"Þeim var eg verst er eg unni mest"

Eftir að hafa kannað 110% leiðina kemur ýmislegt áhugavert í ljós.

Eðlilegt hefði verið að 110% leiðin tæki mið af fjárfestingarmati Ríkisins til að finna sanngjarna viðmiðunarupphæð. Svo er ekki gert, heldur er farið eftir markaðsvirði, og einungis Bankinn hefur rétt til að velja matsaðila sem metur upphæðina. Sjálfstætt mat þriðja aðila kemur ekki til greina. Þannig getur 19 milljóna lán sem rokið hefur upp í 29 milljónir aðeins lækkað niður í 28 milljónir, þó að óhugsandi sé að selja viðkomandi húsnæði á meira en 23 milljónir, hafi reglulega verið borgað af láninu. Hafi lánið hins vegar verið komið í vanskil getur sagan verið önnur.

Einnig hef ég kannað hvort bankar kaupi upp fasteignir, en svörin eru þau að það geri þeir einungis þegar fólk er komið í þrot, fasteignin komin í vanskil og málið gert upp með nauðungarsölu. 

Fyrirgefið, en þessi nálgun á vandamálinu frá bankans hendi finnst mér skelfileg. Þarna verður mér hugsað til sagna um skrímsli og forynjur sem liggja á gulli og nærast á mannakjöti.

Nú óska ég eftir því að ríkisstjórnin taki í taumana og geri eitthvað af viti í þessum málum. Þó ekki væri nema aftengja verðtryggingu frá húsnæðislánum frá deginum í dag, til þess að fólk geti hugsanlega minnkað húsnæðisskuldir sínar á komandi árum. Allt minna en það er ómannúðlegt.

Einnig kæmi til álita að afskrifa húsnæðisskuldir, sem eru komnar langt fram úr upphaflegum áætlunum vegna forsendubrests, en þessi forsendubrestur er runninn undan rifjum bankanna sjálfra sé hægt að treysta á upplýsingar úr Skýrslunni sem nú er árs gömul. 

Það er ljóst að peningurinn sem bankarnir fengu til að leysa úr málum heimilanna fór í að halda uppi háum launum og arðgreiðslum, en fóru ekki í eðlilegan og nauðsynlegan farveg. Það er ekki nóg að fara af stað með aðra rannsókn eða málið í nefnd. Og ekki bara eitthvað verður að gera í málinu. Það verður að gera eitthvað raunhæft, sem gerir fólki fært að byrja upp á nýtt. Á núlli. Eða næstum núlli.

Ég óska eftir að ríkisstjórnin beiti sér í þessum málum eins og VG, Framsókn, Borgarahreyfingin og Samfylking lofuðu fyrir síðustu kosningar. Hvað þarf til að hreyfa við þeim? Henda í þau blóðugum fötum? Þannig voru sumir knúðir áfram í Íslendingasögunum þegar þeir komu sér undan að gera skyldu sína.

 

Úr Laxdælu, löngu eftir að Bolli Þorleiksson hefur verið veginn, og Guðrún Ósvífursdóttir er orðin þreytt á aðgerðarleysi þegar kemur að því að gera það sem þarf að gera:

Fám nóttum síðar en Guðrún hafði heim komið heimti hún sonu sína til máls við sig í laukagarð sinn. En er þeir koma þar sjá þeir að þar voru breidd niður línklæði, skyrta og línbrækur. Þau voru blóðug mjög.

Þá mælti Guðrún: "Þessi sömu klæði er þið sjáið hér frýja ykkur föðurhefnda. Nú mun eg ekki hafa hér um mörg orð því að ekki er von að þið skipist af framhvöt orða ef þið íhugið ekki við slíkar bendingar og áminningar."

Þeim bræðrum brá mjög við þetta er Guðrún mælti en svöruðu þó á þá leið að þeir hafa verið ungir til hefnda að leita og forystulausir, kváðust hvorki kunna ráð gera fyrir sér né öðrum "og muna mættum við hvað við höfum látið."

Guðrún kvaðst ætla að þeir mundu meir hugsa um hestavíg eða leika.

Eftir þetta gengu þeir í brott.

Um nóttina eftir máttu þeir bræður eigi sofa. Þorgils varð þess var og spurði hvað þeim væri. Þeir segja honum allt tal þeirra mæðgina og það með að þeir mega eigi bera lengur harm sinn og frýju móður sinnar.

"Viljum vér til hefnda leita," sagði Bolli, "og höfum við bræður nú þann þroska að menn munu mjög á leita við okkur ef við hefjum eigi handa."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

""Nú óska ég eftir því að ríkisstjórnin taki í taumana og geri eitthvað af viti í þessum málum.""

Þetta er ekki auðsót mál ,  til að gera eitthvað af vit þarf vit, ekki satt. 

Ástæða þess að Þessi ríkistjórn hefur tekið rangar stefnur í öllum megin málaflokkum er einfaldlega að vitð er ekki fyrir hendi.

Það eina sem þessi ríkisstjórn getur gert í stöðunni héðan af er að fara frá.   

Guðmundur Jónsson, 20.4.2011 kl. 15:47

2 Smámynd: Ómar Ingi

svo þarf maður að lesa eftir jóu less að hún muni ekki fara fet.

hvar er fólkið sem barði eldúsáhöld núna til að koma þessari ríkisstjórn frá ?

Ómar Ingi, 21.4.2011 kl. 02:36

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er ekki nóg með að Bankinn velji sér fasteignasölu til að verðmeta íbúðina, heldur velur hann aðra, ef matið frá þeirri fyrstu er of lágt, að mati bankans. Og ef það dugir ekki til að hækka verðmat eignarinnar er þriðja fasteignasalan fengin til. Bankinn gerir ALLT til að reyna að koma verðinu upp, svo minni leiðrétting komi til.

Annars er þessi leið eins vitlaus og hugsast getur og kemur þeim best er mestu lánin höfðu fyrir hrun.

T.d. fær nágranni minn um tíu miljónir niðurfelldar samkvæmt þessari reglu. Hann keypti sér íbúð á 100% láni og reyndar keypti hann sér einnig bíl á 100% láni en missti hann fljótlega eftir hrun. Þessi einstaklingur var tæknilega gjaldþrota fyrir hrun, þar sem hann hafði einfaldlega offjárfest.

Ég fæ ekkert þar sem ég átti fyrir um 40% af verði minnar eignar þegar ég keypti, tók lán fyrir 60%. Nú á bankinn alla íbúðina mína og ég ek um á mínum 13 ára gamla bíl, keypti hann gegn staðgreiðslu þriggja ára gamlann fyrir tíu árum síðan. Þar sem lánið er nú rétt um 100% af verðmati íbúðar minnar, fæ ég enga leiðréttingu.

Það er ljóst að afborganir lána okkar beggja hefur hækkað hlutfallslega jafn mikið og greiðslubyrgðin samkvæmt því. Ég fjárfesti þannig að engin hætti átti að verða á að ég væri að reysa mér burðarás um öxl, en nágranni minn fjárfesti í raun umfram greiðslugetu. Hann fær nú tíu miljónir afskrifaðar en ég ekkert. Þó er ljóst að þessi niðurfelling sem hann fær mun ekki duga honum, hann stefnir í gjaldþrot eftir sem áður. Ef ég fengi hins vegar einungis helming þess sem bankinn hefur nú stolið af mér, að ég fengi leiðréttingu þannig að ég ætti 20% í minni íbúð, er ljóst að ég væri kominn fyrir vind. Þess í stað horfi ég nú til þess að missa mína íbúð!

Hvar er réttlætið í þessu?

Þegar sú hugmynd kom upp, fljótlega eftir hrun, að flöt lækkun lána til allra væri best, sagði fjármálaráðherra að ekkert réttlæti væri í að láta þá fá lækkun sinna lána sem hefðu farið óvarlega fyrir hrun. Hvað gerir sú aðferð sem stjórnvöld ákváðu annað en að hjálpa mest þeim sem óvarlega fóru og láta hina sem varlega fóru í fjárfestingum sitja eftir í súpunni?

Það sem er þó svívirðislegast við þetta allt saman er að þessi "hjálp" mun þó varla gagnast nokkrum. Flestir þeirra sem fá leiðréttingu niður í 110% af verðmati eignar, munu standa jafn illa á eftir. Þetta er einungis örlítil lenging í snörunni hjá þeim.

Á meðan fjölgar þeim sem fá reipið um hálsinn og bíða þess að hert verði á!!

Gunnar Heiðarsson, 21.4.2011 kl. 04:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband