Ghost Rider (2007) ***1/2

Þetta finnst mér frábært. Gagnrýnendur á netinu og í fjölmiðlum almennt hafa gjörsamlega misþyrmt Ghost Rider. Eins og staðan er í dag fær hún aðeins 27% viðurkenningu sem góð mynd á rottentomatoes.com, vefsíðu sem reiknar út meðaltal jákvæðni eða neikvæðni gagnrýnanda á viðkomandi kvikmyndir. Í þetta sinn er ég ósammála straumnum, og er ánægður með hversu góðar viðtökur hún er að fá frá almenningi þrátt fyrir að vera skellt illilega af gagnrýnendum. Ég læt gagnrýni mína um Ghost Rider fylgja:

Ghost Rider (2007) ***1/2

 

GhostRider01Þó að ég gefi Ghost Rider þrjár og hálfa stjörnur er það ekki vegna þess að ég held að þetta sé stórmerkilegt listaverk, heldur bíómynd sem skilar sínu og betur en það. Fjöldi gagnrýnanda hefur rifið þessa mynd í sig og látið eins og hún sé eitthvað drasl, og þá aðallega vegna þess að guðfræðin á bakvið hana er eitthvað brengluð. En KOM ON! Aðalhetjan breytist í logandi beinagrind. Við hverju er hægt að búast?

Johnny Blaze (Nicolas Cage) gerir samning við djöfulinn sjálfan (Peter Fonda) um að losa föður sinn við krabbamein. Djöfullinn losar pabbann við krabbameinið en drepur hann samt. Ævi Johnny Blaze er í rúst eftir þetta þar sem að hann las ekki smá letrið. Hann fær ekki að halda vináttu- eða ástarsamböndum, þar sem að sál hans er nú í eigu Satans og mun verða notuð síðar sem verkfæri hans.

Johnny hefur séð eftir þessum samningi í yfir tuttugu ár og alltaf hagað sér til fyrirmyndar eftir þetta. Hann hvorki reykir né drekkur og dreymir um að gera þjóðfélaginu gagn. Hann starfar sem áhættustjarna á mótorhjóli og er frægur fyrir að stökkva yfir vörubíla og þyrlur langar vegalengdir.

Loks kemur að því að djöfullinn þarf á Draugaþreytinum (Ghost Rider) að halda, en mig langar að kalla hann Draugaþreytinn af því að hann er draugur sem þreytir áfram mótorhjóli sínum af miklum krafti. Svo er málið búið að sonur djöfulsins hefur gerst metnaðarfullur og ætlar að taka yfir veldi föður síns. Sonurinn er semsagt verri en pabbinn að því leyti að hann fylgir engum reglum. Hann drepur bara þá sem honum sýnist og pirrast ekkert yfir heilagri grund eða neinu slíku. Djöfullinn vill hafa ákveðna reglu á jörðu, þar sem að hann vill völd yfir fólki en ekki eyðileggingu, og fær hann Draugaþreytinn til að berjast gegn syni sínum og skrýmslum hans.

GhostRider03Myndin er vel gerð og hin besta skemmtun. Tæknibrellurnar eru flottar og ná mjög vel utan um þennan karakter, en ég hafði lesið einhverjar teiknimyndasögur um hann þegar ég var unglingur. Það eru ákveðnar klisjur í lokin sem gerir endinn frekar væminn, en ekkert sem eyðileggur of mikið fyrir því góða sem á undan er gengið.

Þema myndarinnar snýst um fyrirgefningu og val. Johnny gerði þessi einu mistök, að skrifa undir samning með blóði sínu við djöfulinn, og þrátt fyrir að hafa gert allt annað rétt í lífinu, þjáist hann stöðugt fyrir það. Og þó að hann verði að verkfæri djöfulsins, þá finnur hann kraft til að breyta rétt þrátt fyrir það, og snúa baráttunni upp í stríð hins góða gegn hinu illa, í stað hins vonda gegn hinu verra.

Svo má ekki gleyma því að myndirnar á tjaldinu eru einfaldlega gull fyrir gamla þungarokkara. Hvaða rokkari fær ekki eitthvað út úr því að sjá logandi beinagrind í leðurjakka og með svipu úr keðju gera óþokkum og skrýmslum lífið leitt.

Ljóst er að leikstjóranum, Mark Steven Johnson, hefur farið mikið fram síðan hann gerði hina sárleiðinlegu Daredevil. En ég á reyndar eftir að kíkja á leikstjóraútgáfu þeirrar myndar og einnig Electra. Ljóst að maður verður að fara að kíkja á þessar myndir, því að þó þreytarinn sé þunnur - þá er fullt af kraftmiklum spörkum í honum.

Stórskemmtileg ofurhetjumynd, en aðeins fyrir þá sem hafa gaman af ofurhetjumyndum og mæta ekki með of miklar væntingar um skynsamlegan söguþráð og góðan leik; en reyndar leika þeir Nicolas Cage og Sam Elliot skemmtilegt tvíeyki, en allir aðrir fannst mér reyndar tvívíðir og þunnir.

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.

 


mbl.is Draugasaga enn vinsælust vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér þykir einkunnagjöf þín ekki nægilega góð. Þú telur The Departed verri mynd en Ghost Rider. Það hljóta allir að vera sammála um að The Departed sé betri mynd en Ghost Rider.

Steinar (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 22:24

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdina Steinar, en ég held að þarna sé misskilningur á ferðinni. Kannski ég þurfi að útskýra aðeins þá aðferð sem ég nota við einkunnagjöf á kvikmyndum. Ég vil ekki dæma allar myndir út frá einu ákveðnu viðmiði, heldur út frá þeim viðmiðum sem hægt er að gefa sér út frá þeim markmiðum sem viðkomandi kvikmynd stefnir að. The Departed fær þrjár stjörnur hjá mér sem glæpamynd eða drama; en fengi sjálfsagt enga stjörnu sem ofurhetjumynd. Ghost Rider fær þrjár og hálfa stjörnu hjá mér sem ofurhetjumynd en fengi sjálfsagt enga stjörnu sem glæpamynd eða drama. 

Hrannar Baldursson, 25.2.2007 kl. 22:32

3 identicon

áhugavert Hrannar

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 22:48

4 Smámynd: Ellert Júlíusson

Alveg hin sæmilegast afþreying. Algjörlega innihaldslaus en vel gerð og fín "comic relief" atriði inn á milli.

Út frá því má alveg gefa henni sæmilega einkunn

Jafnframt held ég að Sam Elliott sé Friðrik Þ. Friðriksson í dulargerfi!

Ellert Júlíusson, 26.2.2007 kl. 09:04

5 identicon

Sá trailerinn og það var nóg, of ýkt að keyra mótorhjóli og sprengja alla bíla sem eru til hliðar + fleiri atriði.  Hárfín lína sem verður að fara í svona myndum milli raunveruleika og óraunveruleika.  Óraunveruleikinn verður að lúta einhverjum náttúrulögmálum.

Siggi (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband