Mission: Impossible - Ghost Protocol (2011) ****

MissionImpossibleGhostProtocol

„Mission: Impossible – Ghost Protocol“ er betri en allar fyrri Mission: Impossible myndirnar. Allt gengur upp í þetta skiptið. Í stað þess að einblína á Tom Cruise eins og gert hefur verið í öllum fyrri myndunum og áhættuleik hans, hefur verið ákveðið að leggja áherslu á persónusköpun og frumleg atriði, þó að ramminn utan um söguna sé sá sami og áður.

 

Það er einvalalið bæði fyrir framan og aftan myndavélina. Brad Bird leikstýrir sinni fyrstu leiknu mynd, en áður hefur hann fengist við leikstjórn teiknimyndanna „The Iron Giant“, „The Incredibles“ og „Ratatouille“. Það sem sérstaklega vekur athygli er hversu gríðarlega vel heppnuð atriðin eru. Leikstjóranum tekst að skapa góða tilfinningu fyrir umhverfi hvers einasta atriðis og leikur sér skemmtilega með tíma og rúm. Ég man ekki eftir að hafa séð jafn flott atriði í nokkurri annarri hasarmynd.  Ég á ekki orð.

Hægt er að nefna nokkur dæmi:

  • Yfirlitsmynd og eltingarleikur í Búdapest
  • Flótti úr rússnesku fangelsi
  • Brotist inn í skjalasafn með iPad
  • Yfirlitsmyndir yfir eyðimerkur Saudi-Arabíu
  • Brotist inn í netþjónaherbergi á efstu hæðum Burj Khalifa turnsins í Dubai
  • Eltingarleikur í sandstormi
  • Slagsmál á ýmsum hæðum hátæknibílastæðis í Mumbai.

Þetta er ein af þeim myndum sem maður verður að sjá í bíó, helst í risastórum IMAX sal. Tónlistin er líka flott útfærð og gefur manni gæsahúð þegar við á.

Nóg um umgjörðina.

Í þetta sinn þarf Ethan Hunt (Tom Cruise) að koma í veg fyrir kjarnorkustyrjöld sem sænska illmennið Kurt Hendricks (Michael Nyquist) ætlar að koma af stað til að græða á ástandinu sem mun fylgja í kjölfarið. Í för með Hunt slást hin undurfagra og snjalla Jane Carter (Paula Patton) sem leitar hefnda á sínum heittelskaða, tæknisnillingurinn fyndni Benji Dunn (Simon Pegg) sem þráir að taka þátt í alvöru hasar, en situr yfirleitt fyrir framan tölvuskjá, og greinandinn William Brandt (Jeremy Renner) sem hefur furðugóða bardagahæfileika miðað við skrifstofublók, og með óuppgerða fortíð í farteskinu. Þessi hópur vinnur skemmtilega saman að lausn vandamála sem þarf að leysa með mikilli tæknikunnáttu, með því að nýta hvern sentímetra og hverja einustu sekúndu, sem að sjálfsögðu á að vera ómögulegt að auki.

Það eru mörg flott atriði í myndinni. Efst á mínum lista eru eltingarleikur í sandstormi, blekkingarleikur með iPad og síðan Tom Cruise sprangandi utan á hæsta turni heims.

„Mission: Impossible – Ghost Protocol“ er eins og njósna-, hasar- og spennumyndir eiga að vera. Þessi skemmtun gengur fullkomlega upp og er það þétt að mig langaði til að horfa á hana aftur strax og hún var búin. Listilega gerð hasarmynd.

Ekki missa af þessari í bíó!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 29.1.2012 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband