Prometheus (2012) ***1/2

newprometheusposter 
 
Fyrir utan smá ofleik og lélegan farða frá Guy Pearce og hrúgu af "flötum" persónum, er "Prometheus" snilldarverk. Hún stendur "Alien" og "Aliens" ekki langt að baki, og sjálfsagt smekksatriði hvort hún standi þeim hugsanlega framar. Að minnsta kosti þegar kemur að þema og heimspekilegum pælingum um uppruna mannkyns, stendur hún traustum fótum. 

Ég hef á tilfinningunni að Ridley Scott hafi tekist það ómögulega, að gera persónulega mynd um hans eigin trúarlegu skoðanir og pælingar, og í leiðinni ofbeldisfulla Hollywoodmynd sem getur ekki annað selst vel. 
 
Prometheus_movie_05-e1338830367217
 
Áhugaverðustu persónurnar eru vélmennið David (Michael Fassbender) og vísindakonan Elizabeth Shaw (Noomi Rapace), aðrar persónur eru frekar flatar og virðast frekar þarna til að passa inn í plottið. Þar með talið geimverurnar og hinir svokölluðu "verkfræðingar". Reyndar voru aðrar persónur, þó þær hafi verið dýptarlausar, nokkuð skemmtilegar og sinntu sínum hlutverkum vel, sérstaklega tveir svolítið nördalegir vísindamenn sem villast á vitlausum stað, á vitlausum tíma, í vitlausu rúmi.

Ein skemmtilegasta spurningin sem vaknaði í mínum kolli við áhorfun tengdist sköpun manneskjunnar, en myndin fjallar um það, hvernig fyrsta manneskjan hafi orðið til; var það fyrir slysni, kvikyndisskap eða í þunglyndiskasti geimveru, var manneskjan hönnuð af geimverum eins og vélmenni framtíðarinnar af mönnum, eða er þróunarkenningin hans Darwins rétta skýringin, eða eigum við bara að gefast upp á öllum spurningum og svara að vegir Guðs séu órannsakanlegir?
 
Ekki ætla ég að svara þessum spurningum hér, enda finnst mér miklu skemmtilegra að leyfa spurningum að malla í dágóðan tíma og eyða góðum tíma í vangaveltur.

Flottar pælingar og vel útfærðar í fyrri hluta myndarinnar, sem síðan breytist í vel gerðan spennutrylli þar sem formúlan reynist ansi kunnugleg.
 
Ég hafði gaman af. Þrívíddin er líka óvenju góð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Var að lesa gagnrýni í Fréttablaðinu, sá vildi meina að handritið væri lélegt. Er að fara á myndina núna klukkan átján hundruð og mun eflaust skrifa dóm um hana.

Theódór Norðkvist, 6.6.2012 kl. 15:39

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það væri gaman að vita hvernig þér fannst myndin, Theódór. :)

Hrannar Baldursson, 6.6.2012 kl. 21:13

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hér kemur stuttur dómur, má vera að ég skrifi annan á mína eigin síðu eða á imdb.com.

Þetta er góð hasarmynd og hrollvekjuvísindaskáldskapur (full langt orð?) Tæknibrellur vandaðar sem og sviðsetningin, ýmislegt reyndar endurunnið úr Alien myndunum  hvað það síðarnefnda varðar.

Sumar persónurnar voru frekar óspennandi, ég hefði bæði kosið betri leikara í sum hlutverkin og aðrar manngerðir. Nokkur ótrúverðug atriði (jafnvel þó haft sé í huga að þetta er vísindaskáldsaga) en það truflaði mig ekki mikið.

Í heildina góð mynd og kæmi mér ekki á óvart þó hún geti af sér 2 eða 3 framhaldsmyndir.

Theódór Norðkvist, 7.6.2012 kl. 02:16

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sé núna að þú nefnir líka flata persónuleika myndarinnar. Mér sýnist svo að Scott hafi sótt í smiðju hjá Erich von Däniken, sem er frægur fyrir bækurnar Voru guðirnir geimfarar? og Í geimfari til goðheima.

Theódór Norðkvist, 7.6.2012 kl. 02:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband