Stórmyndir: Brazil (1985) ****

Brazil13Brazil er merkileg mynd fyrir fleiri sakir en að hún er frumleg, fyndin og djúp. Leikstjóri kvikmyndarinnar lenti í hálfgerðu stríði við Universal Studios, þá sem höfðu útgáfuréttinn fyrir kvikmyndina í Bandaríkjunum. Þeir höfðu ekki trú á að hún höfðaði til almennings og kröfðust á þeim forsendum að hún yrði stytt úr tveimur klukkustundum og 22 mínútm í tvær klukkustundir og fimm mínútur. Þessar kröfur framleiðslufyrirtækisins voru álíka absúrd og söguþráður kvikmyndarinnar, þar sem að allt þarf að vera eftir bókinni. 

En Terry Gilliam gat engan veginn sætt sig við slíkan niðurskurð. Í stað þess að gefa eftir hélt hann út í herferð sem enginn gat sigrað. Á endanum var Brazil gefin út og sýnd í leikstjóraútgáfunni um allan heim þar sem að hún fékk stórgóðar viðtökur, nema í Bandaríkjunum þar sem hún var sýnd sundurklippt, með gleðilegri endi og án samþykkis leikstjórans.

Brazil05Brazil fjallar um sams konar stríð, þar sem tæknilegt vandamál verður til þess að allt fer í háaloft. Fluga dettur ofan í prentara og verður til þess að stafur í nafni einstaklings kemur vitlaust út úr kerfinu. Orsökin: rangur maður er hafður að rangri sök. Saklaus maður er handtekinn og drepinn í yfirheyrslu, enda eru upplýsingar sem pyntararnir vilja ekki til.

Sam Lowry (Jonathan Price) vinnur fyrir aðra ríkisstofnun. Hans metnaður í lífinu er að láta engan taka eftir sér og sigla þannig lygnan sjó. En hann kemst að þessum hörmulegu mistökum og býðst til að fara með ávísun til ekkju hins saklausa manns. Á heimili hennar sér hann andlit Jill Layton (Kim Greist) á hæðinni fyrir ofan, andlit sem hafði birst honum stöðugt í draumi. Markmið hans í lífinu verður að finna Jill og vinna hjarta hennar.

Umhverfi myndarinnar er svolítið merkilegt. Veruleikinn sem Sam býr í er allur kassalaga. Vírar og túbur flækjast út um allt. Það er eins og að borgin sé einfaldlega eitt stórt kerfi, eins og risastór tölva. Hann upplifir sig einmitt sem hluta af stórri vél sem tryggir að 'kerfið' virki, og hann vill helst að það virki án þess að þurfa að gera nokkuð sjálfur.

Brazil06Harry Tuttle (Robert DeNIro) er sjálfstæður verktaki í heimi þar sem að sjálfstæðir verktakar eru bannaðir. Ef eitthvað er ekki í lagi á Ríkið að redda málunum. Allt annað er lögbrot. Harry þessi þykir vera ógn við Ríkið, enda má ekki una einstaklingsframtakinu. Þegar Harry birtist er hann alltaf í sérsveitarbúning, vopnaður og tilbúinn í bardaga. Hann verður sá maður sem Sam lítur upp til í leit sinni að merkingu í lífinu.

Samfélag þeirra er eins og ef nasistar hefðu sigrað í seinni heimstyrjöldinni. Mannúð og einstaklingurinn skiptir engu máli, en það að kerfið virki skiptir öllu. Það er algjört aukaatriði hvort að það virki rétt. Það sem skiptir öllu er að það virki einhvern veginn. Stjórnendur og lögreglumenn eru klæddir eins og nasistar í seinni heimstyrjöldinni, og reyndar er öll fatatíska myndarinnar tengd því sem var í gangi á fjórða áratug 20. aldar.

Brazil01Þetta varð til þess að ég fékk ákveðinn skilning á heiti myndarinnar - sem flestum finnst óskiljanlegt, þar sem að einu tengslin við Brasilíu er lagstúfur sem er tákn fyrir mögulegan betri heim. Árið 1979 kom út kvikmyndin The Boys from Brazil, sem fjallar um tilraun til að endurskapa Adolf Hitler með klónun. Mér datt í hug hvort að titillin væri vísun í þessa mynd, þar sem að stjórnendur, og sérstaklega yfirmaður Sam, M. Kurtzmann (Ian Holm) sem er stífur kall með stutt yfirvaraskegg og með gífurlegt ofsóknarbrjálæði. 

Þegar Sam hefur sett sér að vinna ást Jill, ákveður hann að þiggja stöðuhækkun og gerast starfsmaður Upplýsingaöflunar ríkisins, sem honum hafði verið boðið vegna mikilla pólitískra tengsla móður hans Ida Lowry (Katherine Helmond), eldri konu sem þráir ekkert meira en að yngjast með lýtaaðgerðum.

Brazil04Sam fær aðgang að frekari upplýsingum um Jill. Hann finnur nafn hennar í skrám upplýsingaöflunar. Ríkið ætlar að handtaka hana og yfirheyra. Hún þykir hættuleg vegna þess að hún er að spyrja óþægilegra spurninga um saklausa manninn sem bjó á hæðinni fyrir neðan hana, var handtekinn og drepinn. 

Sam finnur hana í anddyri byggingarinnar þar sem hann vinnur, en þá er hún umkringd fjölda vopnaðra manna. Honum tekst að komu henni út, enda yfirmaður allra þessara vopnuðu manna og þau leggja á flótta. Hún veit ekki það sem hann veit, og telur hann einfaldlega vera snargeggjaðan, sem hann reyndar er að vissu marki.

Brazil er margbrotin mynd með snúnum söguþráði.  Hugmyndirnar sem birtast í henni eru oft krefjandi og svo furðulegar að maður á erfitt með að ná samhenginu; þannig að maður stendur eftir með fullt af spurningum, en getur lítið annað gert en að túlka merkingu myndarinnar á eigin hátt. Einhvern veginn tekst Gilliam að láta þetta furðuverk smella saman á endanum.

Brazil12Ég hef tvisvar áður séð Brazil, og í bæði skiptin sá ég klipptu útgáfuna og áttaði mig engan veginn á hvað reynt var að segja með henni. Í þessari mun betri endanlegu útgáfu eru skilaboðin kannski ekki skýr, en sagan er heilsteypt og áhrifarík. Myndmálið er glæsilegt og gaman að upplifa svona undarlega kvikmynd stöku sinnum; sem er svo sannarlega Gillíamsleg, enda hefur hann leikstýrt jafn furðulegum stórmyndum og Monthy Python and the Holy Grail, Monty Python's Meaning of Life, Time Bandits, 12 Monkeys og fleiri góðum.

Ég mæli sterklega með Brazil, og eins og góður vinur minn minntist á þegar við horfðum á hana saman, í gamansömum tón, að hún ætti að vera skylduáhorf fyrir ríkisstarfsmenn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Brazil er ódauðlegt listaverk, sem eldist bara alls ekki. Mín uppáhaldsmynd.  Þarna er Terry Gilliam að leggja út af 1984 Orwells og gerir það betur en nokkrum öðrum hefur tekist. Mynd, sem er ekki síst tímabært áhorf í dag. Ég skrifaði einhverntíma pistil um hana í kvikmyndatímaritið Land og Syni, sem hét: Frelsið innra.  Þar vísa ég til umdeilds endis myndarinnar. If there is no way out, there is allways a way in.

Svo skemmtilega vill til að einn af þeim sem sá um módelsmíði og mineatureeffekta í myndinni er góður vinur og samstarfsmaður Martin Gant, sem giftur er formanni Norræna kvikmynda og sjónvarpsjóðsins Janette Sundby.  Hann sá meðal annars um hina mögnuðu senu þegar skýjakljúfarnir brjótast upp úr ósnortnu sveitalandslaginu auk draumasena Sam Lowry's á flugi.

Martin þessi hjálpaði okkur m.a. við að gera snjóflóðasenurnar í myndinni minni, Ikíngut auk þess að hafa komið nálægt verkum Hrafns Gunnlaugsonar og fleiri. Ráðlegg öllum að sjá þessa mynd og helst eignast hana og sjá með reglulegu millibili eins og ég. 

Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2007 kl. 14:24

2 identicon

Áhugavert, maður verður að kíkja á þetta.

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 16:01

3 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Takk fyrir þessi frábæru skrif um Brazil sem er ein af mínum uppáhalds myndum, hef séð hana oftar en ég hef tölu á. Tær snilld og segja má að The Fisher King fái aðra merkingu ef maður hefur séð Brazil.

Birgitta Jónsdóttir, 18.3.2007 kl. 18:40

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón Steinar:  Ég vissi ekki af Martin og finnst áhugavert hvernig hann tengist íslenskri kvikmyndagerð. Þegar maður hugsar til þess hvenær myndin var gerð og átti upphaflega að koma út, en varð fyrir töfum vegna stríðs Gilliam við stúdíóin, þá sér maður enn og aftur hvað hún er mikið listaverk. Hún var að sjálfsögðu öll gerð árið 1984, og hefur sjálfsagt átt að koma út á því ári, til heiðurs Georg Orwell. Þetta er að sjálfsögðu bara sögutúlkun hjá mér. Ég hef engar staðreyndir fyrir mér í þessu aðrar en smávon um að kannski sé hægt að átta sig á hvernig Gilliam hugsar. 

Oddur Ingi: Takk, þú hefur verið traustur með mér á blogginu frá upphafi. Vonandi heldur það bara áfram.

Birgitta: Þakka þér. Það er náttúrulega skandall að ég skuli ekki hafa minnst á Fisher King í upptalningu minni; en hún er vissulega enn eitt stórfurðuverk Gilliam. Ljóst að maður verður að renna í gegnum feril hans einhvern daginn. Keypti mér reyndar heimildarmyndina Lost in La Mancha um daginn, um tilraunir Gilliam til að taka upp Don Quixote með Johnny Depp. Hún er ofarlega á listanum. 

Jóna: Takk fyrir hvatninguna! E-bay hefur reynst mér vel til að finna þessar myndir. Brazil fann ég þó á  dvdplanet.com - fékk mér Criterion útgáfuna sem inniheldur bæði klipptu og endanlegu útgáfuna. Þó að Óskarsverðlaunamyndirnar kosti eitthvað aðeins meira en að taka þær á leigu er vel þess virði að eiga þær til að geta kíkt á þær aftur og aftur. Og þó að Brazil hafi ekki fengið Óskarinn sem besta myndin árið 1985, þá hefði hún nú hugsanlega gert það ef hún hefði fengið að koma út í endanlegri útgáfu. 

Hrannar Baldursson, 18.3.2007 kl. 22:51

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gilliam sagði sjálfur í The Southbank Show að þetta væri hans 1984. Þar segir hann einnig frá heilsíðuauglýsingunni, sem hann keypti í Variety til að spyrja framleiðendur hvað þeir ætluðust fyrir með myndina. Það rauf þagnarmúrinn og leynisýningar spruttu upp um öll bandaríkin og víðar, svo þeir neyddust til að setja hana í dreifingu. Annars hefði hún endað ofan í skúffu.

Síðast gerði hann myndina The Brothers Grimm og aðra var hann að gera í kanada. Brothes Grimm var illa mörkuð af inngripum framleiðenda og var því hálfgert flopp. Hann lét það yfir sig ganga eftir ótrúlegt stríð með myndina The Man from La Mancha um Don Kíkóta, sem var slegin af vegna kostnaðar og deilna.  Hann fílar ekki að vaðið sé yfir hann og er svona Author kvikmyndahöfundur á evrópska vísu. Brazil er full af minnum úr 1984 og fylgir sögunni nokkuð vel, Hún er svona adobtion eins og mér finnst adobtiionir úr bókmenntaverkum eigi að vera. Sjálfstæð verk, sem fanga kjarna sögunnar.

Gilliam er "Íslandsvinur" og er góður vinur Hilmars Arnar Hilmarssonar alsherjargoða og  kvikmyndatónskálds.  Mynd hans Munchausen var evrópubúðingur, sem setti næstum evrópska bíóbransann á hausinn. Hún er þó snilldarverk, sem menn gleyma oft. Hann er stundum of stór fyrir sinn hatt blessaður en einn færasti og listrænasti kvikmyndahöfundur samtímans og ræður fullkomlega við þennan sjónræna miðil.  Hann er enda myndlistamaður og byrjaði með Monthy Python sem illustrator og eru klippimyndirnar í umgjörð þeirra þátta hans verk.  Síðar tók hann til við að semja sketsa og leika.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.3.2007 kl. 03:26

6 Smámynd: Þórdís Guðmundsdóttir

Góð grein um stórkostlega mynd.  Criterion útgáfan er einmitt það fyrsta sem ég festi kaup á þegar ég eignaðist fyrst DVD spilara. 

Þórdís Guðmundsdóttir, 19.3.2007 kl. 12:26

7 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Skemmtileg grein um frábæra mynd,hef samt aðein séð hana einu sinni(ábyggilega styttu útgáfuna), verð að fá mér þennan DVD.

Georg P Sveinbjörnsson, 20.3.2007 kl. 03:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband