Hvernig greinum við góða manneskju frá vondri manneskju?

good-or-evil-22

Þetta er spurning sem leitar á mig þennan ágæta laugardag. Það er létt snjólag yfir bænum og friðsemdin er mikil. Önnur vinnuvika ársins hefur liðið hratt og nauðsynlegt að setjast niður, velta hlutunum fyrir sér, og ímynda sér augnablik þar sem tíminn stendur í stað. Slíkt augnablik finn ég þegar ég sest niður og skrifa vangaveltur mínar.

Ein tilraun til að svara þessari spurningu, um hvernig við greinum góða manneskju frá illri, kemur úr Biblíunni. Ég tek það fram að ég álít Biblíuna ekkert heilagri en aðrar bækur, en hef fundið í henni töluvert af visku frá fyrri kynslóðum sem ég tek til mín. Þó að brot úr þessari góðu bók séu afar góð, þá eru ekki allir ávextir hennar jafn góðir. Það er nefnilega svo auðvelt að túlka og mistúlka orð að það er tilviljun ein hvort afleiðingarnar verði góðar eða vondar. Ætli það fari ekki mest eftir því hversu vel gefin eða vel viljuð manneskja les ritið.

Þar af leiðandi, samkvæmt hennar eigin skilgreiningu á hinu "góða tré", er mögulegt að túlka Biblíuna ekki sem góða bók og ætti því helst að kasta á bálköst, en orðrétt segir í Matteusarguðspjalli 7:15-20:

"Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá."

Nú er reyndar hægt að deila um það hvort að svona málsgreinar og síðan prestar sem hafa jafnvel misþyrmt börnum séu ávextir Biblíunnar, en ef við látum að sem svo sé, þá má túlka það sem svo að Biblían hefur gefið af sér vonda ávexti og sé þar af leiðandi lítils virði.

Reyndar tek ég hvorki Biblíunni né öðrum bókum það bókstaflega að ég fari í einu og öllu eftir því sem þar er sagt, né trúi ég að þessi málsgrein sé að eilífu sönn, heldur reyni að átta mig á hvað verið er að meina, og velti fyrir mér hvort þetta eigi á einhvern hátt við mitt eigið líf og aðstæður.

Í þessu tilfelli sýnist mér viskan eiga vel við um manneskjur, en ekki fyrirbæri eins og bækur eða stofnanir. 

Til eru manneskjur sem halda því fram að trú sé af hinu illa. Aðrir telja trú vera af hinu góða. Enn aðrir vilja ekki alhæfa um þessu mál. Ekki ætla ég að deila um slíkar alhæfingar, enda virðist merking þeirra innantóm.

Ágætt kínverskt spakmæli skilgreinir trú sem vilja í samræmi við samvisku og visku heimsins.

 

Spurningar sem vakna:

  1. Hvað er góð manneskja?
  2. Getur manneskja verið góð án þess að trúa á hið góða?
  3. Er nóg að gera hið rétta samkvæmt lögum og reglum til að vera góð manneskja?
  4. Getur manneskja sem alltaf hlítir lögum og reglum verið ill manneskja?
  5. Hvernig þekkjum við muninn á hinu góða og hinu rétta?
  6. Hvers konar trú hefur alltaf góðar afleiðingar?
  7. Hvers konar trú hefur stundum góðar afleiðingar og stundum vondar?
  8. Hvers konar trú hefur alltaf vondar afleiðingar?
  9. Er öll trú sem útilokar önnur sjónarmið á heiminum af hinu illa?
  10. Er allt það trúleysi sem útilokar öll önnur sjónarmið af hinu illa?
  11. Er það satt að ef manneskja framkvæmir illvirki eða framleiðir vondan hlut, að sú manneskja sé þá annað hvort ekki góð í sjálfri sér eða vinni ekki vel?
  12. Ætli það sé annars sami hluturinn: að vera góð manneskja og vinna vel?
  13. Er hægt að alhæfa eitthvað um trú?
  14. Er bara hægt að alhæfa um túlkun ákveðinnar manneskju sem lifir í samræmi við ákveðna trú?
  15. Hvað er gott?
  16. Hvað er hið góða? 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hrannar. Ætli sé nokkuð hægt að greina svona. Ég trúi því að það fæðist enginn vondur, en það er ekkert víst að ég hafi rétt fyrir mér í því. Trú á kærleika er líklega eina ekta trúin. En það er flókið að lifa alltaf samkvæmt því. Mannlegi breyskleikinn er svo margvíslegur.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 14.1.2012 kl. 11:34

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þegar stórt er spurt! ..

Ég er ekki með svör, en ég held einn mælikvarði á gæði manneskju sé hversu tilbúin og hæf hún er að setja sig í spor annarra.  

Á öðrum endanum er dómharka .... og á hinum samhygð, eða samhugur.  

Það er svo auðvelt fyrir okkur til dæmis að dæma hryðjuverkamenn sem sprengja upp byggingar sem vonda menn, en hvað um okku sjálf ef við hefðum komið úr sama menningarheimi og fengið sama uppeldi. 

Við þurfum að grafa í það hvað veldur illskunni?  - hverjar eru orsakirnar? 

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.1.2012 kl. 12:42

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jóhanna: aldrei þessu vant er ég svolítið ósammála því sem þú segir:

Það er svo auðvelt fyrir okkur til dæmis að dæma hryðjuverkamenn sem sprengja upp byggingar sem vonda menn, en hvað um okku sjálf ef við hefðum komið úr sama menningarheimi og fengið sama uppeldi. 

Við þurfum að grafa í það hvað veldur illskunni?  - hverjar eru orsakirnar? 

Ég tel það í verkhringi fræða og fjölmiðla að rannsaka uppruna illsku. Fyrir sérhverja manneskju tel ég mikilvægara að einbeita sér að hinu góða. Við höfum svo takmarkaðan tíma í þessu lífi til að eyða í hið óendanlega illa. Betra væri að beina sjónum sínum að því sem við teljum vera gott og átta okkur hvaðan það kemur. 

Það er alltaf gaman að lesa hugmyndir þínar Jóhanna, líka núna þegar ég er svolítið ósammála.

Hrannar Baldursson, 14.1.2012 kl. 12:58

4 identicon

Ég hef gaman af því að glíma við svona spurningar og tel það í raun bara hollt fyrir hvern og einn að gera það upp á eigin spýtur, þó ekki sé nema til að skoða sinn eigin hug og kalla fram fleiri sjónarhorn og læra af þeim.

Ég læt sem sagt vaða og vil taka fram til að forðast algengan misskilning að þegar ég tala um "trú" þá er ég ekki að tala um trúarbrögð:

1. Hvað er góð manneskja?

100% góð manneskja gerir allt sem hún snertir á betra en það var fyrir, þ.m.t. aðrar manneskjur, hluti og umhverfi. 100% ill manneskja gerir allt verra en það var með aðkomu sinni.

2. Getur manneskja verið góð án þess að trúa á hið góða?

Nei,. Trúin á hið góða er forsenda þess að manneskja verði góð.

3. Er nóg að gera hið rétta samkvæmt lögum og reglum til að vera góð manneskja?

Nei, en góð manneskja reynir samt að fara eftir lögum og reglum því það hjálpar. Að gera það ekki afvegaleiðir góða manneskju. (Ég geri hér ráð fyrir "almennum lögum og reglum" siðmenntaðra þjóðfélaga)

4. Getur manneskja sem alltaf hlítir lögum og reglum verið ill manneskja?

Nei. Hún getur ekki verið ill, en samt ekkert endilega það besta sem hún getur orðið.

5. Hvernig þekkjum við muninn á hinu góða og hinu rétta?

"Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá" er sannarlega rétta svarið við þessari spurningu. Skoðaðu áhrif manneskjunnar á það sem hún hefur snert á (manneskjur, hluti, umhverfi) og þú ert með svarið.

6. Hvers konar trú hefur alltaf góðar afleiðingar?

Okkar innri, óbugandi trú á hið góða mun alltaf koma góðu til leiðar, svo framarlega sem við fylgjum trú okkar og látum ekki afvegaleiðast.

7. Hvers konar trú hefur stundum góðar afleiðingar og stundum vondar?

Trú byggð á góðri trú annarra, en er óbreytanleg þótt reynslan kalli á breytingu hefur stundum góð og stundum vond áhrif og afleiðingar.

8. Hvers konar trú hefur alltaf vondar afleiðingar?

Trú á hið illa hefur alltaf vondar afleiðingar.

9. Er öll trú sem útilokar önnur sjónarmið á heiminum af hinu illa?

Nei, ég myndi ekki segja að hún væri endilega af hinu illa, en vísa á svar við spurningu nr. 7 um það hvað getur verið vont við slíka trú.

10. Er allt það trúleysi sem útilokar öll önnur sjónarmið af hinu illa?

Sama svar og í 9 ... með þeim fyrirvara að ég tel engan geta verið alveg trúlausan og þar með alveg illan.

11. Er það satt að ef manneskja framkvæmir illvirki eða framleiðir vondan hlut, að sú manneskja sé þá annað hvort ekki góð í sjálfri sér eða vinni ekki vel?

Þetta eru tvær spurningar og önnur óljós. Manneskja sem framkvæmir illvirki er ekki góð manneskja. Manneskja sem framleiðir vondan hlut ... vinni ekki vel ... ja, hér vantar frekari skýringu á hvað verið er að meina svo hægt sé að svara.

12. Ætli það sé annars sami hluturinn: að vera góð manneskja og vinna vel?

Ekki alveg ... en það hjálpar, rétt eins og svarað er í spurningu nr. 3.

13. Er hægt að alhæfa eitthvað um trú?

Nei, ekki með réttu. Þó tel ég persónulega nokkuð víst að trúin sé ekki eins í nokkurri manneskju frekar en að finnist tvö alveg eins snjókorn.

14. Er bara hægt að alhæfa um túlkun ákveðinnar manneskju sem lifir í samræmi við ákveðna trú?

Alhæfingar um huglæg efni hefur aldrei, eða a.m.k. í afar fáum tilfellum, rétt á sér. Örugglega aldrei þegar túlkun og skilningur fólks á trú er annars vegar, hvort sem hún er sjálfsprottin eða fengin annars staðar frá.

15. Hvað er gott?

Það er gott sem hefur góð áhrif og góðar afleiðingar.

16. Hvað er hið góða?

Hið góða er trúin á hið góða.

Auðvitað kallar þetta allt á endalausar og frekari spurningar, en það er líka gott.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 13:16

5 identicon

Við yfirlestur sé ég að ég hef ekki lesið spurningu nr. 5 rétt.

Ég las hana: 5. Hvernig þekkjum við muninn á hinu góða og hinu illa? ... og svarið var eftir því.

Munurinn á hinu góða og rétta? Þessi er erfið. Þarf að hugsa mig um.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 13:27

6 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Fer ekki best á að hafa það einfalt - illur meiðir en góður græðir (heilar) ???

Eyþór Örn Óskarsson, 14.1.2012 kl. 13:31

7 identicon

Munurinn á hinu góða og hinu rétta er að hið rétta fylgir hinu góða en hið góða fylgir ekki endilega hinu rétta. Á sama hátt fylgir hið ranga hinu illa en hið illa fylgir ekki endilega hinu ranga.

Rétt og rangt er eitthvað sem er breytanlegt. Hið góða og hið illa er óbreytanlegt.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 13:37

8 identicon

"Illur meiðir en góður græðir" er kjarni málsins og stysta rétta svarið við titilspurningu pistilsins.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 13:48

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ferlega skemmtileg pæling hjá þér Hrannar.  Svona myndi ég svara þessum pælingum þínum. 

Hvað er góð manneskja?

Góð manneskja er dálítið víðtækt hugtak, manneskja getur verið góð á sinn hátt, en við höfum svo öll galla mismunandi stóra, sem setja okkur skorður. Ætli góð manneskja sé ekki sú sem mest hefur unnið í sjálfri sér, til að skilja sig og umhverfi sitt, og reynt að yfirstíga galla sína.

Getur manneskja verið góð án þess að trúa á hið góða?

Að sumu leyti já.  Því sumt fólk hefur lent svo illa í sínu lífi að það er hætt að trúa á hið góða, en gerir samt gott ef það fær til þess tækifæri. 

Er nóg að gera hið rétta samkvæmt lögum og reglum til að vera góð manneskja?

Nei, ekki alltaf, sum lög og reglur af mannahöndum eru í sjálfu sér óréttlát.  Til dæmis hermenn sem drepa fólk af því lög segja svo um.  Aftur á móti þarf lögmál náttúrunnar að vera á hreinu.  Lögmál ljóssins og kærleikans.  Það þarf ekki alltaf að vera samkvæmt mannanna lögum.

Getur manneskja sem alltaf hlítir lögum og reglum verið ill manneskja?

Já, þar bendi ég aftur á hermenn og aðra sem eru í aðstöðu til að vinna öðrum mein í krafti valdsins, þeir hlýta lögum en það eru stundum vond lög, sett af breyskum mönnum.  Þess vegna er sama með þetta og í fyrri spurningu, að hafa ljósið og kærleikan að leiðarljósi en ekki bein og köld mannanna lög.

Hvernig þekkjum við muninn á hinu góða og hinu rétta?

Við höfum til þess innbyggt tæki sem heitir samviska og næmni.  Við vitum þegar við gerum rangt, við finnum það inn í okkur ef við hlustum á sálina.  Við finnum líka þegar við gerum rétt með vellíðan og stolti. 

Hvers konar trú hefur alltaf góðar afleiðingar?

Trúin á sjálfan sig og aðrar manneskjur og náttúruna. 

Hvers konar trú hefur stundum góðar afleiðingar og stundum vondar?

Það er vegna þess að fólk aðhyllist tilbúna trú, sem annað fólk hefur búið til gegnum aldirnar oftast til að halda völdum yfir alþýðu manna.  Sumt í slíkri trú er bætandi, annað er slæmt eins og til dæmis sharialögin sem segja um að konur skuli grýttar til dæmis.  Fólk lætur nota sig til að gera allskonar hluti af því það trúir blint, en hlustar ekki á sálina.

Hvers konar trú hefur alltaf vondar afleiðingar?

Djöflatrú til dæmis, trúin á mammon og trú á græðgi og völd.

Er öll trú sem útilokar önnur sjónarmið á heiminum af hinu illa?

Yfirleitt því hún takmarkar leit fólks að sannleikanum og réttlætinu.

Er allt það trúleysi sem útilokar öll önnur sjónarmið af hinu illa?

Sama og í fyrri spurningu. Allt sem takmarkar leit fólks á sannleikanum hið innra.

Er það satt að ef manneskja framkvæmir illvirki eða framleiðir vondan hlut, að sú manneskja sé þá annað hvort ekki góð í sjálfri sér eða vinni ekki vel?

Það þarf ekki að vera, oft hrekur örvænting fólk til að gera hræðilega hluti nýlegt dæmi um móður sem setti barnið sitt í ruslagám í Reykjavík,  ég er viss um að hún er ekki vond manneskja, en greinilega örvæntingarfull.

Ætli það sé annars sami hluturinn: að vera góð manneskja og vinna vel?

Nei fólk getur verið ansi grimmt þó það sinni vinnu sinni samviskusamlega.  Mér dettur í hug til dæmis nokkur dæmi úr fréttum af umönnun aldraðra og sjúkra, þar sem fólk var beitt hörku, má líka benda á Breiðuvík. 

Er hægt að alhæfa eitthvað um trú?

Nei hún er í raun og veru einstaklingsbundinn, og ef menn eru ekki alveg heilaskertir og fylgja hugsunarlaust einhverjum prédikurum, þá leita þeir sjálfir að því sem þeim finnst rétt.

Er bara hægt að alhæfa um túlkun ákveðinnar manneskju sem lifir í samræmi við ákveðna trú?

Auðvitað er aldrei hægt að alhæfa, en manneskja sem lifir í samræmi við ákveðna trú er líklegri til að hugsa ekkert sjálf, en hlusta bara á það sem henni er sagt.

Hvað er gott?

Þessi er lunkinn, það er margt sem er gott, manneskja sem lifir í sátt við sjálfa sig samviskuna og þá sem í kring um hana eru, hvort sem það eru dýr, plöntur eða menn lifir góðu lífi.

Hvað er hið góða? 

Sama og í fyrri spurningu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.1.2012 kl. 13:50

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þetta er lúxus laugardagur! Strax komið fullt af áhugaverðum svörum til að velta fyrir sér.

Hrannar Baldursson, 14.1.2012 kl. 14:06

11 Smámynd: Óskar Arnórsson

Góður pistill Don eins og venjulega. Ég þarf endilega að koma að minni skoðun á þessu þó það sé hætt við að hún sé ekkert vel skiljanleg. Aðalmálið er að ég skil mína eigin "skoöun"..

Það er ekkert til raunverulega sem heitir "gott & vont". Við drögum þessar ályktanir út frá "ljósi & myrkri" og svo framvegis. Við drögum ályktanir út frá hegðun og getum þannig ákveðið hvort eitthvað eða einhver sé "góður eða vondur".

Við erum bara, reiknum bara og mælum allt til að skilja okkur sjálf og heiminn í kringum okkur. Við mælum tíman sem er raunverulega ekki til nema sem ástand sem alltaf er eins. Manneskjan er alltaf að reyna að koma skipulagi á sjálfan sig og það sem hreyfist í kringum hana.

Til þess að gera það skilur hún ljós frá myrkri, gott frá vondu, fegurð frá ljótleika og svo framvegis....

Óskar Arnórsson, 14.1.2012 kl. 14:24

12 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Virkilega skemmtilega pælingar Hrannar, og alltaf gaman að lesa bloggið þitt. Ég sé að hér að ofan eru nokkrir búinir að svara spurningum þínum, og er þetta fólk allt saman með mismunandi skoðun að ég best veit. En ég ætla að bæta í flóruna skoðun trúmanns, og auka við fjölbreytinleikann.  :)

Hvað er góð manneskja?
Sú sem elskar alla aðra eins og sjálfa sig.

Getur manneskja verið góð án þess að trúa á hið góða?
Já auðvitað, því mismunandi merking er lagt í hið "góða" sumir kalla hið góða Guð, aðrir ekki.

Er nóg að gera hið rétta samkvæmt lögum og reglum til að vera góð manneskja?
Nei, að fylgja bókstafnum leiðir þig ekki endilega til betri vegar, stundum þarf nefnilega að sveigja sum lög til þess að geta framkvæmt hið góða, því miður. En er það ekki það sem gerir okkur mennsk? Þegar við fylgjum mannalögum og reglum? En auðvitað er það þannig, að fylgja öllum lögum sem okkur eru sett eftir bestu getu.   

Getur manneskja sem alltaf hlítir lögum og reglum verið ill manneskja?
Já, til dæmis viðbjóðurinn Jósef Fritzl var víst afar löghlýðinn, og tókst honum að fela óhæfuverk sín fyrir öllum í áratugi vegna þess að hann var ekki að brjóta nein lög og vekja athygli á sér.

Hvernig þekkjum við muninn á hinu góða og hinu rétta?
Með að nota þá skynsemi sem okkur hefur verið úthlutað.

Hvers konar trú hefur alltaf góðar afleiðingar?
Sú sem kemur frá hjarta þínu.

Hvers konar trú hefur stundum góðar afleiðingar og stundum vondar?
Sú sem er stjórnað af valda og fégráðugu fólki.

Hvers konar trú hefur alltaf vondar afleiðingar?
Sú sem boðar hatur, og þá meina ég hatur á minnihlutahópa, þjóðerni, húðlit, kynhneigð o.s.f.v.

Er öll trú sem útilokar önnur sjónarmið á heiminum af hinu illa?
Ekki endilega af hinu illa, ég vil frekar sleppa öllum alhæfingum um það, en einfeldingshátt myndi ég fremur kalla þetta, en það er bara mín skoðun.

Er allt það trúleysi sem útilokar öll önnur sjónarmið af hinu illa?
Eitt vil ég taka skýrt fram, að vera trúlaus er EKKI að vera illur, margir gera þau mistök að setja þarna samasemmerki á milli, sem er að mínu mati yfirgengilegur hroki. Það er hins vegar einnig hroki að fullyrða að maður getur ómögulega haft rangt fyrir sér, hvort sem þú ert trúlaus eða trúaður.  Af hinu illa vil ég ekki segja eða fullyrða, en þeir sem svona hugsa þurfa að taka til hjá sér og láta af oflæti sínu.
 
Er það satt að ef manneskja framkvæmir illvirki eða framleiðir vondan hlut, að sú manneskja sé þá annað hvort ekki góð í sjálfri sér eða vinni ekki vel?
Það er einstaklingsbundið, sumir gera mistök, eru heimskir eða eru einfaldlega bara illir að eðlisfari.

Ætli það sé annars sami hluturinn: að vera góð manneskja og vinna vel?
Þetta er einnig einstaklingsbundið.

Er hægt að alhæfa eitthvað um trú?
Nei, trú er von, og allir hafa sína skoðun á hvernig beri að skilgreina vonina, sem ber að virða við hvern einstakling fyrir sig.

Er bara hægt að alhæfa um túlkun ákveðinnar manneskju sem lifir í samræmi við ákveðna trú?
Stundum og stundum ekki, en ekki er ég hrifinn af alhæfingum um nokkurn hlut.

Hvað er gott?
Að lifa.

Hvað er hið góða?
Lífið. Spurningin eilífa er sú: hver gaf okkur lífið? Það er líklega þrætubeinið endalausa, að fá endanlegt svar við þeirri spurningu.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 14.1.2012 kl. 15:00

13 identicon

Kæra þökk fyrir þennan pistil.

Mig langar til að koma með smá innlegg frá Sai Baba, sem var hér á jörðinni samtímis okkur (dó í fyrra).

Hann segir í hnotskurn:

Love all - Serve all - Help ever - Hurt never, 

sem gæti verið á íslensku:

Sýndu öllum kærleika - Þjónaðu öllum - Hjálpaðu alltaf - Veldu engum sársauka.

Með þessu má segja að maður lifi til blessunar fyrir sjálfan sig og umhverfi sitt og láti alltaf gott af sér leiða.

Er hægt að biðja um meira?

Sigurður Herlufsen (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 15:29

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Minn kæri Haukur gaman að sjá hve í raun við erum sammála þó við notum ekki endilega sömu orðin, þá er hugsunin sú sama.  Ekki leiðum að líkjast.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.1.2012 kl. 15:39

15 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Tek ég undir það Ásthildur mín, það ekki leiðum að líkjast þegar þú ert annars vegar. 

Guðsteinn Haukur Barkarson, 14.1.2012 kl. 15:41

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.1.2012 kl. 15:43

17 identicon

Smá athugasemd við það sem Guðsteinn svarar í spurningu nr. 4. Ég segi nei, við þessari spurningu en hann segir já og tekur sem dæmi Josef Fritzl.

En málið með Josef er að hann hlýddi alls ekkert lögum og reglum þegar hann gerði það sem hann gerði og tilheyrir því ekki þeim hópi sem fer "alltaf eftir öllum lögum og reglum" eins og spurningin tiltekur.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 15:43

18 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Ég átti nú við almennar reglur og lög Bergur minn, því hann var að fela mun stærri og verri brot, þá átti hann ekki efni á því að lenda í eins og Al Capone, að vera gripinn fyrir skattsvik. Það er það sem ég átti við, hann hlýddi öllum reglum til þess ekki kæmist upp um það sem hann raunverulega braut.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 14.1.2012 kl. 15:50

19 identicon

Já, ég skildi alveg hvað þú áttir við. En spurningin var hvort "manneskja sem ALLTAF hlítir lögum og reglum geti verið ill manneskja?".

Við þessu segi ég nei vegna þess að ég tek spurninguna bókstaflega og flokka það undir almennar reglur og lög að ekki megi nauðga dóttur sinni og loka hana og börnin í kjallaranum. Josef er því ekki gott dæmi um einhvern sem ALLTAF hlítir reglum og lögum en er samt ill manneskja.

Ástæðan fyrir því að við erum ósammála (ég svara nei og þú svarar já) er ekkert endilega sú að við séum það í raun heldur sú að við skiljum spurninguna ekki á sama hátt og svörum henni því á andstæðan hátt.

Annars er þessi spurning merkileg því hún veltir upp þeirri aukaspurningu hve stóran hlut almenn lög og reglur samfélagsins eiga í því að hjálpa fólki að vera "góðar" manneskjur.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 16:15

20 identicon

Gætu góð og réttlát lög og reglur ekki alveg komið í staðinn fyrir trúarbrögð, t.d.?

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 16:19

21 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Þetta eru góðir punktar hjá þér Bergur, og vel íhugunarverðir. Eins og þú segir við komum með sitt hvora vinklana og erum samt í raun í grunninn sammála, en útfærslan á dæmunum þvælisy máski fyrir, sem er í raun aukaatriði því +eg held að við skiljum hvorn annan nákvæmlega.  :)

Guðsteinn Haukur Barkarson, 14.1.2012 kl. 16:21

22 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Bergur - ég er engann veginn hlutlaus síðsustu spurningu þinni, því segi ég nei. Tökum ekki vonina af fólki.

P.s. Hrannar, ég er farinn að spamma bloggið þitt, og biðst forláts.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 14.1.2012 kl. 16:23

23 identicon

Það er ekki spam að halda uppi umræðum um efni pistilsins. Ekki ætla ég að fara lengra með þetta sem ég nefndi hér síðast, enda vafalaust efni í annan pistil og í raun önnur umræða.

En þetta með mismundandi vinkla (sjónarhorn) sem kalla á mismunandi, og jafnvel andstæð svör við sömu spurningunni, jafnvel þótt þeir sem svara séu í raun sammála og hafi báðir rétt fyrir sér miðað við sitt sjónarhorn, finnst mér alltaf merkilegt fyrirbrigði í umræðum.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 16:34

24 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Vel mælt Bergur, nú erum við sammála!  :)

Guðsteinn Haukur Barkarson, 14.1.2012 kl. 16:40

25 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ekkert spam. Bara gleði. Það er virkilega ánægjulegt þegar okkur tekst í umræðum að hlusta vandlega á hvað aðrir hafa að segja. Manns eigin skoðun er nefnilega ekki alltaf sú rétta. Gaman að svona þroskuðum umræðum.

Ég fylgist vandlega með og hlakka til hverrar nýrrar athugasemdar. 

Hrannar Baldursson, 14.1.2012 kl. 17:46

26 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Gott mál Hrannar minn, ég læt þetta duga að sinni, en haltu áfram þínu striki að skrifa góðar greinar. Ég þarf greinilega að taka á þessari bloggleti minni sjálfur, og fara af stað aftur með mitt eigið blogg.

Guð blessi ykkur öll! 

Guðsteinn Haukur Barkarson, 14.1.2012 kl. 18:02

27 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

"Ég tel það í verkhringi fræða og fjölmiðla að rannsaka uppruna illsku. Fyrir sérhverja manneskju tel ég mikilvægara að einbeita sér að hinu góða."

Það þarf í raun hver og ein manneskja að taka ákvörðun fyrir sig, hversu djúpt hún vill kafa í að skoða uppruna illskunnar, eða þekkja hana eða uppruna hennar. 

Hrannar - sjálf tel ég (eflaust vegna þess að ég vinn með fólki alla daga sem eru að glíma við afleiðingar illsku, eða illra verka)  nauðsynlegt að skilja orsakir illskunnar, einmitt til að auðveldara sé að skilja hið góða.  Ekki það að fókusinn eigi að liggja á illskunni og langt í frá. 

Góðar manneskjur geta gert fullt af vondum hlutum án þess að hafa hugmynd um að þær séu að gera vonda hluti.  Gerir það manneskjuna vonda? 

Svo eru auðvitað dæmin um fólkið sem gerir vonda hluti viljandi, eða er það viljandi og hvaðan kemur sá vilji?  Er það ekki bara dæmi um manneskju sem hefur týnt sjálfri sér eða kjarna sínum? 

Ég ætla að ganga svo langt að segja að allar manneskjur séru góðar manneskjur,  eða fæddar góðar manneskjur.  Í kjarna séum við góð, það sé hið ytra sem spilli síðan og komi fram í vondum gjörðum.  Það sé því ekki manneskjan sem sé vond, heldur gjörðir hennar. 

Sem human being sé hún góð en sem human "doing" séu verk hennar vond.

"Faðir fyrirgef þeim því þau vita ekki hvað þau gjöra" .. eru orð Jesú af krossinum.   Jesús sagði ekki  "Fyrirgef þeim vegna þess að þau eru vond" ..  Svo má örugglega rökræða hvort að hægt sé að aðskilja manneskjuna sem slíka frá gjörðum sínum.  Erum við gjörðir okkar?

Pistill þinn gaf mér innblástur í sunnudagspistilinn minn.

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.1.2012 kl. 09:38

28 identicon

Ég veit ekki hvort trúaðir geti svarað þessari spurningu, amk ekki þeir sem segja guð Abrahams vera guð kærleika og réttlætis... Þetta minnir soldið á fólkið í Norður Kóreu sem lofa Dear Leadar.

DoctorE (IP-tala skráð) 15.1.2012 kl. 10:56

29 identicon

Ég ætla að koma með mínar hugleiðingar tengdar þessu án þess þó að svara öllum spurningnum.

Ég er sammála Bergi að Jósef Fritzl braut lög þegar hann hélt dóttur sinni í haldi og nauðgaði henni og eignaðist með henni börn. Samkvæmt lögum er bannað að halda manneskju nauðugri og kynferðisofbeldi gagnvart börnum er hræðilegur glæpur.

Hvort að manneskja sem hlýði alltaf lögum og reglum geti verið ill manneskja finnst mér áhugaverð spurning.

Hlutverk laga og reglna er meðal annars að draga úr skaða með því að leiðbeina fólki með hvað sé leyfilegt og hvað ekki. Ef allir færu eftir sinni sannfæringu myndi skapast ófremdarástand. Anders Breivik trúði því til að mynda að hann væri að gera Noregi og heimsbyggðinni greiða með því að fremja ódæðisverk sín. Hann trúði því að hann væri góð manneskja sem hefði þarft verk að vinna og fór því eftir sinni sannfæringu. Hann hlustaði ekki á lögin heldur tók þau í sínar hendur.

Lögin eru samt sem áður ekki fullkominn vegna þess að þau eru mannanna verk. Þau eru líka menningarbundin og er eitt skýrasta dæmið um það eru Sharia lögin. Í óvenjulegum aðstæðum gæti þurft að brjóta lög til þess að gera góðverk. Ef ég ætti til dæmis ekki pening fyrir mat handa börnunum mínum þá myndi ég frekar stela honum en að svelta. Hér hlýtur að gilda reglan um meiri hagsmuni fyrir minni.

Svo er líka hægt að koma illa fram við aðra án þess að brjóta lög. Er sá sem leggur aðra í einelti t.d. strangt til tekið að fremja glæp? Ég held að það sé ekkert til í lögum sérstaklega um einelti án þess að ég hafi kynnt mér það. Ég veit þó að margir vinnustaði eru með eineltisáætlanir og skólarnir auðvitað líka. Einelti er ofbeldi en oft er ekki hægt að sanna það vegna þess að þolandinn er ekki líkamlega meiddur. Hér er gerandinn klárlega að skaða þolandann en ég hef aldrei heyrt um neinn sem hefur verið kærður fyrir að leggja einhvern í einelti. Gerandinn brýtur hins vegar óskráð almenn siðalögmál.

Mín skoðun er sú að með því að fara eftir lögum og reglum aukist líkurnar á því að við sköðum ekki aðra. Það er samt hægt að vera illkvittinn án þess að brjóta lög. Góð manneskja reynir að skaða ekki aðra og láta gott af sér leiða. Góðar manneskjur eru samt ekki fullkomnar og ég held að flestir hafi einhvern tímann skaðað aðra án þess að ætla sér það. Ætli ég setji ekki mörkin við illska sé að skaða aðra viljandi ef maður er fullorðinn og veit betur.

Halla Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 15.1.2012 kl. 14:34

30 identicon

Já, þessi spurning er afar áhugaverð. Getur manneskja sem fylgir alltaf lögum og reglum verið ill manneskja?

Ég segi nei og taktu eftir Halla að spurningin inniheldur bæði lög og reglur. Ég myndi hiklaust flokka það undir "reglu" í siðmenntuðu samfélagi að einelti eigi ekki að stunda, né illt umtal og útburð á rógi o.s.frv. sem e.t.v. fellur ekki beint undir "lög".

Hvað varðar þann sem brýtur lög með því að stela til að fæða börn sín eða sjálfan sig þá held ég varla að nokkur maður myndi flokka það sem "illan" verknað. Þar brýtur augljós nauðsyn lögin sem eins og þú segir eru mannanna verk og því ekki óskeikul.

Hins vegar er snúnara að eiga við "menningar"dæmi eins og nefnd sharialög eða t.d. þá "menningar"reglu sem er í gildi einhvers staðar að umskera megi stúlkur.

Margir myndu flokka slíkan umskurð undir illan verknað, þar á meðal ég (mér finnst reyndar umskurður ómálga drengja líka illur verknaður). Hann er a.m.k. illur gagnvart þeim sem hann bitnar á.

Er þá manneskjan sem samþykkir umskurðinn, tala nú ekki um þá manneskju sem framkvæmir hann, ill manneskja?

Ég er ekki með svar við því í augnablikinu.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 15.1.2012 kl. 17:04

31 identicon

Ég hef lesið bæði Eyðimerkurblómið og Eyðimerkurdögun eftir Waris Dirie en báðar eru samdar til að berjast gegn umskurði kvenna.

Í bókinni segir Waris frá því að gagnrýni á móður hennar hafi sært sig. Hún var alla tíð mikil mömmustelpa og þegar hún byrjaði að opna sig um umskurðinn á Vesturlöndum var henni sagt að móðir hennar hefði misþyrmt henni. Þessu var hún ósammála og sagði að móðir sín hefði alls ekki misþyrmt sér vegna þess að hún hefði virkilega trúað því að umskurðurinn væri henni fyrir bestu. Hún talar fallega um mömmu sína í bókunum og lýsir henni sem einstaklega góðri manneskju.

Jóhanna talaði um að greina á milli gerðarinnar sem getur verið ill og manneskjunnar sjálfrar. Mér finnst þetta dæmi nokkuð lýsandi fyrir það. Waris talar um að það verði að fræða fólkið til þess að uppræta þessa grimmu hefð. Í hennar landi Sómalíu eru flestir ólæsir og hafa þar af leiðandi ekki lesið Kóraninn. Þegar hún heimsótti landið sitt mörgum árum eftir að hún flúði fór hún að segja frá því að það stæði hvergi í Kóraninum að umskera ætti stúlkur. Það var ekki almenn vitneskja.

Waris kemur frá mjög fátæku landi og var alin upp af hirðingjum. Þetta á auðvitað ekki við um allt fólk sem lætur umskera dætur sínar. Dæmin sem ég kom með eru því aðeins lítið brot af heildarmyndinni.

Fyrir mína parta þá finnst mér það ganga allt of hægt að uppræta þennan grimma sið. Mín skoðun er sú að það henti vel að halda konum niðri með þessum hætti og svo er þetta líka þáttur í að viðhalda ríkjandi þjóðfélagsgerð. Fyrir mér er umskurður eitt skýrasta dæmið um kynbundið ofbeldi og því illska gagnvart konum.

Halla Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 15.1.2012 kl. 21:46

32 identicon

Þú afsakar vonandi fáfræði mína hér, en er það svo að stúlkurnar eru umskornar vegna þess að fólkið telur að það eigi að gera það samkvæmt Kóraninum? Er þetta sem sagt trúarleg athöfn? Nú eru sharialögin byggð á trúarlegum forsendum svo og ýmsar aðrar reglur og athafnir innan trúarbragða sem margir myndu telja "illar", s.s. að það sé í lagi að myrða annað fólk í nafni trúarbragða sinna og Guða.

Ég get ekki að því gert en eftir því sem ég velti þessu meira fyrir mér, þ.e. spurningunni um hvort manneskja sem fylgir alltaf almennum lögum og reglum samfélagsins (og þá er ég ekki að tala um reglur sem eiga rætur í trúarbrögðum) geti verið ill manneskja, því áleitnari gerist sú spurning í huga mér hvort mannkynið væri ekki betur sett án þeirra laga og reglna sem sprottin eru úr trúarbrögðum og litað hafa samfélög um víðan heim af alls kyns "illum" verknuðum og afstöðu sem er augljóslega ill og órétttlát gagnvart þeim sem hún beinist að.

Ég veit ég er kominn út fyrir efni pistilsins, en mikið þætti mér fróðlegt að sjá umræður um þetta í fullri alvöru sem ekki væru litaðar af upphrópunum, uppnefnum, fordómum og persónuárásum. Eins og þú bendir á, Halla, þá var móðir þessarar konu, Waris Dirie, sér ekki meðvituð um illskuna í verknaðinum og því ekki ill í sjálfu sér frekar en saklaust barn sem fremur voðaverk. Samt á hún og barnið það á hættu að vera úthrópuð sem slík í stað þess að mæta skilningi.

Skyldu svona umræður vera mögulegar eða er mig bara að dreyma?

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 16.1.2012 kl. 01:48

33 identicon

Hitler var góður við hundinn sinn...

Annars er ekki hægt að gera svona greiningu.. per se Hrannar;

Jóhanna, skilaboð meints messíar.. voru: Submit or burn; Skráið ykkur kristna eða verðið pyntuð útfyrir gröf og dauða... + ykkur verður hegnt fyrir gjörðir forfeðra.

DoctorE (IP-tala skráð) 16.1.2012 kl. 09:06

34 identicon

Samkvæmt því sem Waris sagði þá var trú hennar fólks að það stæði í Kóraninum að umskera ætti stúlkur. Hún er reyndar komin af hirðingjum sem kunna ekki að lesa og ganga ekki í skóla. Ég gef mér það samt að umskurður tíðkast á öðrum stöðum þar sem fólk getur lesið Kóranin. Annars er ég ekki sérfræðingur í þessu, hef bara lesið þessar bækur og mæli með þeim.

Ég hef fylgst með umræðum um trúmál af netinu í langan tíma án þess að taka þátt í þeim. Mér hefur fundist fólk eigna trúarbrögðum það sem er gott í samfélaginu, samanber það sem Þórhallur Heimisson sagði um að fyrirgefningin væri nú bönnuð í skólum Reykjavíkur. Ég er sjálf er á þeirri skoðun að lög og reglur eigi ekki að koma úr trúarbrögðum. Þetta er gamalt efni sem á ekki við í dag og margt af þessu er almenn skynsemi.

Halla Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 16.1.2012 kl. 09:50

35 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sagan þar sem Jesús læknaði á lögboðnum hvíldardegi er einmitt dæmisaga um það að við eigum að láta skynsemina (hjartað) ráða, ekki boð og bönn.  "Nauðsyn brýtur lög" -  Líka sagan af miskunnsama Samverjanum, en þar snertu tveir "heilagir" menn ekki við hjálparvana manni vegna reglugerða. 

Ef þú sérð barn detta í sjóinn - þá ferðu ekki að fletta upp í reglugerðum um hvort að það sé rétt eða rangt að bjarga barninu, heldur stekkur út í sjóinn. Það má segja að það séu viðbrögð hjartans. 

Það er þó auðvelt að koma með yfirlýsingar og segjast ætla að gera allt rétt. Segjum að fangaverði sé skipað að drepa mann í fangabúðum, eins og tíðkaðist á tíma Hitlers, og ef að hann geri það ekki verði fjölskylda hans myrt.  Er hann vondur maður eða góður maður? - 

Hvað ef að okkur sjálfum væru gefnir slíkir afar kostir?  Ég held að aðstæður og umhverfi þurfi alltaf að taka inn í myndina.  

Jóhanna Magnúsdóttir, 16.1.2012 kl. 11:27

36 Smámynd: Óskar Arnórsson

Jóhanna lítur mig hugleiða hvort Guð sé bara ekki kona...ég tileinka henni þetta innlegg, þetta súpersamtal milli Eckhart Tolle og Neale Donald Walsch sem skrifaði bókina "Samtal við Guð" sem seldist í meira en 7 milljón eintaka og þar gefur hann það aðeins í skyn... hann hefur kanski rétt fyrir sér.

Óskar Arnórsson, 16.1.2012 kl. 20:31

37 Smámynd: Óskar Arnórsson

sorry, gleymdi YouTube adressuni: http://www.youtube.com/watch?v=UFr3OvPdpb8

Óskar Arnórsson, 16.1.2012 kl. 20:32

38 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæll Óskar,  mér er það mikill heiður að vera tileinkað innleggið þitt og fá í kaupbæti samtalið á milli Eckhart Tolle og Neale Donald Walsch "góðkunningja" minna.  Ég hef hlustað mikið á fyrirlestra með þeim og þekki sögu þeirra beggja.

Þetta samtal er dásamlegt, - ég hafði aðeins séð hluta af því fyrr. 

Þú hittir beint í mark ;-)   ... 

Kærar þakkir! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 17.1.2012 kl. 09:12

39 Smámynd: Óskar Arnórsson

http://projectcamelotportal.com/ Konur eru á betri mannverur enn karlar...það kanski á að vera svoleiðis, ég veit það bara ekki...skilningur og góðleiki er ekki alltaf samferða...

Óskar Arnórsson, 18.1.2012 kl. 03:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband