Þjóðaratkvæðagreiðsla um verðtryggingu?
21.8.2011 | 06:34
Ég hef hlustað á rök með og á móti verðtryggingunni, og heyri samhljóm með ICESAVE málinu. Vilhjálmur Bjarnason lét jafnvel út úr sér í Kastljósþætti að verðtryggingin væri réttlát. Ég hefði haldið að hvert einasta mannsbarn sæi ranglætið í þessu, og get ekki annað en spurt hvaða vonda málstað Vilhjálmur hafi að vera. Síðan kemur Þórólfur Matthíasson fram og gagnrýnir útreikninga Hagsmunasamtaka heimilanna, og í kjölfarið fylgir Hrannar Björn Arnarson, aðstoðarmaður forsætisráðherra eftir á Facebook með orðalaginu: "Blekkingar Hagsmunasamtaka heimilanna afhjúpaðar - allir fjölmiðlar gleyptu dæmin hinsvegar hrá !" Ekki veit ég hvaða hagsmuna þessir einstaklingar hafa að gæta, en þeir virðast hvorki hlutlausir né hafa mikinn áhuga á réttlæti. Því miður. Kannski þurfa þeir bara knús?
Rökin á móti verðtrygginginu snúast um réttlæti. Fyrir efnahagshrunið höfðu sumir sjóðir fitnað mikið, meðal þeirra lífeyrissjóðir, og krefjast þeir að stöðugt sé bætt gulli á hauginn í hlutfalli við haug sem þegar var alltof stór fyrir. Þessir sjóðir eru það eina sem virðist verða að vaxa þrátt fyrir að allt annað í kring hafi rýrnað. Á gullinu sitja ósnertanlegir drekar sem blása eldi og brennisteini á þá sem geta hugsanlega ógnað gulli þeirra á einhvern hátt.
Rökin með verðtryggingu snúast um hagsmuni. Hagsmuni þeirra sem stjórna drekunum. Hagsmuni þeirra sem eiga gullið og vilja sjá það vaxa meira. Þetta er hópur Jóakim Aðalanda sem áttar sig ekki á því að peningar eru ekki til að synda í, heldur til að nota og leyfa hjólum atvinnu og samfélags að snúast. Þessir Jóakimar eru svo reiðubúnir að verja gullið til skamms tíma að þeim er nákvæmlega sama þó að venjulegt fólk sjái lífskjör sín rýrna og eigin möguleika og drauma verða að engu. Þessum Jóakimum er nákvæmlega sama um alla nema Jóakim Aðalönd.
Réttlæti á við um alla. Hagsmunir eiga við um suma. Þessir fáu sem eiga auðinn munu berjast með kjafti og klóm til að halda honum og krefjast þess að hann vaxi. Og þeir eru að gera það, með verðtryggingunni.
Hugsaðu þér veislu árið 2006. Elton John mætir og syngur. Fínustu kræsingar á borðum. Rándýrt. Þúsund manns boðið. Og hvert ár eftir það er krafist þess að veislan verði 4% flottari, þrátt fyrir að veisluhaldarinn fór á hausinn árið 2008! Hvar er vitið í þessu?
Ég veit að til er fólk sem heldur því fram að þjóðaratkvæði eigi ekki við þegar kemur að skattlagningu og slíku, en ég held að þessir einstaklingar hafi rangt fyrir sér. Þjóðinni er hægt að treysta fyrir sjálfri sér.
Mætti ekki gefa þjóðinni kost á að greiða atkvæði um verðtrygginguna? Hér með óska ég eftir þingmanni sem vill leggja það til á næsta þingi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 10:13 | Facebook
Athugasemdir
Hér er um nokkur mál að ræða sem greina verður á milli. Eitt er hvort útreikningar sem HH hafa lagt fram séu réttir.Fjölmargir stærðfræðingar eða menn með þekkingu á vaxtarekningum hafa bent á að þessir útreikningar séu rangir.Annað er hvort reglugerð Seðlabankans um verðtryggingu byggi á lögum. Veruleg ástæða er til að efast um það. Ef farið væri að lögum og eingöngu greiðslur verðbættar verður útkoman sú sama og núverandi(ólöglegu)aðferðir gefa. Nánast öll íbúðalán Íbúðalánasjóðs eru verðtryggð neð vöxtum. Lífeyrissjóðir fjármagna sjóðinn. Að þeim er skylduaðild og vísitölutrygging lífeyrisgreiðslna. Lífeyrissjóðirnir gera kröfu um raunávöxtun. Mín niðurstaða að tími sjálfseignastefnu í húsnæðismálum sé löngu liðinn. hrunið var náðarhöggið.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 07:06
Hrafn: "Sjálfseignarstefna" í húsnæðismálum?
Aðeins þar sem kommúnismi ræður ríkjum er útilokað að venjulegt fólk geti eignast húsnæði. Í hörðu kapítalísku samfélagi getur það einnig verið erfitt. Það hlýtur að vera til einhver millivegur.
Húsaskjól er grundvallarþörf og sjálfsögð mannréttindi að fólk geti eignast eigið heimili.
Af hverju ekki að gera fólki fært um að hafa valkost? Hvernig er hægt að túlka slíkt sem "sjálfseignarstefnu"?
Hrannar Baldursson, 21.8.2011 kl. 07:14
Eitt sem alltaf gleymist í umræðunni, er að þegar verðtryggingingu var komið á þá VORU LAUN LÍKA VERÐTRYGGÐ! Það kerfi gekk ekki upp vegna víxlverkana launa og verðlags (verðbólgudraugurinn), og verðtrygging launa var afnumin með einu pennastriki. Síðan hefur verið verðrán! Verðbólgudraugurinn nærist nefnilega á ráninu! Engin leið er út úr þessu nema almenningur rísi upp og þvingi fram úrbætur áður en enn stærri öreigastétt verður til. Það verður ekki gert nema harðri samstöðu almúgans gegn óstjórninni. Óskynsamlegt er að bíða til ármóta með það.
Hrúturinn (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 11:06
Fyrst Þórólfur Matthíasson hefur verið kallaður út til varnar verðtryggingunni, þá spái ég því að búið verði að ákveða afnám hennar fyrir árslok.
Maðurinn á skilið að fá orðu. Þá sömu og Siggi í Kaupþingi.
Guðmundur Ásgeirsson, 21.8.2011 kl. 14:43
Mikið sammála þessu um afnám verðtryggingu,og vona bara að það verði að veruleika sem fyrst,ef ekki fer illa ekki spurning/Kveðja
Haraldur Haraldsson, 22.8.2011 kl. 00:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.