, og þar sem maður veit hvað hún getur miklu betur er maður vonsvikinn með hennar hlut. Aðra leikara kannaðist ég ekki við.




Þrátt fyrir þennan góða leikarahóp eru persónurnar einfaldlega illa skrifaðar og hver annarri flatari. Samt virðist leikstjórinn leggja meiri áherslu á persónurnar en söguna.

Þegar geimfararnir eru komnir dágóða leið og farnir að nálgast Merkúr nema þeir neyðarkall frá Íkarusi I. Þar sem að hópurinn er á leið að sólu sem eina von mannkyns hefði maður haldið að hópurinn væri meðvitaður um áhættuna sem fylgir því að breyta stefnu á geimskipi; og hópurinn virðist vera meðvitaður um það. Samt er ákveðið að í stað þess að fylgja heilbrigðri skynsemi eða jafnvel taka lýðræðislega ákvörðun, skal Capa, vísindamaðurinn í hópnum taka ákvörðun um hvort að stoppað skuli hjá Íkarusi I, og að gera þyrfti áhættumat til þess að ákveða hvort að það væri skynsamlegt.


Jæja, ég reiknaði áhættumat í höfðinu út frá almennri aðferðafræði um áhættumat, sem inniheldur mat á ógnum, veikleika, líkum á því að veikleikarnir verði að veruleika og mikilvægi áhættunnar. Ég gef hverjum lið einkunnina frá 1-4, þar sem fjórir þýðir mikið. Ef lokatalan er yfir 8, þá er áhættan það mikil að útilokað er að nokkur skynsamur maður samþykki hana.

Ógnin: geimferð á stað þar sem aðeins eitt skip hefur komið á, og það fórst: 4

Veikleikinn: Mannleg mistök geta átt sér stað þegar reynt er að leggjast upp að hlið öðru geimskipi, sérstaklega þegar skiptir máli hvernig skipið snýr gagnvart sólu: 4

Raunverulegar líkur á að eitthvað fari úrskeiðis: Þetta hefur aldrei verið gert áður:: 4

Verðmæti ferðar: björgun mannkyns:: 4

Samkvæmt einföldu áhættumati skorar áhættan 16 stig af 16 mögulegum, sem þýðir að áhöfnin ætti ekki einu sinni að íhuga möguleikann, og halda eigin stefnu sama hvað það kostar. Þar að auki ættu vísindamenn og verkfræðingar að þekkja lögmál Murphys: ef aðeins eitthvað eitt þarf að fara úrskeiðis til að eyðileggja verkefnið, þá gerist það, og ekki bara það, það gerist á versta mögulega augnabliki og síendurtekur sig.

Ég var tilbúinn að fyrirgefa þá ákvörðun vísindamannsins að fara til Íkarusar I, en þar sem að vísindahlutinn af vísindaskáldsögunni virkaði ekki lengur fyrir mig, þá þurfti henni að takast vel upp á öðrum sviðum. Hún mætti vera spennandi eða fyndin, eða sýna af einhverri dýpt almennan sannleika um mannveruna. Ég bið ekki um mikið.

Einhver vera fer úr Íkarusi I yfir í Íkarus II, og byrjar að útrýma áhöfninni áður en þeim tekst að ná alla leið til sólar, eins og gaurinn hafi villst úr The Texas Chainsaw Massacre 5 (2014) yfir í kolvitlausa mynd.

Ljóst er að Danny Boyle reynir að gera eitthvað listrænt, með því að stela stöðugt úr Alien (1979) og 2001: A Space Odyssey (1968), en mistekst það hrapalega. Einnig skýtur hann inn leiðinlegasta trikki kvikmyndasögunnar, einstaka römmum hér og þar sem sýna einhver andlit sem maður hefur ekki tíma til að greina af nákvæmni. Þetta á sjálfsagt að vekja hjá manni einhver hughrif, en þetta truflaði mig bara - fannst leikstjórinn einfaldlega reyna að gera allt til að hafa djúplæg áhrif á áhorfandann, án þess að hafa nokkuð bakland til að standa á.

Vonandi þurfa sem fæstir áhorfendur að þola þau leiðindi sem það er að sitja undir þessari kvikmynd. Danny Boyle hefur gert mun betur, þá sérstaklega Trainspotting (1996), sem er hrein snilld, Shallow Grave (1994) og 28 Days Later (2002).


Ég er þakklátur Danny Boyle fyrir eitt: hann fékk mig til að hugsa um hversu heimskulegar ákvarðanir þessara greindustu fulltrúa og helstu vonar jarðarinnar eru; en ég er hræddur um að þetta sé ekki það sem hann ætlaði sér með Sunshine. Mig grunar að hann hafi ætlað sér að splæsa saman Alien og 2001: A Space Odyssey og fá eitthvað djúpt og flott út úr því. Vissulega eru sum atriðin flott; en þarna er hvorki nokkuð djúpt né skemmtilegt að finna.

Sunshine er ein af þessum myndum þar sem sýnishornið er betra en myndin sjálf:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta hljómar eins og ein versta mynd sem gerð hefur verið. Af hverju verða flestar svona myndir svona lélegar, eins og t.d. The Core? Mér fannst nú Armageddon engin snilld heldur.

Annars hef ég séð trailerinn af þessari mynd og um leið þá vissi ég að þetta væri sorp.

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 12:27

2 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Uss..

Tek undir með þér.  fór með unnustunni á þessa mynd um Páskana og hvílík vonbrigði.  Verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum enda með því slakasta sem ég hef séð lengi.

Örvar Þór Kristjánsson, 11.4.2007 kl. 15:12

3 Smámynd: arnar valgeirsson

Það var nú ekki eins og maður væri spenntur fyrir sólinni en það er þá engin ástæða til að splæsa í bíoferð á hana. En að splæsa saman Alien og 2001 gæti nú aldeilis verið áhugavert því báðar eru magnaðar. En í sambandi við trailera þá man ég hvað mér fannst trailerinn af Cliffhanger ótrúlega flottur. Verst að nákvæmlega öll flottustu atriðin voru þar... Ekkert tal, bara klassísk tónlist undir (man ekki hvaða) en snilld. Hafði þó alveg gaman af myndinni á sínum tíma.

arnar valgeirsson, 11.4.2007 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband