Don og Sancho um þekkingu

Don og Sancho sitja við sama borð og ræða saman. Þeir hafa engan áhuga á kosningum um álver í Hafnarfirði, korteri í kosningar eða róttækan feminisma. Þeir ræða saman yfir svínasnitsel og bjór. Við skulum grípa inn í samtalið og hlera það sem þeir hafa að segja:

Sancho: “Hvað hefurðu verið að gera í dag, Don?”

Don: “Ég er að átta mig á heiminum, hversu stór eða lítill hann er og hvernig manneskjur, dýr, plöntur, hlutir og hugsanlega aðrar verur passa inn í hann; og síðan hvernig við hugsum um verðmæti og gildi; hvort sem um siðferðileg, fagurfræðileg, rökfræðileg, verufræðileg, hlutlæg eða huglæg gildi er að ræða. Og þetta er alls ekki tæmandi.

Sancho: “Geturðu sagt mér hver munurinn er á þekkingu og upplýsingum?”

Don: “Sjálfsagt get ég giskað á það, en svona yfir hádegismatnum get ég nú varla svarað því fyrir fullt og allt.”

Sancho: “Þú getur reynt.”

Don: “Upplýsingar eru sjálfsagt hagnýtur þáttur þekkingar; upplýsingar er þekking sem komin er á ákveðið form og hægt er að miðla. Upplýsingar eru stöðugar og óbreytanlegar, á meðan þekking er óstöðug og tekur sífellt breytingum.”

Sancho: “Hvað er þá þekking?”

Don: “Ætli þekking sé eitthvað sem við gerum og eitthvað sem við höfum.”

Sancho: “Það er líklega eitthvað til í þessu hjá þér. En ég er ekki að sjá þetta fyrir mér. Eru upplýsingar þá þekking sem við höfum eða gerum?”

Don: “Bæði og. Við störfum í samræmi við þá þekkingu sem við höfum, og þekkingu öðlumst við eftir því hvernig og við hvað starfað er.”

Sancho: “Þetta sýnir mér að skilgreining þín áðan var ekki nógu góð. Mér finnst hún ekki ná alveg utan um þetta.”

Don: “Það er sennilega rétt hjá þér. Við megum ekki vanmeta þekkinguna. Hún er hugtak sem hefur runnið gegnum hugarsigti heimspekinga í árþúsundir. Það er erfitt að átta sig á hvaðan hún kemur og hvað hún er.”

Sancho: “Hvaðan hún kemur? Lærum við ekki? Safnast lærdómurinn ekki saman og verður að þekkingu?”

Don: “Svona eins og pollur myndast á gólfinu þegar þakið lekur?”

Sancho: “Já. En samt meira eins og skráð orð sem verða að blaðsíðum og blaðsíður sem verða að bókum sem síðan fylla bókasöfn, sem fer síðan út á netið og tekur til við að flæða á miklu öflugri hátt en við höfum áður þekkt.”

Don: “Bókvitið verður ekki í askana látið nema hægt verði að drekka úr þeim síðar og jafnvel blanda betri mjöð.”

Sancho: “Ég hef tekið eftir að því að eftir því sem að maður veit meira og meira um eitthvað ákveðið, verður þekkingarsviðið sífellt smærra og smærra.”

Don: “Ég upplifi þetta öfugt.”

Sancho: “Nú?”

Don: “Eftir því sem að þekkingarsvið mitt verður sífellt stærra og stærra, geri ég mér betur grein fyrir að ég veit stöðugt minna og minna.”

Sancho: “Ætli þetta eigi við um heiminn allan? Ef við lokum okkur inni í herbergi og kynnumst því vel gætum við orðið gífurlega öflugir sérfræðingar um þetta herbergi, án þess að vita nokkuð um heiminn.”

Don: “Já, hugsanlega. Og svo er hægt að fara í hinar öfgarnar, að vita sífellt meira um umfang heimsins og uppgötva hvernig hann stækkar með hverri uppgötvun, en sökkva sér aldrei nógu djúpt í eitt viðfangsefni til að skilja eðli þess af fullkomnun.”

Sancho: “Þannig að sumir eru dæmdir til að kynnast aðeins smávegis af heiminum mjög vel, en aðrir kynnast öllum heiminum, en þá frekar illa?”

Don: “Ég gæti trúað því. Við mannverurnar erum því miður ekki það fullkomnar að ráða við þetta allt í einu. Ég vildi óska að ég þekkti eðli hvers einasta fyrirbæris í heiminum og áttaði mig líka á hvernig öll þessi fyrirbæri tengjast öllu öðru í heiminum; en svo átta ég mig á því að þetta er alltof mikið verk fyrir einn mann, og jafnvel hóp manna. Samt vil ég ekki gefast upp.”

Sancho: “Ég skil þig. Þessi heimur er alltof stór fyrir fiskiflugur eins og okkur til að átta okkur á honum öllum. Ætli við séum ekki öll sveimandi í völundarhúsi þekkingarinnar, og þegar við loks finnum útganginn, þá getum við loks ákveðið hvort við stöldrum við og kynnumst völundarhúsinu betur, eða förum út.”

Don: “En þegar út er komið áttum við okkur á því að völundarhúsið er kannski margfalt stærra en við gerðum okkur upphaflega grein fyrir, og byrjum því aftur á byrjunarreit.”

Sancho: “Ekki kannski alveg á byrjunarreit. Þegar við finnum loks útgönguleiðina...”

Don: “...sjáum við að þetta var bara lítið herbergi, hús eða garður í enn stærra völundarhúsi.”

Sancho: “Og svo er til fólk sem ráfar um völundarhúsin án nokkurrar stefnu. Þetta fólk er kallað risaeðlur í þekkingarheiminum. Það bætir aldrei við sig nýrri þekkingu og reynir að halda heiminum í sama horfinu, bara vegna þess að þeim er sjálfum ómögulegt að breytast í síbreytilegum heimi.”

Don: “Einnig er til fólk sem byggir sér fílabeinsturna til að ná yfirsýn yfir völundarhúsið. Hugsanlega tekst þeim að byggja þessa turna og flytja inn í þá, en ná því miður ekki að koma uppgötvunum sínum til skila fyrir þá sem enn ráfa um völundarhúsin.”

Sancho: “Já, og svo eru til risaeðlur sem búa í fílabeinsturnum.”

Maturinn er búinn af diskunum. Don og Sancho stíga brosandi upp frá borðinu og takast í hendur. Þeir fara síðan hvor í sína áttina, Don upp í fílabeinsturn en Sancho niður í völundarhús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Frábær saga, eins og þín er reyndar von og vísa.

Steingerður Steinarsdóttir, 4.4.2007 kl. 11:42

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir það, Steingerður.

Hrannar Baldursson, 4.4.2007 kl. 16:41

3 identicon

Hvað var í þessu snitseli?

Systa (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 22:48

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég játa fúslega að þetta snitsel var frekar steikt.

Hrannar Baldursson, 4.4.2007 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband