Hvers virði væri lífið án gagnrýnnar hugsunar?
10.8.2012 | 05:56
Í síðustu grein minni, Hefur þú áhuga á gagnrýnni hugsun?, setti ég fram nokkrar spurningar um viðhorf til gagnrýnnar hugsunar. Af einhverjum ástæðum fóru athugasemdir að snúast um trúarbrögð og guðleysi eða trúarbragðaleysi, þar sem einn nafnlaus aðili gaf sér meðal annars mína afstöðu til trúarbragða, án þess að þekkja til hennar. Annar aðili, Haukur Kristinsson, lagði fram nokkrar frumspekilegar spurningar sem dæmi um hvað áhugavert væri að "vita og skilja". Ég er sammála því að þetta séu góðar og spennandi spurningar, þó að frumspeki sé aðeins ein af mörgum hliðum heimspekilegrar þekkingar um heiminn.
Til gamans íslenskaði ég spurningar Hauks, sem hann lagði í athugasemdareitinn á ensku:
- Af hverju er eitthvað frekar en ekkert?
- Af hverju erum við til?
- Af hverju þessi ákveðnu lögmál og ekki einhver önnur? (Sjálfsagt átt við náttúrulögmál)
- Hvert er upphaf náttúrulögmálanna?
- Eru einhverjar undantekningar á náttúrulögmálunum, til dæmis kraftaverk?
- Er aðeins ein gerð lögmála möguleg?
- Albert Einstein: Það óskiljanlegasta við alheiminn er að hann er skiljanlegur.
Hægt er að byrja að svara þeim á ólíka vegu, útfrá ólíkum forsendum sem þarf að gefa sér í upphafi, með því að (1) gera ráð fyrir að guðleg öfl séu til (guðfræði), (2) gera ráð fyrir að við vitum ekkert um guðleg öfl án þess að útiloka þau eða hampa þeim (heimspeki), eða (3) gera ráð fyrir að guðleg öfl geti ekki verið til (guðfræði).
Þessar þrjár forsendur eru afar ólíkar og mun sá sem svarar þessum spurningum fá afar ólík svör, eftir því hvaða forsendur viðkomandi gefur sér. Guðfræðin rannsakar af dýpt (1) og (3), en viðfangsefni heimspekinnar er að rannsaka (2), og leyfir sér að sjálfsögðu að gefa sér (1) og (3) líka þegar það á við, eftir því um hvað er fjallað og hver það er sem rannsakar efnið.
Ef þú ætlar að takast á við þær spurningar sem þú leggur til, þarftu að rannsaka möguleg svör út frá ólíkum forsendum. Ef þú gefur þér að einungis ein af þessum forsendum sé möguleg, að guðleg öfl geti ekki verið til, geturðu misst af mikilvægum vísbendingum og hugmyndum sem gætu skipt máli, hvort sem guðleg öfl eru til eða ekki. Algjör afneitun á mögulegri tilvist guðlegra afla (hvað svo sem getur verið túlkað sem guðlegt afl), og flokka þá sem taka þá afstöðu sem andstæðinga, gengur þvert á grundvöll gagnrýnnar hugsunar, sem krefst þess að maður endurmeti eigin afstöðu, og rannsaki málin frá sem flestum hliðum með opnum hug.
Guðleysi án gagnrýnnar hugsunar, jafnt sem trú án gagnrýnnar hugsunar, jafnt sem hugsunarleysi, er svolítið eins og að keyra á fyrirfram gefinn áfangastað, og gefa sér að ekkert annað en áfangastaðurinn skipti máli. Þannig er hætta á að viðkomandi missi af þeim möguleikum, þeirri fegurð og mögulegu uppgötvunum, sem felast í sjálfu ferðalaginu.
Athugasemdir
Er ekki rökréttara að spyrja: Hvers "virði" er "gagnrýnin hugsun" án lífsins? - en þá þarf væntanlega að byrja á því að skilgreina hugtökin "virði" og "gagnrýnin hugsun" - þannig að líklegast er best að fabulera áfram um spurninguna þína
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 10.8.2012 kl. 09:11
Það er augljóst að þeir guðir sem ég hef kynnt mér.. að þeir eru allir manngerðir... og svo, hvað er guð eiginlega.. er hann/hún/það eitthvað sem getur þjónustað rassgatið á kvikindum á skítakúlu sem flýgur um í geimnum vælandi í galdrapabba... erum við eitthvað merkilegri en ormur eða fiskur.. er meint sérstaða okkar ekki bara í hugum okkar sjálfra..
Það þarf voðalega litla hugsun til að afneita guðum Hrannar.. það þarf álíka mikla/minni hugsun en þegar barnið kemur til manns og spyr hvort Hulk sé til í alvörunni, hvort Harry Potter sé raunverulegur...
Lágmarks hugsun þarf til að sjá að þetta er fantasía,skáldað upp... og já við getum bætt inn í þetta: Við vitum ekki svörin við öllum spurningum, þess vegna er Andrés Önd guð.. sem er sama formúla og hjátrúarfullir nota
DoctorE (IP-tala skráð) 10.8.2012 kl. 10:29
Ég skora bara á þig DoctorE - þú frábæri hugsuður - opinberaðu þína einstöku persónu svo við getum tignað mikilleik þinn undir réttu nafni og kennileiti.
Við hinir sem þú átt í útistöðum vð komum fram hreinir og beinir með andlitið í sólarljósinu, en þú felur þig á bak við hið lærða heiti DOCTOR - það hlýtur að krefjast einhvers hugrekkis af þinni hálfu.
Komdu nú bara út úr skápnum og kynntu þína æruverðugu persónu fyrir okkur leikmönnum á borði allífsins.
Með fyrirfram þökkum herra DoctorE
Sigurður Alfreð Herlufsen, 10.8.2012 kl. 12:18
Vandinn með þessar spurningar (og spurningar af þessu tagi almennt) er að það má skoða þær út frá vísindalegum eða trúarlegum forsendum. En, þetta eru ekki sömu spurningarnar eftir því hvor leiðin er farin. Þess vegna er ekki sanngjarnt að krefjast þess að "gagnrýninn" vísindamaður meti trúarlegu túlkunina á því hvað er verið að spyrja til jafns við þá vísindalegu.
Þegar svona er spurt í vísindalegu samhengi er verið að leita orsaka og afleiðinga.
- Hvaða ferlar leiddu til þess að "eitthvað" varð til? (hér skiptir engu máli hvort spyrjandinn telji að einhver "guðleg öfl" hafi átt þátt í að setja þessa ferla í gang eða ekki - svarið ætti að geta verið það sama). Trúaður vísindamaður gæti alveg eins spurt - hvaða ferla setti "guðlega aflið" í gang sem leiddi til þess að "eitthvað" varð til? Hann nálgast þá viðfangsefnið á sama hátt og sá sem veltir ekki fyrir sér þátt "guðlega aflsins" (vonandi).
Þegar svona er spurt í trúarlegu samhengi er verið að leita hvata.
- Hvers vegna fóru einhverjir ferlar í gang sem leiddu til þess að "eitthvað" varð til? Og ef það var einhver ástæða, hver eða hvað fylgist með til að tryggja að upphaflegu ástæðunni er fullnægt? Okkur er sérlega tamt að líta á spurningar sem þessar frá þessu sjónarhorni vegna þess að við sjálf gerum fátt án þess að einhver ástæða liggi að baki. En "ástæðan" frá okkar hversdagslega sjónarhorni er oft allt önnur en náttúrulega ferlið sem átti sér stað.
T.d. - Hvers vegna pissaði ég í morgun?
- Orsakasamhengi: Vegna þess að blaðran mín fylltist upp að því marki að taugaboð voru send í heilann, sem sendi aftur út taugaboð um að láta mig finnast ég þurfa að pissa. Svo fór ég á klósettið og heilinn sendi taugaboð um að spenna vöðvana í blöðrunni svo hún skrapp saman og þrýsti hlandinu út.
- Hvatasamhengi: Ég vildi losna við óþægilegu tilfinninguna að þurfa að pissa.
Bæði svörin svara spurningunni en endurspegla gjörólíka túlkun á því hvað er verið að spyrja.
Gagnrýnin hugsun felst í því að skoða og meta allar hliðar á afmörkuðu viðfangsefni. Það er ekki réttlátt að krefjast þess að tekið sé tillit til allra mögulegra túlkana á þeim orðum sem við notum til að lýsa viðfangsefninu. Stærðfræðingur er ekki vanhæfur þótt hann bjóði ekki "11" sem mögulegt svar þegar hann er spurður hvað sé "1 og 1".
Tryggvi Thayer, 10.8.2012 kl. 17:19
Ef maður gæti nú svarað svona spurningum væri maður nú ekki að skrifa á moggablogg og með dulnafn þar að auki sem er auðvitað alveg fullkomlega leyfilegt en aðrir halda að sé mikill glæpur. hnjéhnjéhnjé.
Jón bóndi (IP-tala skráð) 12.8.2012 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.