Johnny Dangerously (1984) ***

JohnnyDangerously02_000Michael Keaton skaust upp á stjörnuhimininn með þessari kvikmynd. Hann leikur Johnny Dangerously, glæpamann í New York sem er gífurlega drjúgur með sig. Ef þú hefur gaman af svona karakter og litríkum aukapersónum, þá muntu hafa mjög gaman af þessari mynd. Aftur á móti hef ég heyrt að auðvelt sé að láta ofsagleðina sem birtist í nánast hverju einasta atriði fara í taugarnar á sér. Þannig er Johnny Dangerously eins og gott áramótaskaup. Annað hvort finnst þér það frábært eða þolir það ekki.

Johnny er dreginn út á glæpabrautina til að eiga fyrir aðgerðum sem móðir hans þarf að fara í. Einnig er hann í glæpum til að fjármagna lögfræðinám bróður síns, en hann reiknar ekki með að bróðir hans snúist gegn honum þegar laganámi lýkur.

Fyrst þegar ég sá Johnny Dangerously sem unglingur þótti mér hún frábær. Í dag finnst mér hún  ennþá góð. Það sem mér fannst óbærilega fyndið sem unglingur kom sérstaklega frá tveimur persónum, Roman Moroni (Richard Dimitri), snarklikkuðum bófa sem er í eilífu stríði við gengið sem Johnny hefur gengið í og Danny Vermin (Joe Piscopo) illmenni sem nýtur þess að láta aðra þjást og gerst hefur meðlimur í gengi Johnny, og þráir ekkert heitar en að steypa Johnny af stalli.

JohnnyDangerously04_000Sagan hefst á þriðja áratug tuttugustu aldar og gerir sitt besta til að ýkja sakleysi tíðarandans. Ofbeldisfullum árásum er tekið létt og að mestu látið eins og byssukúlur og sprengjur geti ekki drepið fólk, rétt eins og í teiknimyndasögum. Persónurnar gætu reyndar verið dregnar upp úr sögum eins og um Tinna, Sval og Val, eða Lukku Láka; svo ýktar eru þær.

Af öðrum aukaleikurum sem gefa myndinni skemmtilegan blæ eru Peter Boyle sem mafíuforinginn Jocko Dundee, en hann tekur Johnny í vinnu fyrir glæpagengið frá barnsaldri. Griffin Dunne er góður sem Tommy Kelly, bróðir Johnny og metnaðarfullur starfsmaður saksóknara, sem allir bófar vilja drepa, nema Johnny að sjálfsögðu, og Danny DeVito sem gjörspillti saksóknarinn Burr. Dom DeLuise er einnig skondinn í smáhlutverki sem páfinn.

Það er ekkert tekið alvarlega í þessari mynd, nema þá kannski mikilvægi fjölskyldunnar, og má segja að boðskapur myndarinnar sé sá að ekkert skuli vera fjölskylduböndum yfirsterkara, og þá alls ekki atvinna, réttlæti eða glæpir, né mafíufjölskyldan. 

Stórskemmtileg grínmynd sem enginn húmoristi ætti að láta fram hjá sér fara.

 Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Gaman að þessum kvikmyndaumfjöllunum. Ég sá Johnny Dangerously en á eftir að sjá Gattaca. Nú dríf ég í því. Og ég er sammála þér Hrannar minn. Mikið er gaman að heyra og sjá skrifin þín aftur.

Steingerður Steinarsdóttir, 7.3.2007 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband