Little Miss Sunshine (2006) ***1/2

LittleMissSunshinePosterNú hlýtur þessu bráðum að ljúka. Hverjar eru líkurnar á því að maður horfi á þrjár myndir í röð og allar þeirra eru hörkugóðar? Little Miss Sunshine er einfaldlega stórskemmtilega gamanmynd um ástina á nánustu ættingjum, sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Olive (Abigail Breslin) er 7 ára gömul, og frekar þybbin stúlka sem dreymir um að verða fegurðardrottning. Hún vinnur sér sæti í fegurðarkeppninni Little Miss Sunshine í Kaliforníu, sem á að fara fram í öðru fylki eftir fá daga. Fjölskylda hennar ákveður að fylgja henni í keppnina, en hver og einn þeirra hefur mjög sérstakan persónuleika og fást við margvísleg persónuleg vandamál.

Afinn (Alan Arkin) er heróínfýkill sem hugsar um fátt annað en hvernig hann hefði getið lifað lífinu öðruvísi. Frændinn Frank (Steve Carell) er í umsjá fjölskyldunnar eftir að hafa reynt að fremja sjálfsvíg, en kærasti hans hafði farið frá honum fyrir mann sem þótti merkilegri en Frank á vitsmunalega stiginu. Bróðir hennar (Dwayne) hatar formlega alla og dreymir um að verða flugmaður, hann talar ekki vegna þess að Nietzsche minntist einhvern tíma á að það væri ekkert merkilegt ósagt í þessum heimi. Mamman (Toni Collette) er á barmi taugaáfalls, lýgur um smáatriði en þráir ekkert annað en hreinskilni frá öðrum. Og pabbinn er hugmyndasmiður að kerfi sem á að tryggja velgengni í lífinu, vandamálið er bara að honum hefur ekki tekist að selja það og er nánast gjaldþrota, - en hann er gífurlega upptekinn af því að vinna og finnast vera sigurvegari, en fyrirlítur allt sem tengist tapi og veikleika.

Þannig er þessi fjölskylda samansett sem fer saman í þessa ferð, og að sjálfsögðu tekst þeim að púsla sér saman á leiðinni og finna lausnir á þeim vandamálum sem hrjá þau, án þess jafnvel að átta sig á því sjálf.

Hæfileikakeppnin í lokin spilar aðeins á væntingar áhorfenda, en það er bara nokkuð sem að þú þarft að sjá með eigin augum. Hvort Olive vinni fegurðarsamkeppnina er ekki aðalmálið, heldur leiðin að keppninni og að taka þátt sem þú sjálf.

Í raun fjallar Little Miss Sunshine um það að þó að þú sért kannski ekki alveg eins og allir aðrir, þá er það allt í lagi, og ekki bara það: það er frábært og gott að þú skulir voga þér að vera þú sjálf eða sjálfur. Það er á endanum það sem fólk elskar við þig.

Stórskemmtileg mynd sem ætti að geta fengið flesta til að brosa, að minnsta kosti vel út í annað, ef ekki allan hringinn.

 

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband