Hvað einkennir þá sem sem beita ekki gagnrýnni hugsun?
18.12.2011 | 10:02
Ég hef því miður orðið var við það viðhorf að það sé einskis virði að hlusta á gagnrýnisraddir, að þeir sem gagnrýni vilji bara finna höggstað á þeim sem verið er að gagnrýna. Þetta viðhorf hefur því miður lengi loðað við stjórnmál, ekki bara á Íslandi heldur um víða veröld, og það er ekki gott, því fátt er betra í lýðræðislegu samfélagi en að hlustað sé og hugsað sé um gagnrýni á yfirvegaðan hátt.
Mér þykir leiðinlegt þegar ég heyri gagnrýni sem ég veit að ekki er hlustað á, því þar fara glötuð tækifæri út í buskann. Þar sem að ég hef atvinnu af gagnrýnni hugsun og sé skýrt og greinilega hvernig fyrirtæki mitt stórgræðir á að beita slíkum hugsunarhætti, þykir mér afar sorglegt að líta heim til Íslands og sjá fólk í mikilvægum stjórnunarstöðum sem áhrif hafa á land og þjóð, hunsa gagnrýna hugsun algjörlega, og falla frekar í forarpytt þægilega viðmótsins, um að "ég" og "við" höfum rétt fyrir okkur en "þú" og "hinir" hafi alltaf rangt fyrir sér.
Það er ýmislegt sem einkennir þann sem ekki er reiðubúinn að hlusta á gagnrýni. Viðkomandi skortir þá líklega það sem kallast beitingu á "gagnrýnni hugsun", en gagnrýnin hugsun snýst einmitt um að velta hlutunum fyrir sér frá ólíkum sjónarhornum, finna ný sjónarmið, og hlusta á þær hugmyndir sem fram koma um markmið, vandamál, lausnir, hugsa djúpt og vítt um hlutina, af nákvæmni, greina það sem skiptir máli frá því sem ekki skiptir máli, sýna auðmýkt, og fleira.
Ein leið til að velta fyrir sér beitingu á gagnrýnni hugsun, er að velta fyrir sér manngerðinni sem beitir ekki gagnrýnni hugsun. Skortur á beitingu gagnrýnnar hugsun getur verið ríkur hjá jafnvel greindasta fólki, þá jafnan fólki sem telur sig vita betur eða hefur tekið afstöðu og ákveðið að standa við hana sama hvað tautar og raular, og vinnur út frá slíkri forsendu. Slík þrjóska er einn af verstu óvinum gagnrýnnar hugsunar, en sá allra versti er sjálfsagt þegar beitingu gagnrýnnar hugsunar er afnumin með ofbeldi. Annað eins hefur gerst og gerist enn í dag. Ofbeldi tekur á sig mörg form.
Þeir sem beita gagnrýnni hugsun meina ekkert illt, þó að stundum haldi sá sem fyrir gagnrýninni verður að sú sé raunin, en það verður að vera hægt að gera greinarmun á raunverulegri og uppbyggilegri gagnrýni annars vegar, og áróðri eða niðurrifi hins vegar. Þessi grein fjallar svolítið um það.
Þegar kemur að því að greina hvers konar hugsunarháttur ræður ríkjum hjá viðkomandi manneskju, eða þér persónulega, þegar kemur að beitingu gagnrýnnar hugsunar, þá er um þrjá möguleika að ræða:
- Beitir ekki gagnrýnni hugsun
- Beitir slakri gagnrýnni hugsun
- Beitir sterkri gagnrýnni hugsun
Mig langar að velta fyrir mér þessum þremur ólíku manngerðum og benda á hugsunarhætti sem einkenna þá. Í þessum pistli ætla ég einungis að velta fyrir mér manngerðinni sem beitir ekki gagnrýnni hugsun.
1. Sá sem beitir ekki gagnrýnni hugsun
Þetta er manneskja sem auðvelt er að sannfæra um nánast hvað sem er, bara að einhver ánægjutilfinning fylgi sannfæringunni er nóg til að viðkomandi fallist á málstaðinn. Yfirleitt eru þetta sjónarmið sem auðvelt er að aðhyllast því að flestir félagar manns eru á svipaðri skoðun, eða vegna þess að einhver mælandi kemur vel fyrir eða virkar sannfærandi. Slík manneskja lepur sem sannleika það sem birtist í fréttamiðlum, það sem kemur frá yfirvöldum, það sem félagarnir halda fram. Þessum hugsunarhætti fylgja óhjákvæmilega fordómar og skortur á vilja til að rökstyðja eigin sannfæringu með öðru en tilfinningarökum eða beita rökvillum eins og þær séu ásættanlegar, og gera sér ekki grein fyrir að munur sé á því sem er sannfærandi og því sem er satt.
Sá sem beitir ekki gagnrýnni hugsun er líklegur til að blanda geði við fólk sem er þægilegt að umgangast og hefur sambærileg viðhorf. Slíkt fólk gagnrýnir ekki, heldur einbeitir sér að því að njóta stundarinnar, njóta þess að vera í góðra vina hópi, nenna ekki að hugsa hlutina í botn þar sem aðrir gera það hvort eð er.
Hópur fólks sem beitir ekki gagnrýnni hugsun er yfirleitt fjandsamlegur gagnvart þeim sem beita gagnrýnni hugsun. Þeir lifa eftir ákveðnum lífstíl sem hentar þeirra tíðaranda og er líklegur til vinsælda. Viðhorf hópsins má ekki gagnrýna. Þau eru viðtekinn sannleikur. Eins og trú. Sá sem vogar sér að gagnrýna þessi viðhorf er líklegur til að vera kallaður nöfnum, kenndur við heimsku eða hræsni. Þá er sá sem beitir ekki gagnrýnni hugsun til að reiðast séu grundvallarhugmyndir hans og hópsins hans gagnrýndar, og stundum leiðir þessi reiði til ofbeldis. Þetta ofbeldi getur tekið á sig margar myndir, birst í einelti, útskúfun, áhugaleysi og jafnvel líkamlegri árás, jafnvel morði.
Eina leiðin til að hafa áhrif á skoðanir viðkomandi er með blekkingum, með áróðri, að koma inn nýrri vinsælli hugmynd sem getur þótt skemmtilegri eða þægilegri en fyrri hugmyndirnar. Þannig er sífellt hægt að sannfæra þann sem ekki beitir gagnrýnni hugsun með því að beita öflugri markaðstækni. Öflug markaðstækni er hins vegar dýr og til að sannfæra þá sem ekki beita gagnrýnni hugsun, er mikilvægt að hafa bestu markaðstæknina og bestu auglýsingaherferðina á bakvið sig. Hafi stjórnmálaafl einungis gagnrýnisrödd til að koma sér á framfæri, en engan pening til að kaupa sér samkeppnishæfa markaðssetningu, er hún dæmd til að ná ekki til fólks.
Það virðist því miður vera þannig að alltof fáir nenni að hugsa gagnrýnið, enda tekur góð gagnrýnin hugsun tíma og kostar vinnu, sem ekki allir eru tilbúnir að taka á sig, hugsanlega vegna annarra skuldbindinga eða áhugamála, og svo skortir einnig hugsanlega þekkingu á því hvernig gagnrýnin hugsun virkar. Gagnrýnin hugsun er nefnilega lærð, áunnin, óþægileg, og kemur ekki að sjálfu sér.
Taktu eftir að fyrir þann sem beitir ekki gagnrýnni hugsun skiptir "Sannleikurinn" engu máli, heldur aðeins það sem viðkomandi velur að trúa. Vonandi áttar þú þig á því, lesandi góður, að manneskja sem beitir ekki gagnrýnni hugsun getur verið stórhættuleg. Slíkar manneskjur eru líklegri til að taka ákvarðanir sem eru slæmar fyrir þær sjálfar og aðrar manneskjur sem umgangast hana. Slíkar manneskjur geta jafnvel komist til pólitískra valda, og þar sem þær beita ekki gagnrýnni hugsun, geta afleiðingar vanhugsaðra gjörða þeirra verið stórskaðlegar.
Að beita ekki gagnrýnni hugsun er algengasta forsendan fyrir fordómum, ofbeldi, uppþotum og stríði.
Hvernig getur þú komist að því hvort þú sért slík manneskja, sem beitir ekki gagnrýnni hugsun? Reyndar er ólíklegt að þú værir að lesa þessa grein ef þú hefur enga gagnrýna hugsun, en hér eru nokkrar spurningar sem David Peterson, frá Foothill College, mælir með að þú veltir fyrir þér:
1. Trúir þú yfirleitt því sama og félagar þínir? Veltu fyrir þér skoðunum þínum um stjórnmál, trúarbrögð, fóstureyðingar og önnur erfið mál. Ef þú sérð að skoðanir þínar eru einfaldlega þær sömu og félaga þinna, þá er það vísbending um að þú beitir ekki gagnrýnni hugsun.
2. Spurðu þig af hverju þú trúir því sem þú trúir. Geturðu rökstutt svör þín? Eru rökin sem þú notar raunveruleg rök, eða endurtekur þú bara hluti sem þú hefur heyrt annað fólk segja? Hljómi "rök" þín eins og upptökur frá einhverjum öðrum, þá beitirðu líklega ekki gagnrýnni hugsun.
3. Hvernig bregstu við þegar fólk er þér ósammála? Finnst þér það pirrandi? Reiðistu? Flokkar þú viðkomandi sem "öfgamann", "hræsnara", "illgjarnan" eða "heimskan"? Svarir þú einhverri af þessum spurningum játandi, þá beitirðu líklega ekki gagnrýnni hugsun.
