Undrast þú fálætið þegar kemur að vanda heimila landsins?

The_Scream

Í dag hlustaði ég á Reykjavík síðdegis gegnum netið. Þorgeir Ástvaldsson ræddi þar við hagfræðinginn Guðmund Ólafsson. Þorgeir velti fyrir sér álæti ráðamanna vegna hins stóra vanda heimila landsins, skattpíningu ríkisins, launalækkanir, aðgerðarleysi vegna lánavanda, hugsunarleysi, hroka og mikinn atgervisflótta frá Íslandi.

Af stóuspekingum í Grikklandi hinu forna var fálæti álitn dygð. Það þótti af hinu góða að tengja sig ekki um of við eignir eða manneskjur. Betra væri að lifa lífinu tilfinningalaus heldur en með hinar truflandi langanir og þrár sem sífellt naga okkur innanfrá. Betra væri að elska ekki en að elska. Betra væri að lifa lífinu leiðinlega en í einhverju fjöri. Betra væri að hugsa um vini, vandamenn og eignir sem tímabundið lán en eitthvað sem við eigum. Í dag kannast fólk sjálfsagt betur við þessa speki þegar hún er tengd við Jedi riddara úr Star Wars heiminum eða þegar hugsað er til dýrlinga eða munka. Reyndar er stóuspekin einnig tengd við þrælslund, þar sem upphafsmaður hennar, gríski þrællinn Epíktet sem rifinn hafði verið frá fjölskyldu sinni í Grikklandi til Rómar og sá þau aldrei aftur, beitti þessum hugsunarhætti til að gera sitt óbærilega líf bærilegra.

jedi

Þessi speki birtist einnig í kvikmyndinni "Hurricane" með Denzel Washington, um hnefaleikakappa sem dæmdur er saklaus í fangelsi fyrir morð, en persónan í myndinni tekur á dómnum, fyrst reiður, en síðan af stóískri ró, þegar hann áttar sig á að aðrar leiðir til að lifa lífinu í fangelsi leiða til óbærilegrar þjáningar.

Fálæti er hugsanlega dygð þegar kemur að slíkri speki. Hins vegar þegar enginn grundvöllur er fyrir fálæti, annar en einhvers konar geðþótti, þá umturnast fálætið í löst. Sá löstur er tengdur við það að standa á sama um annað fólk. Sumum þykir það jafnvel svalt. Og kalla það jafnvel svalt að vera sama um allt og alla.

The-Hurricane  

Á tímum víkinga þótti fálæti ekki töff. Ef einhver gerði þér eitthvað var það hreinlega skylda þín að svara fyrir þig. Kristnin breytti þessu hugarfari víða um heim, þannig að ef einhver gerði þér eitthvað, þá varð það að andlegri skyldu mannsins að sýna kærleik og fyrirgefa; í stað þess að reiðast og hefna. Það er ekki fyrr en á ofanverðri 20. öld og fyrstu árum 21. aldarinnar að fálætið virðist ógna samfélagslegu jafnvægi. Þetta fálæti var þekkt í fari hefðarfólks fyrir byltingarnar sem steyptu hefðarkerfunum af stóli víða um heim. 

Ég vil taka undir með undrun Þorgeirs Ástvaldssonar um fálætið gagnvart stórum vanda heimila landsins. En ég hef líka stigið næsta skref, velt þessu fálæti aðeins fyrir mér, og vonast til að þessar pælingar verði til að þoka í það minnsta sjálfum mér, og vonandi þér, lesandi góður, í átt að svari um þetta furðulega fálæti gagnvart þeim sem standa höllum fæti, í þjóðfélaginu og í heiminum.

 

Myndir:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Afar áhugaverð nálgun.

Sigurður Þorsteinsson, 13.12.2011 kl. 00:13

2 identicon

Það sem undrar mig allra mest, er að fálætið kemur frá fólki, sem er yfirlýstir sérstakir verndarar þeirra sem standa höllum fæti.

Ég næ hreinlega ekki upp í það, að einmitt slíkt fólk er nú við stjórnvölinn og getur látið verkin tala, og þar með getur það sannað velvild sína við fólkið sem er að kikna undan skuldaklafanum.

Sigurður Herlufsen (IP-tala skráð) 13.12.2011 kl. 20:28

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það er tvennt sem kemur til greina varðandi ráðamenn þjóðarinnar:

1. Þau þekkja hvorki né skilja ástandið og sýna fálæti.

2. Þau þekkja og skilja ástandið og sýna fálæti.

Fyrri kosturinn er vondur, en ég tel hann líklegan, að þetta sé vel meinandi fólk sem einfaldlega áttar sig ekki á hlutunum, er í höfnunarástandi, jafnvel einhvers konar meðvirkni, en halda og trúa að þau viti betur, þykjast hafa stjórn á hlutunum þó að þau sigli að feygðarósi, og tjáning þessarar tegundar hroka virkar sem fálæti.Síðari kosturinn er verri, því þá er viðkomandi hreinlega í illsku að halda sér á valdastól og sýnir fálæti vegna þess að hann eða hún kemst upp með það, enda þekkt vandamál að erfitt er að hrekja fólk úr valdastóli sem límir sig við hann. Má fræðast um slíka taktík í Prinsinum eftir Machiavelli.

Ekki finnst mér ólíklegt að stjórnarliðar skiptist nokkurn veginn jafnt í báða hópana, og útilokað er að átta sig á hvor þeirra stjórnar landinu.

Hrannar Baldursson, 13.12.2011 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband