Viltu verða milljarðamæringur?
5.4.2012 | 06:11
Formúlan er sáraeinföld. Þú þarft græðgi. Þú þarft samviskuleysi. Þú þarft að sjá lífið á sama stigi og dýralíf. Heimspeki og siðfræði henta þér ekki. Slík dýpt er gagnslaus. Eða það heldur þú þar til spilaborgin hefur hrunið.
Þú þurftir ekki mikið. Klink til að stofna fyrirtæki og skort á siðferðisvitund. Síðan endurtókstu leikinn eins oft og þig langaði til. Reyndar þekktir þú kannski líka rétta fólkið til að toga í réttu spottana, og til að passa upp á að glæpurinn stæðist íslensk lög, því varla viltu láta nappa þig fyrir þjófnað eða rán á heiðbjörtum degi?
Skref eitt: Þú stofnar fyrirtæki. Það er ekkert mál að stofna fyrirtæki. Þú borgar eitthvað smáræði til að það sé mögulegt og svo finnurðu upp eitthvað nafn. Það getur verið hvað sem er. Segjum að tilgangur fyrirtækisins sé fjármögnun.
Skref tvö: Þú skrifar niður viðskiptahugmynd. Eða færð einhvern til að skrifa hana fyrir þig. Eða skrifar kannski hálfa setningu eins og "stofna netverslun". Til dæmis viltu stofna fréttasíðu á netinu, verslun í Danmörku, Þýskalandi, Bandaríkjunum, nefndu það. Það getur verið hvað sem er. Þú þarft aðeins að sýna fram á að þú þurfir lán og ætlir að borga það til baka, hvort sem þú ætlar í raun og veru að borga það til baka eða ekki. Þú ert þannig innrétt manneskja að ábyrgðin verður aldrei þín, heldur munt þú selja ábyrgðina í hendur fyrirtækinu sem þú hefur stofnað. Þú verður aldrei gjaldþrota vegna fyrirtækisins, það tryggja íslensk lög, hins vegar verður fyrirtækið örugglega gjaldþrota. Þú þarft bara að passa að það skaði engan beint.
Hafir þú siðferðisvitund og sért heilindismanneskja, munt þú aldrei geta framkvæmt þetta. Sértu hinsvegar lásýkarakter án siðferðisvitundar sem sérð græðgi sem eitthvað eðlislægt manneskjunni og að lífið snúist um ekkert annað en hver vinnur og hver tapar, (það er ekki ólöglegt að vera svoleiðis, aðeins dapurlegt og skaðlegt samfélaginu eftir því sem viðkomandi hefur meiri áhrif); þá slærðu til og tekur lán upp á einhverjar milljónir, eða einhverja milljarða komist þú upp með það.
Þetta með milljarðana virðist auðveldara þegar þú hefur hitt fólk af sama sauðahúsi, sem stofnar fyrirtæki í sama tilgangi, til að taka lán og borga þau aldrei til baka, eða með öðrum orðum, búa til peninga sem samfélagið þarf að tryggja. Þú getur þá fengið lán til að kaupa fyrirtæki félaga þinna, og búa þannig til samsteypu. Síðan geturðu með samsteypu fyrirtækja tekið miklu hærri lán til að kaupa ennþá stærri fyrirtæki, og þá jafnvel fyrirtæki sem hafa raunveruleg gildi á bakvið sig: starfandi fólk, vinnslu, góðar hugmyndir, og svo framvegis.
En þér er sama um það. Þegar þú hefur hitt á svona gott fyrirtæki, þá geturðu einfaldlega fært allan peninginn úr öllum hinum fyrirtækjunum, skúffufyrirtækjunum, yfir í þetta virkilega góða fyrirtæki. Svo læturðu hin fyrirtækin sem skulda öll lánin fara á hausinn, en passar að það séu engin tengsl milli þeirra og fyrirtækis þíns sem fékk allan peninginn.
Að sjálfsögðu tekurðu út vænan arð árlega, frá öllum fyrirtækjunum, þó að innkoman sé ekkert annað en lán, en fyrir þann sem ætlar aldrei að borga til baka, er lán að sjálfsögðu ekkert annað en hreinn gróði.
Að lokum selurðu góða fyrirtækið og kemur öllum peningunum fyrir í nýju fjárfestingafyrirtæki sem aldrei hefur tekið lán, er skuldlaust og hreint, síðan kemurðu peningunum fyrir í einhverri skattaparadísinni á Tortola, á einhverri aflandsey, eða einhversstaðar í fjandanum, og eyðir því sem eftir lifir í að kaupa fyrirtæki sem geta verndað mannorð þitt: fjölmiðla, lögfræðiskrifstofur, ráðgjafafyrirtæki, banka, fjarskiptafyrirtæki, endurskoðunarfyrirtæki, verslanir, lykilfólk í stjórnmálaflokkum, flugvélar og skip, og svo framvegis; allt sem getur verndað þig og gert lífið ódýrara og öruggara gagnvart öllum þeim heimskingjum sem þú hefur stolið frá, löglega. Þú lifir lífinu eins og kafbátur á flótta.
Þú hefur grætt ógurlega mikið. Kostnaðurinn hefur hins vegar óvart komið í bakið á þér. Atvinnuleysi eykst. Fjölskyldur tapa heimilum sínum. Fólk tekið eigið líf. Fjölskyldur sundrast. Gamlir vinir hata þig. Gott fólk fyrirlítur þig. Nema sumir sem elska þig fyrir smá styrki. Fólk flýr land sitt. Heiðarlegt og skynsamlegt fólk verður gjaldþrota á þinn kostnað. Hörmungar steypast yfir þjóð þína, og ekki aðeins þjóð þína, heldur allan heiminn, því félagar þínir af sama sauðahúsi koma allsstaðar frá, og hafa allsstaðar leikið sama leikinn. Stolið frá almenningi og síðan flúið út í buskann.
Hins vegar fer þetta "út í buskann" sífellt smækkandi, því sífellt fleiri átta sig á svikamyllunni, og verða sífellt grimmari gagnvart þeim sem hlunnfóru þá, sem þýðir að þú verður að kaupa þér aukið öryggi, múra þig inn, hætta að lifa í samfélagi með öðru fólki sem ekki er eins og þú. Og svo þegar þú hættir að geta grætt af samfélaginu, verður þú að græða af þeim sem gerðu eins og þú. Sá leikur getur verið hættulegri. Tundurskeyti í djúpinu.
Og þú áttar þig loks á að svona líf er ekki þess virði að lifa því. En þá er það orðið of seint. Þú hefur sokkið of djúpt. Það er engin leið upp á yfirborðið aftur.
Kafbáturinn fellur saman vegna þrýstings úr djúpinu og skorts á súrefni.
Innanfrá.
Athugasemdir
Af mörgu góðu; "Nema sumir sem elska þig fyrir smá styrki."
Takk fyrir frábæra grein Hrannar. Sem oft áður.
Það stefnir allt í að það þurfi að shanghæja þig til Íslands aftur því svona er röddin sem þarf að heyrast.
Vegna þess að við erum öll stödd í stærri útgáfunni af kafbátnum og hann er að falla saman.
Innanfrá.
Og það vantar nýtt leiðsögukort sem kemur stjórnvél hans uppá yfirborðið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.4.2012 kl. 09:24
Hér er á ferðinni enn ein snilldar greiningin hjá þér Hrannar!
Það sést á þessu að þú gætir alveg komið svona svikamyllu í kring, en auðvitað þyrftirðu að vera samvizkulaus, en það ertu sannarlega ekki.
Sigurður Alfreð Herlufsen, 5.4.2012 kl. 15:22
Takk fyrir þetta félagar.
Nei, Sigurður. Samviskulaus er ég ekki. Hins vegar var ég búinn að fatta hvernig þessi svikamylla virkaði nokkuð fyrir hrun. Átti samt bágt með að fólk legðist vona lágt. Hefði átt að lesa meiri Nietszche.
Ómar: Það verður frekar erfitt að ná mér aftur til Íslands. Það má þó alltaf reyna. Mér mun aldrei hætta að þykja vænt um land og þjón.
Hrannar Baldursson, 5.4.2012 kl. 17:30
Sjáum til Hrannar, sjáum til.
Það er eitthvað að gerast sem hefur aldrei gerst áður. Ómótað að vísu í dag en með frekari gerjun þá munum við upplifa algjörlega nýja tíma.
Nýjir tímar í þeirri merkingunni að fólk vill nýja hugsun, nýja nálgun.
Og þá, og þá????
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.4.2012 kl. 21:05
Snilldargrein eins og venjulega hjá Hrannari um græðgi og peninga. Ég er hvorki gráðugur né samviskulaus og það hjálpar lítið til að komast áfram í heimi þar sem olnbogar eru vopn sem þykir sjálfsagt að beita.
Spurninginn er hversu margir stjórnast af þessari frægu "sameiginlegu visku" eða samvisku eins og oft er talað um. Ómar segir svolítið skemmtilegt og það er að nýjir hlutir verða árangurinn af þessu krísuástandi sem er að sjálfsögðu bara erfið breyting.
Íslensk uppskrift af fyrirtækjarekstri" á Íslandi fyrir árið 2008: Þrír félagar skrá sitthvort hlutafélagið. 2 skrifa "kúlilán" upp á milljarð á hvorn annan og skrá síðan "lánið" sem hlutafé.
Sá þriðji "kauðir síðan bæði félögin og borgar með skuldabréfi. Hann situr þá með hlutafé sem er skráð upp á 2 milljarða. Svo er farið í bankan með kókaín í poka og myndir af austantjaldsstelpum og bankin er beðin að útvega lán frá þýskalandi upp á helminginn af hlutafénu.
Þegar lánið er fengið er farið vestur í bæ og endurskoðunarskrifstofa sér um að skrá færslur og hluti sem aldrei hafa átt sér stað. Ódauðleg málverk eru keypt fyrir lánin í þykjustunni og peningarnir hverfa inn á kontó "eigendanna" þriggja.
Félagið sem er skráð fyrir láninu er siðan sett í gjaldþrot og málið ekkert skoðað meira...
Óskar Arnórsson, 6.4.2012 kl. 16:00
Sæll gamli félagi.
Í þessu samhengi bendi ég á áhugaverða bók sem ég var að ljúka við að lesa:
http://www.amazon.co.uk/Treasure-Islands-Havens-Stole-World/dp/1847921108/ref=sr_1_1?ie=UTF8&qid=1334502161&sr=8-1
Eyþór Benediktsson (IP-tala skráð) 15.4.2012 kl. 15:04
Takk fyrir ábendinguna Eyþór.
Hrannar Baldursson, 15.4.2012 kl. 16:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.