4. Hvað veistu um skoðanir sem eru öndverðar þínum eigin skoðunum? Veldu þér hvaða umræðuefni sem er og reyndu að finna heilbrigð rök sem styðja skoðun andstæðingsins. Ef þú finnur ekkert annað en asnaleg "rök", þá beitirðu líklega ekki gagnrýnni hugsun.
Ég gæti nefnt dæmi um fólk sem ég tel ekki beita gagnrýnni hugsun, en það hefur sjálfsagt lítið að segja, fyrir vikið væru þessi skrif einfaldlega dæmd sem þáttur í að grafa undan viðkomandi. Því getur verið betra að sleppa því að nefna dæmi.
Heimildir og myndir:
Athugasemdir
Góð hugvekja á sunnudegi. Takk fyrir Don Hrannar.
Jón Baldur Lorange, 18.12.2011 kl. 11:27
Góður pistill og vekur upp margar hugsanir, takk kærlega.
Ásdís Sigurðardóttir, 18.12.2011 kl. 11:47
Ég gæti líka nefnt sem dæmi ákveðin hóp af fólki sem ég tel að skorti verulega á að beiti gagnrýninni hugsun í sínum málflutningi, en sennilega myndi ég eyðileggja þennan þráð hjá þér ef ég léti vaða. Þess vegna sleppi ég því.
En mikið gæti nú almenn umræða á Íslandi lagast ef fleira fólk reyndi að uppgötva bjálkann í eigin auga í stað þess að sjá bara flísarnar í augum annarra.
Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 18.12.2011 kl. 11:51
Já og passið ykkur endilega á þvi að trúa ekki sögum sem segja að þið fáið verðlaun fyrir að trúa þeim, eða ógnir fyrir að trúa þeim ekki.. já, og segja að það verði að trúa sögunni án allra sannana.
Gríptu í bjálkann Bergur, flísin heldur þér ekki á floti, þú ert að ímynda þér það.
DoctorE (IP-tala skráð) 18.12.2011 kl. 12:04
Doktor, ég hef það á tilfinningunni að þú hafir alls ekki lesið greinina sem hér er til umræðu. Það er t.d. ekki minnst einu orði á "trú" í henni, enda er hún ekki um trú.
Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 18.12.2011 kl. 23:09
Frábær pistill að venju Hrannar!
Það er gaman að lesa pistil sem ber það með sér að það er alvöru hugsun á bakvið. Og ef ég ætti að gagnrýna pistilinn þá gæti hann verið um hræðslu fólks við að hugsa utan fyrir "boxið" sem er alveg lífsnayðsynlegt.
Það er nýbúið að veita Nóbelsverðlaunin til einhverra sem sönnuðu að geimurinn væri að þenjast út. Ég hef vitað það síðan 1979 og auðvitað hefur sú vitneskja verið óvísindaleg þangað til núna. Ég set eldgamla hugmynd mína i "Faktaboxis" í vinstra heilahvelinu við hliðina á staðreyndum um þyngdaraflið, að loftið hafi þyngd og að ég skil ekki konur.
Ég verð að verja vin minn DoktorE og trúnna hans. Auðvitað er allur pistillinn um trú og skaðsemi trúar. Enn næstum líka mikið um "faktafíkla" og vísindahugsuði. Sannfæringarkraftur mannsins getur gert túnglið úr osti, að vita fyrir víst að Páfin sé heilagur og Jóhanna sé besti ráðherra fyrr og síðar á Íslandi.
Það er til fólk sem finnst jörðin leiðinlegur staður að vera á og myndi fara á puttanum með geimverum í burtu bara ef þeir fengju tækifæri á því. Blöð segja oft frá þessum sannfæringarkrafti sem getur gert fólk vitstola ef honum er beitt af fullum krafti, eins og t.d. allskonar trúarsöfnuðir eru þekktir fyrir.
Í stað þess að nota gagnrýna hugsun er t.d. hugmynd keypt sem er líkleg, sérstaklega ef hægt að raða henni saman í teoríu. Allskonar teoríur eru notaðar t.d. um hvað mórall sé ef ég má koma með dæmi. Það eru engin vísindi sem geta sannað að mórall sé til í alvörunni. Og þá er í lagi að nota trúnna, alla vega í hallæri.
Samt keppast menn um að tala um þetta fyrirbæri. Það þarf að laga móral, bæta móral og samt er það staðreynd að eingin hefur fengið Nóbelsverðlaunin fyrir að sanna að hann sé til...
Óskar Arnórsson, 19.12.2011 kl. 10:02
Ertu blindur Bergur.. eða ertu bara svona vitlaus?
DoctorE (IP-tala skráð) 19.12.2011 kl. 10:50
Godur pistill Hrannar!
Oddur Ingi (IP-tala skráð) 26.12.2011 kl. 16:06
Skemmtileg lesning.
Bragi (IP-tala skráð) 29.12.2011 kl. 12:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.