Apocalypto (2006) ***1/2
25.3.2007 | 10:10
Apocalypto er meðal betri spennumynda sem gerðar hafa verið. Hún gerist í fornum frumskógum Maya þjóðflokksins í Guatemala og Mexíkó, lítur út fyrir að hafa gerst fyrir um 1000 árum, en í lokaatriði myndarinnar kemur í ljós að hún gerðist aðeins fyrir um 500 árum.
Jaguar Paw (Rudy Youngblood) er ungur hrekkjalómur sem gaman hefur af að gantast með félögum sínum. Meðal annars leggja þeir bróður hans, Blunted (Jonathan Brewer) stöðugt í einelti, og á meðan sá síðarnefndi þjáist mikið fyrir það, hafa hinir bara gaman af.
Jaguar Paw á ólétta eiginkonu, Seven (Dalia Hernandez) og ungan son, Turtles Run (Carlos Emilio Baez). Þegar stærri og illvígari hópur stríðsmanna ræðst inn í þorpið hefst barátta upp á líf og dauða, sem endar með því að flestir þorpsbúar eru teknir í þrældóm, Seven og Turtle Run, sem Jaguar Paw tókst að fela í djúpum brunni áður en hann sjálfur var handsamaður. Vandamálið er að þau komast ekki úr brunninum og þegar rigningartímabilið hefst mun hann fyllast af vatni og drekkja þeim.
Jaguar Paw hefur því skýrt verkefni fyrir höndum: fyrst þarf hann að losna úr þrældómnum og komast síðan heim til að bjarga Seven og Turtles Run áður en þau verða villidýrum, hungri eða rigningu að bráð.
Hópur þeirra handsömuðu er leiddur inn í forna borg Mayanna, þar sem ætlunin er ekki að nýta fólkið til vinnu, heldur einfaldlega fórna þeim til að halda guðunum rólegum. Með guðlegri forsjón eða ótrúlegri heppni tekst Jaguar Paw að brjótast úr hlekkjum óvinarins og í leiðinni drepa son foringja þessa illa herflokks; en faðirinn tryllist og sver þess eið að elta Jaguar Paw uppi og drepa þó að það verði hans síðasta verk.
Þannig hefst æsispennandi eltingarleikur um frumskóginn, þar sem villidýr, náttúruöfl og klókindi og ástríða Jaguar Paw leika aðalhlutverkið. Eltingarleikurinn er vel kvikmyndaður og spennandi, sem og sagan öll.
Apocalypto snýst að miklu leyti um heimsku og fordóma fólks sem tilbúið er að fórna saklausum lífum til þess eins að setja sjálfa sig á hærri stall en aðrir. Þeir sterku ráðast á þá veikari til þess eins að gera lítið úr þeim. Þannig má segja að meginþema Apocalypto sé einelti.
Í upphafi myndar er Jaguar Paw sá sterki sem leggur þann veikari í einelti, en síðan kemur sterkari aðili á svæðið og leggur Jaguar Paw í einelti. Fórnarlamb Jaguar Paw lét niðurlægja sig og tók þessu með harmi og í þögn. Jaguar Paw aftur á móti berst á móti og gerir allt sem í hans veldi stendur til að láta ekki vaða yfir sig. Hann heldur virðingu sinni með því að berjast fyrir því sem hann elskar.
En síðan í lok myndarinnar, þegar evrópsk skip birtast í fjörunni, er nokkuð ljóst að ennþá sterkari aðili er kominn til sögunnar - einhver sem á eftir að leggja viðkomandi þjóð í einelti næstu 500 árum. Spurning hvort að stríð snúist stundum um þetta mál fyrst og fremst?
Getur verið að helsta ástæðan fyrir stríði tveggja ríkja sé sú að önnur þjóðin telur sig sterkari en hina og vill sanna það til að setja sig á hærri stall? Er stríð bara einelti þar sem huglausar sálir ráðast með miklu afli á þá veikari vegna þess að þeir trúa ekki að þeir veiku geti svarað fyrir sig?
Hvað gerist þá þegar hetjur eins og Jaguar Paw verða fyrir barðinu á hervaldinu, hetjur sem gefast ekki upp og finna ótal leiðir til að berjast á móti því þeir þekkja heimavöllinn eins og lófann á sér?
Apocalypto er stórgóð skemmtun og flutt á fornu tungumáli Maya, sem er ekki mállýska eins og sumir vilja halda fram, heldur heilt tungumál sem kennt er í skólum á Yucatanskaganum. Enn þann dag í dag talar fjöld fólks Maya, en tungumálið á í vök að verjast þar sem að fólk nær ekki langt kunni það ekki spænsku. Stjórnvöld í Yucatan berjast fyrir að halda tungumálinu á lífi, og styðja vel við fræðimennsku tengdri því, auk þess að sendir eru út kennsluþættir í sjónvarpi um Maya málið. Fyrir þetta landsvæði hefur Apocalypto mikla þýðingu. Hún er viðurkenning á tungumáli sem á í stríði við fjölþjóðamenningu nútímans.
Þessi gagnrýni er skrifuð sem svar við skrifum Davíðs Loga Sigurðssonar: Apocalypto: gölluð söguskýring?
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 10:17 | Facebook
Athugasemdir
Gibson að gera góða hluti
Oddur Ingi (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 16:59
Góð pæling og stórgóð mynd! Hélt mér spenntri allt til enda og vakti ýmsar spurningar.
Hugrún Sif (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 14:29
Oddur Ingi: sammála
Hugrún: Takk fyrir það. Langar þig að deila með okkur hvaða spurningar myndin vakti.
Hrannar Baldursson, 26.3.2007 kl. 19:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.