300 (2007) ****
19.3.2007 | 19:08
Þrátt fyrir að boðskapur kvikmyndarinnar 300 styðji stríðsrekstur og sýni dýrð í drápum - boðskapur sem ég er innilega ósammála, get ég ekki þráttað fyrir hversu kraftmikil og vel gerð hún er. Þó að hún sé byggð á sögulegum staðreyndum, gerir hún engar tilraunir til að þykjast vera raunsæ eða sagnfræðilega nákvæm. Það verður einfaldlega að taka henni á eigin forsendum. 300 er meira byggð á grafískri skáldsögu en sögulegu raunsæi.
Hómerskviðurnar eru enn jafngóðar þó að þær hafi hvatt til stríðsbrölts, og það sama get ég sagt um 300. Samt get ég ekki annað en spurt hvort að svona kvikmynd, sem er ekki aðeins frábærlega gerð en nær einnig gífurlegum vinsældum; hvort að hún hvetji ungmenni til að styðja stríðsbrask og valdi þannig enn frekari hörmungum í heiminum? Ég óttast að 300 verði notuð sem áróðurstól í stríðinu gegn hryðjuverkum, og til að gera meira úr mismuni á arabaheiminum og þeim vestræna.
Tæknilega stendur 300 samhliða og jafnvel aðeins framar en Lord of the Rings þríleikurinn, en bardagasenurnar eru einfaldlega stórkostlega gerðar. Hver einasti rammi er listaverk. Reyndar eru nokkrar afskræmdar persónur í myndinni ekkert sérlega vel hannaðar, en maður er tilbúinn til að líta framhjá því þegar margt annað er jafngott og raun ber vitni.
300 fjallar um konunginn Leonidas (Gerard Butler) sem stendur frammi fyrir því að þurfa að verja Spörtu, allt Grikkland og jafnvel Evrópu gegn innrás Persa. Hún gerist um 480 fyrir Krist og fjallar um þekkta sögulega orustu við Thermopylae. Þó að kvikmyndin fari nokkuð frjálslega með staðreyndir þá tapar hún engu af sínu skemmtanagildi fyrir vikið, enda er stefnt meira að hinu ljóðræna en raunsæja.
Leonidas tekur þá ákvörðun að leggjast gegn Persum án samþykkis þingsins, en þar eru sumir stjórnmálamenn spilltir og hefðu ekkert á móti því þó að konungurinn og hermennirnir hans 300 færust. Hin fagra og öfluga drottning Gorgo (Lena Headey) berst á stjórnmálasviðinu heima fyrir á meðan eiginmaður hennar leggur í bardagann mikla. Samband þeirra hjóna er hjartað í sögunni og það sem hvetur Leonidas áfram í baráttu sinni við milljónaher Persanna.
Leonidas fer fyrir 300 mönnum sem verja skulu Spörtu. Persar eru leiddir til orrustu af konungi sem telur sig vera guð, Xerxes (Rodrigo Santaro). Hver einasti af þessum 300 Spartverjum er í laginu eins og Ólympíuhetja og allir eru þeir stríðsmenn að atvinnu. Þeirra hlutverk í lífinu er að berjast.
300 er kvikmyndin sem Troy átti að vera. Hver einasti Spartverji er eins og Akkíles. Bardagaatriðin eru flest eins og klippt út úr Iljónskviðju Hómers, og persónurnar í samræmi við það. Sögumaðurinn Dilios (David Wenham) minnir á Ódysseif en Leonidas er Agamemnon og Akkíles samsteyptur í eina persónu. Gerald Butler er sérstaklega sterkur í aðalhlutverkinu sem hinn staðfasti konungur. Hann minnti mig töluvert á ungan Sean Connery eins og hann birtist upphaflega í Bond myndunum. Ég spái því að hann nái langt í Hollywood.
Frank Miller, einn virtasti höfundur myndskreyttra skáldsagna (eða það sem oft er kallað á niðrandi hátt: teiknimyndasögur) skrifaði upphaflegu söguna, en leikstjórinn á mikinn heiður skilinn fyrir að fylgja henni eftir, nánast ramma fyrir ramma, í handritinu sem hann skrifaði eftir bókinni, og fyrir að vera sannarlega trúr upphaflegu verki Frank Miller. Eftir að hafa séð 300, þá er ljóst að næsti Lucas, Spielberg eða Jackson er kominn fram á sjónarsviðið. Maður sem getur gert það sem flestir leikstjórar til þessa hafa aðeins þráð að geta. Næsta mynd Zack Znyder verður The Watchmen, en hún er eftir myndskreyttri skáldsögu Alan Moore. Menn hafa sagt að ekki sé hægt að kvikmynda The Watchmen, en eftir að hafa séð 300 hef ég fulla trú á að Znyder ráði við þetta ómögulega verkefni.
Eina kvikmyndin sem ég hafði áður séð eftir Snyder var Dawn of the Dead, en hún fjallar um vonlausa baráttu fárra einstaklinga gegn uppvakningum; en ég var sérlega hrifinn af hversu góðum tökum hann náði á þeirri mynd.
300 er gerð og markaðssett af miklu hugrekki og snilld. Hver myndi þora að kalla rándýra kvikmynd '300'? Ég mæli sterklega með 300, sem gefur öðrum góðum sandalamyndum eins og El Cid, Ben-Hur og The Gladiator ekkert eftir.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Er búinn að hlakka mikið til að sjá þessa, en verð að bíða aðeins því danirnir eru ekki þeir fyrstu sem fá myndina
Oddur Ingi (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 21:50
sá hana á laugardaginn var og varð ekki fyrir vonbrigðum! Leikstjórin fylgir myndasögunni mjög vel!
Bragi Einarsson, 19.3.2007 kl. 22:52
Lesið krítikina í The Guardian
Magnús Ragnar Einarsson, 20.3.2007 kl. 12:52
Mér fannst hún bara fín, maður verður að fara á þessa mynd með réttum forsendum, ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Töff mynd!
Alvy Singer, 25.3.2007 kl. 03:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.