Stjórnlagamálið og atkvæðagreiðsla: Pólitískar klíkur gegn almannahag?

1221_Die_Revolution_1848_in_Be

Málið hófst í byltingu. Hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu. Þúsundir Íslendinga lögðu leið sína að Alþingishúsinu og börðu á potta og pönnur, kröfðust þess að hlustað yrði á þjóðina. Árangurinn var sá að ríkisstjórn var steypt af kolli og ný kosin í staðinn, engu betri, fyrir utan fjóra einstaklinga sem kosnir höfðu verið til að breyta stjórnskipulaginu. Einn þeirra var fljótur að skipta um lið, og þá voru eftir þrír. Þau sem eftir eru eiga heiður skilið fyrir að standa sinn vörð, og hrópa á hjálp þjóðarinnar á ögurstundu - sem er í dag. 

Hóparnir sem takast á eru tvennir:

  1. Þeir sem vilja klíkupólitík, eru sáttir við spillingu, mútur (styrki), og að litlar klíkur ráði öllu á landinu, vilja viðhalda ósanngjarnri verðtryggingu á húsnæðislán og styðja við gjörspillt bankakerfi. Þeir vilja koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu.
  2. Þeir sem vilja heiðvirð stjórnmál, vilja að almannahagur ráði frekar en sérhagsmunir, sjá ýmislegt athugavert við að stórfyrirtæki styrki þingmenn, vilja að fólk hafi efni á að eignast heimili. Þeir vilja atkvæðagreiðslu.

Þetta er það sem búsáhaldabyltingin snerist um! Þetta er byltingin sjálf. Ekki potta og pönnur. Ekki reiði og úlfúð. Heldur kröfu um alvöru breytingar á ómögulegum starfsháttum og verklagi.

Næsta mánudag er mikilvægasta augnablikið. Og þjóðin sjálf þyrfti að gera eitthvað róttækt, mæta á staðinn og sýna nýju stjórnarskránni stuðning í verki. Annars verður sú vinna sem unnin hefur verið síðustu fjögur ár af mikilli elni og þolinmæði, töpuð á einu bretti.

Sjáum við það ekki? Erum við nokkuð að sofna aftur?

Þór Saari sér það. Hann á heiður skilinn fyrir að varðveita málstaðinn af miklum krafti. Hann hefur gert í fjögur ár það sem kjósendur hans báðu hann að gera. Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennilega á því hvað hann gekk mikilvægt skref með því að leggja fram þessa vantrauststillögu - og maðurinn liggur undir gríðarlegu einelti fyrir vikið, er hæddur og uppnefndur, en hann stendur eins og klettur. Aðdáunarvert!

Klíkupólitíkusar gera allt sem þeir geta til að sverta málstað stjórnarskrárfrumvarpsins, fara í manninn frekar en boltann, því verið er að tefla um mikla hagsmuni. Þeir sem vilja koma málinu í gegn, eru hins vegar þeir sem hafa fengið upp í háls af spillingu og ógeði á sviði íslenskra stjórnmála og hagsmunapots. Þeir sem vilja kjósa um málið á þingi eru góði gæinn. Það er engin spurning.

Verði málið ekki lagt til atkvæðagreiðslu, einfaldlega vegna þess að fólk er ósammála "á bakvið tjöldin", þá er öll von úti þegar kemur að endurreisn íslenskra stjórnmála, og rétt það sem Þorvaldur Gylfason segir, að um valdarán sé að ræða.

Klíkuveldið þarf að stöðva.

Tíminn til þess er núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ég held að þau fjögur í Borgarahreyfinguni hafi verið kosin til að hjálpa heimulunum áður en þau fara í rúst, en ekki einhvejar stjórnarskrárbreytingar.

Ef þú getur bent á eitthvað í núverandi Stjórnarskrá Íslands sem orsakði eða kom í veg fyrir að hægt væri að stoppa útrásarvíkingana og þeirra fjárglæpastarfsemi, þá hef ég áhuga að sjá það og sérstaklega ef stjórnarskrárfrumvarpið lagfæri það og að hrun geti aldrei orðið á Íslandi aftur.

Hitt er aftur annað mál að aðild EES er aðal driffjöðurinn í hruninu 2008.

Nei Þór Saari og pilsin tvö hafa svikið heimilin, af því að þau hafa ekki staðið fyrir nokkru raunhæfu til að bjarga þvi sem bjargað verður áður en heimilin fara í rúst.

Stjórnarskrá hefur lítið næringargildi fyrir fjölskyldur sem eiga ekki ofaní sig og á:

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 8.3.2013 kl. 13:45

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Núverandi stjórnarskrá kom ekki í veg fyrir að tveir menn gætu ákveðið eina dagstund að þjóðin yrði í hópi viljugra þjóða til að fara í stríð við þjóð í fjarlægu landi af því að ekkert í stjórnarskránni tók á þessu.

Í nýju stjórnarskránni eru settar skorður gegn svonalöguðu.

Í nýju stjórnarskránni eru reistar skorður við því að tveir menn geti í skjóli nánast alræðis síns yfir þingflokkum sínum komið í gegn afhendingu ríksibanka fyrir slikk handa gæðingum sínum. Í nýju stjórnarskránni eru fleiri en ein leið til þess að hamla slíku, til dæmis með ákvæðum um rétt kjósenda til að skjóta málum til þjóðarinnar.

Núverandi stjórnarskrá kom ekki í veg fyrir að ráðríkir valdhafar gætu lagt niður mikilvægar eftirlitsstofnanir og svínbeygt aðrar með hótunum. Nýja stjórnarskráin setur hömlur við þessu.

Ómar Ragnarsson, 8.3.2013 kl. 23:11

3 Smámynd: Elle_

Hvar í veröldinni bað þjóðin um nýja stjórnarskrá?  Ekki nokkursstaðar.  Og hvaðan í veröldinni fengu Jóhanna Sig, Þorvaldur mikli og Vilhjálmur Þorsteinsson vald til að skrifa fyrir okkur hin nýja stjórnarskrá?  Ekki frá þjóðinni.  Þorvaldur mikli og Þór Saari hafa bara ekkert umboð þjóðarinnar fyrir nýrri stjórnarská, þó þeir staglist ranglega á þessum 'vilja þjóðarinnar'. 

Furðulegt hvað þú telur þig geta skipt heilli þjóð í 2 flokka.  Get ég frætt þig á að ég er í hvorugum þeirra?  Við þurfum ekki nýja stjórnarskrá þó kannski megi bæta núverandi stjórnarskrá.  Þú ert á villigötum með þennan pistil og ég bendi á þennan:  Illt innræti og gengisfelling orða

Elle_, 9.3.2013 kl. 09:49

4 Smámynd: Elle_

Í sambandi við hópana 2 sem þú skiptir heilli þjóð niður í.  Í lokin ætlaði ég að segja að ég passaði í hvorugan hópinn, samkvæmt þinni lýsingu.  Þó ég hafi passað í hóp no. 2 áður en ég las pistilinn, er ég samt ein af fjölda, fjölda manns sem vill ekki nýja stjórnarskrá.  Þann hóp settir þú allan í no. 1.

Elle_, 9.3.2013 kl. 10:48

5 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Útúrsnúningur Ómar Ragnarsson, það sem var verið tala um; varð það vegna núverandi Stjórnarskrá að hrunið 2008 varð að veruleika?

Er það eitthvað í núverandi Stjórnaskrá sem gerði það að verkum að ekki var hægt að afstýra hruninu 2008?

Hefði stjórnarskráin þín og Þorvalds Gylfasonar komið í veg fyrir hrunið 2008 ef ykkar stjórnarskrá hefði verið í gildi?

Geta heimilin sem eru að fara í rúst borðað stjórnarskrá þína og Þorvalds?

Ég get ekki séð að það hafi skaðað landið þó svo að Halldór og Davíð hafi ákveðið að Ísland yrði eitt af löndum þeirra viljugu þjóða. Auðvitað átti ekki að vera nein Iraq vitleysa.

En ég sé í hendi minni að þjóðinn fær ekkert að kjósa um inngöngu Íslands í ESB með stjórnarskrá Ómars Ragnarsson og Þorvalds Gylfasonar, svo að þið báðir standið fyrir því að Ísland verði selt erlendu ríki.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 9.3.2013 kl. 13:46

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jóhann: Þau fjögur voru kosin til að verja heimilin, vera rödd þjóðarinnar inni á Alþingi, varðveita okkur gegn klíkuskap og slíkri hefðbundinni pólitík. Rétt er að þau hafa ekki náð miklum árangri þegar kemur að aðstoð við heimilin í landinu, en hins vegar leit út fyrir um stund að tækist að hrista aðeins upp í kerfinu, þannig að óskynsamleg stjórnkænska yrði ekki sífellt ofan á í mikilvægum ákvörðunum. Ég á sjálfur ekkert í þessari nýju stjórnarskrá, en tel að breytinga sé þörf til að koma á beinara lýðræði.

Stjórnarskrármálið snýst ekki um hvað hefði verið hægt að gera til að afstýra Hruninu, heldur um þá stanslausu stjórnmálakreppu sem Íslendingar hafa þurft að þola frá ómunatíð.

Elle: Kannski vitum við ekki alltaf hvað það er sem við viljum.

Ómar: Sammála um takmarkanir á alræði tvímenningastjórna eins og hefur verið í gangi á Íslandi síðustu áratugina.

Hrannar Baldursson, 10.3.2013 kl. 13:53

7 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Hrannar ég er ekki sammála þér, ný stjórnarskrá kemur ekkert til með að fæða og klæða heimilin.

Gæluverkefni Ómars Ragnarssonar og Þorvalds Gylfasonar er ekkert annað en ótímabært rugl og á heima í ruslakörfuni..

Forðum heimilunum frá því að fara í rúst áður en farið er í gæluverkefni sem liggur ekkert á.

Hrannar hvort er meira áríðandi að forða heimiunum frá rúst eða stjórnarskrá Ómars Ragnarsson og Þorvalds Gylfasonar?

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 11.3.2013 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband