4. Óskarsverðlaunin: Cimarron (1931) ***1/2
24.3.2007 | 11:32
Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. Cimarron frá 1931 er sú fjórða í röðinni.
Hinn ævintýraþyrsti Yancey Cravat (Richard Dix) tekur þátt í Oklahoma kapphlaupinu um landskika árið 1889. Hann nær ekki landinu sem hann ætlaði sér, því hann tefst við að hjálpa konu úr ógöngum. Sú kona svíkur hann og hrifsar landið til sín, og byggir síðan vændishús á staðnum sem hann hafði dreymt um fyrir fjölskyldu sína.
Yancey er kvæntur Sabra (Irene Dunne) og eiga þau saman kornungan son. Þau hafa komið sér fyrir í borg. Eiga nóg af pening og gætu lifað þar í friði til æviloka. Slíkt líf stríðir hins vegar gegn persónuleika Yancey. Hann vill vera þar sem hlutirnir eru að gerast, og ekki bara það - hann vill verja miðjan og áhrifavaldur, þar sem að fæstir vilja vera, í hringiðu breytinga og vandamála. En hann þráir að berjast fyrir frelsi og réttlæti, og þá ekki bara fyrir sinn vinahóp, heldur fyrir alla. Þrátt fyrir þessar miklu hugsjónir þjáist Yancey af því sem kalla mætti rótleysi.
Yancey flytur fjölskyldu sína í glænýjan landnemabæ, Osage, sem breytist úr eyðimörk í 10.000 manna bæ á sex vikum. Yancey er lögfræðingur að mennt, en ákveður að setja á laggirnar dagblað; þar sem markmið hans er að leita sannleikans og síðan berjast réttlæti.
Þegar hann kemst skuggalega nálægt því að leysa morðgátu og hefur ákveðið að ljóstra upp um hver morðinginn er, leggur hann eigið líf og annarra í hættu; en tekst að leysa málið með skammbyssum, á meðan hann flytur fagnaðarerindið fyrir fullu húsi.
Yancey, rétt eins og Lukku Láki, er skjótari en skugginn að skjóta. Hann útrýmir til að mynda glæpagengi í miklum byssubardaga á götum bæjarins. Það sem gerir þetta erfitt fyrir hann er að meðlimir í genginu eru gamlir vinir hans, sem rötuðu ekki rétta leið í lífinu. Hann drepur þá ekki án samúðar.
Þetta ofurmenni er samt alls ekki gallalaust. Hann lifir fyrir hugsjónir sínar, en getur ómögulega gefið sig fjölskyldu sinni. Hann er einfaldlega þannig gerður að hann getur aldrei verið kyrr á einum stað í langan tíma, rétt eins og kindahjörð sem sífellt þarf að leita eftir betra æti annars staðar.
Sabra tekur að sér ritstjórn dagblaðsins sem Yancey stofnaði, þegar hann ákveður að halda út í heim og berjast fyrir réttlæti og frelsi einhvers staðar fjarri heimaslóðum. Sabra vex stöðugt að virðingu, en sögur um ævintýri Yancey berast henni endrum og eins. Þegar hann kemur aftur í bæinn, nokkrum árum síðar og sér dóttur sína í fyrsta sinn, heyrir hann að Sabra og siðfágaðar konur í bænum hafa ákært vændiskonuna sem í upphafi myndar rændi hann landareigninni fyrir að hafa siðspillandi áhrif á umhverfið. Yancey bregst æfur við og ákveður að verja vændiskonuna gegn eiginkonu sinni, og leggur mikla áherslu á að mannvirðing sé fyrir alla - sama hversu ólánsamir viðkomandi geta verið í lífinu.
Yancey finnur sér hluti til að berjast fyrir og skellir sér í pólitík. Þegar hann hefur fengið nóg af henni lætur hann sig aftur hverfa, og ekkert spyrst til hans fyrr en mörgum árum síðar þar sem hann drýgir sína síðustu hetjudáð við olíuborun. Hann er hetja samfélagsins en skúrkur eigin fjölskyldu.Cimarron er epískur vestri sem skilur mikið eftir sig. Richard Dix og Irene Dunne eru stórgóð í sínum hlutverkum. Sagan er spennandi og djúp. Myndin spannar heil 40 ár í lífi þeirra Yancey og Sabra, og segir um leið frá merkilegri þróun; hvernig landauðn verður að mikilli borg á stuttum tíma.
Ég mæli með Cimarron og finnst hún afar góð skemmtun. Reyndar er hún komin svolítið til ára sinna útlitslega séð og hljóðið ekki jafn skarpt og ef hún væri kvikmynduð í dag. Sagan hefur aftur á móti fullt erindi til samtímans.
Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:
Wings (1928) ****
The Broadway Melody (1929) *1/2
All Quiet on the Western Front (1930) ****
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 11:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.