Af hverju látum við þrælkun líðast á Íslandi í dag?

Þræll er manneskja bundin af annarri manneskju eða kerfi gegn vilja sínum og neydd til að þjóna viðkomandi af auðmýkt. Reyni þrællinn að brjótast út úr þrælkuninni er honum hótað gjaldþroti sem hægt er að viðhalda þar til hann deyr úr hárri elli, en gjaldþrot jafnast nánast á við líflátsdóm, og er mun þyngra en nokkur fangelsisdómur sem Íslendingur getur fengið fyrir afbrot á Íslandi, jafnvel fyrir morð. 

Það eru tveir aðilar á Íslandi sem viðhalda þrælkuninni: 

Bankarnir ásamt kröfuhöfum sem enginn veit hver er, og stjórnvöld. Því miður fylgja margir stjórnvöldum blint. En stjórnvöld eru heyrnarlaus. Heyrnarlaus leiðir blindan í samræðu. Þrælslundin er rík, og óttinn við að kerfið stoppi hræðilegri en nokkur önnur ógn í þessari veröld. 

Ef  Jón Hreggviðsson getur ekki borgað húsnæðislán sín er honum ekki sýnd nein miskunn. Eignin er seld ofan af honum á nauðungaruppboði og fyrir hana fæst alltof lágt verð, en hann situr eftir á föðurlandinu með skuldir sem hann ræður aldrei við að greiða. Velji hann gjaldþrot geta kröfuhafar endurnýjað kröfur sínar á tveggja ára fresti þar til Jón hefur gengið berfættur ofan í kalda gröfina. Þetta er kerfið sem bankarnir og stjórnvöld viðhalda í dag.

Jón Hreggviðsson og fjölskylda hans lifir í angist og upplifa sig sem einangraðar og firrtar verur í heimi sem virðist standa á sama um mannleg gildi. Kona Jóns á erfitt með að höndla hin yfirþyrmandi vandamál sem óborganlegar skuldir reynast vera, þar sem engin leið virðist út úr völundarhúsi hins snobbaða ranglætis.

Ég trúi ekki að fólkið sem stórnar landinu vilji vera jafn miskunnarlaust og skilningslaust og það virðist vera gagnvart Jóni, konu hans og börnum. Kannski kann það bara ekki að setja sig í spor annarrar manneskju sem upplifir ólíkar aðstæður? Stjórnvöld gætu gert eitthvað af viti til að afnema þrælkun Jóns, eins og til dæmis að klippa á verðtrygginguna eða gert honum fært að byrja aftur á núlli. Það þyrfti að gera gjaldþrot mannúðlegra í kjölfar hrunsins, annars finnur Jón enga leið út úr vandanum, tekur næsta flug út í heim og kemur aldrei til baka.

Skjaldborgin yfir Jón og fjölskyldu hans hefur ekki verið reist af stjórnvöldum. Stjórnvöld gerðu þau mistök að biðja bankana að byggja skjaldborgina, og að sjálfsögðu urðu bankarnir við þeirri beiðni. Hins vegar byggðu þeir skjaldborg yfir sjálfa sig, og botnvörpu yfir heimilin.

Fjölmargir flytja úr landi frekar en að verða gjaldþrota vegna forsendubrests húsnæðislána og/eða atvinnuleysis. Ég veit um nokkra sem flutt hafa burt, og veit um miklu fleiri sem er að undirbúa brottflutning. Áhugavert væri að senda fyrirspurnir á þá sem halda norskukúrsa, en mér skilst að á þeim vettvangi sé mikið að gera.

Alþingismenn virðast ekki átta sig ekki á hversu alvarleg staðan er, því flestir búa þeir við gjörólíkar aðstæður en það fólk sem er að berjast við bankana vegna húsnæðislána og forsendubrostinna skulda, en pólitíkusar virðast hvorki vilja né geta sett sig í spor fólks við slíkar aðstæður, enda áhuginn ekki fyrir hendi og miklu auðveldara að fordæma fólkið en að styðja það. Og jafnvel setja sig á aðeins hærri skör en almúgann.

Íslenska stjórnmálamenn virðast vera afar sjálfhverft lið, sem hugsar fyrst og fremst um flokkinn sinn eða sjálft sig, og á erfitt með að greina hin raunverulegu vandamál. Þó eru til undantekningar, en þær eru ekki nema 1-5 manneskjur í alltof stórum þinghópi.

Það væri ágætt ef fólk nennti að setja á sig skó þeirra sem þurfa að kljást við forsendubrest heimilislána, og ganga aðeins um í þessum skóm, í stað þess að gera það sem bankarnir gera, hlaupa í burtu með skóna og skila þeim aldrei aftur.

 

Þessar pælingar vöknuðu eftir að hafa horft á heimildarmyndina Inside Job en Egill Helgason fjallar um hana á bloggi sínu í dag. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Má ekki hætta með krónuna og verðbætur notaðar til að hækka vexti og auka gróðan af viðskiptum almennings til að borga afskriftir til útgerðarinnar sem hefur notað kvótana sem veð (gull) sem er síðan margfaldað í hringsóli milli útgerða og banka. Veð hæfni kvóta er 128 milljarðar en skuldin komin í yfir 500 milljarða. Getur aldrei gengið þess vegna má ekki taka af verðbætur sem hækka við gengis fellingu og hækka meira þegar gengiið hækkar ??? Srítið

Olafur Jónsson (IP-tala skráð) 21.4.2011 kl. 19:33

2 Smámynd: Ómar Gíslason

Alveg sammála þér ég er farinn að velta fyrir mér hverjir stjórna landinu? Eru það bankar og fjármálafyrirtækin eða stjórnvöld með vald sitt frá íslendingum. Því er nú miður að það skuli vera bankar og fjármálafyrirtækin og það hefur ekkert breyst hér á landi, við verðum að lemja í borðið og breyta þessu fjármálakerfi sem við búum við í dag.

Ómar Gíslason, 21.4.2011 kl. 20:09

3 identicon

Já, við erum orðnir hvítir þrælar á Íslandi í dag.

Linda (IP-tala skráð) 21.4.2011 kl. 20:19

4 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Hvernig væri að taka upp norska krónu, ef þeir leifðu okkur það, nú eða kanada Dollar. Og burt með verðtryggingu, en það er auðvitað ekki hægt nema stjórnvöld og almenningur vilji það. Það verður að setja stopp á þessa þrælkun sem stunduð hefur verið hér í áraraðir. Þetta er að verða verra en á kúbu!!Þeir bræður á kúbu voru að gefa fóki frjálsar hendur til að selja íbúðirnar sínar Hvað þíðir það? Jú það þíðir það að fólk á kúbu á íbúðir til að selja, hér á landi eiga bara bankarnir íbúðir til að selja!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 22.4.2011 kl. 01:10

5 Smámynd: Gunnar Björn Björnsson

allt satt og rétt, sé ekki og heyri ekki stjórnin, ég verð dapur við tilhugsunina bara. en góð lesning og takk

Gunnar Björn Björnsson, 22.4.2011 kl. 03:25

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Að gefnu tilefni:

Lög um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum (fyrningarfrestur).

1. gr.
     Í stað 2. mgr. 165. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Þrotamaðurinn ber ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma.
     Fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. verður aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skal því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar. Hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamannsins áður en frestur skv. 2. mgr. var á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingarréttinda.

2. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi og taka þau til krafna við gjaldþrotaskipti sem er ólokið. Hafi skiptum á þrotabúi lokið fyrir gildistöku laga þessara fyrnast kröfur, sem þar fengust ekki greiddar og ekki eru fyrndar, á tveimur árum frá gildistöku laganna nema skemmri tími standi eftir af fyrningarfresti. Fyrningu þessara krafna verður aðeins slitið eftir reglum þessara laga.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Lög þessi skulu endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2010.
 

Hrannar Baldursson, 22.4.2011 kl. 04:09

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góður pistill Hrannar sem endranær. íslenskt þjóðfélag er hrunið.. ekki bara vegna bankakreppunnar heldur vegna innri rota.. burðarviðirnir eru feysknir og fúnir..

Óskar Þorkelsson, 22.4.2011 kl. 08:46

8 Smámynd: Óskar Þorkelsson

@Eyjólfur, að taka upp norska krónu eina og sér væri bjarnargreiði við íslendinga því hún er svo sakalega sterk.. en hinsvegar ef ísland mundi ganga norska konungsríkinu á hönd aftur, með norskum fjárhaldsreglum og lögum.. þá mundi hagur almennings vænka hratt með skattabreytingum, festu í fjármálum og launum sem endurspegla raunverulegt verðmæti vinnunnar.

Óskar Þorkelsson, 22.4.2011 kl. 08:49

9 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 22.4.2011 kl. 12:40

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, af hverju???  Fleiri mættu spyrja þessarar spurningar, sérstaklega núna um páskahelgina.

En þjóðfélaga sem hagar sér svona er hvorki kristið eða heiðið, hvað þá hundheiðið.

Það er sálarlaust.

Takk fyrir góða páskahugvekju Hrannar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.4.2011 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband