Af hverju "já" er ekki það sama og að loka Icesave málinu

Flestir sem hafa hug á að kjósa "já" í Icesave kosningunni telja sig vera að kjósa málið út af borðinu. Skoðum aðeins forsendur þessarar hugmyndar.

Með "já" verður samningur samþykktur þar sem staðfest er að þjóðin mun greiða óþekkta upphæð til Breta og Hollendinga. 

Upphæðin er óþekkt. Við höfum fengið upplýsingar frá skilanefnd bankans um afar bjartsýnar tölur. Getum við treyst á áreiðanleika skilanefndar? Hver og einn verður að gera það upp við sig. Þar sem ég hef heyrt of oft "úlfur, úlfur" frá "bankasérfræðingum" efast ég um áreiðanleika þessa mats.

Tímasetning á upplýsingum um að upphæðin gæti auðveldlega orðið engin kemur á frekar undarlegum tíma, aðeins tveimur dögum fyrir kosningar í máli sem tekið hefur tvö ár. Áróðursbrellur og blekkingarleikir ríkisstjórnar lituðu fyrri kosningar, og hugsanlega þær sem eru í gangi núna. Mig grunar að ríkisstjórnin sé að deila út áróðri frekar en áreiðanlegum upplýsingum, rétt eins og umræður á alþingi snúast um að sannfæra frekar en að segja sannleikann. Ég treysti ekki ríkisstjórninni.

Klárast málið með "já"? 

Hugsaðu þér að þú sért að kaupa þér bíl eða húsnæði með láni í erlendum gjaldmiðli? Þú hefur fengið greiðsluáætlun frá bankanum sem lítur ágætlega út. Það lítur út fyrir að greiðslur munu ganga ágætlega. "Sérfræðingar" lofa slík lán. Icesave er slíkt lán, fyrir utan að það er ekki verið að kaupa neitt annað en hugsanlega þjónkun við Breta og Hollendinga.

Til að tryggja stöðugleika krónunnar eftir "já" verður að halda við gjaldeyrishöftum þar til "skuldin" er greidd. Athugið að þetta verður ekki að skuld fyrr en þjóðin hefur sagt "já". Þetta þýðir að ef greiðslumat skilanefndar bankans er röng, geta gjaldeyrishöftin verið föst í allt að 40 ár. Það þýðir að stærstu alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi neyðast til að fara úr landi og á móti minnkar tekjustofn ríkisins verulega, sem þýðir að hækka verður skatta meira, draga meira úr þjónustu og að ráðstöfunartekjur heimila verði minni. 

"Já" lokar þjóðina inni og gefur ríkisstjórninni tækifæri til að koma á kommúnismaveldi sem ekki verður hægt að losna úr fyrr en lánið hefur verið greitt.

Sagt er að "nei" leiðin kalli á óvissu dómstóla. "Já" leiðin kallar því miður á meiri óvissu en "nei" leiðin. Í "nei" leiðinni verður aðeins þörf á að hafa áhyggjur af hugsanlegu dómsmáli þar sem Bretar og Hollendingar óska eftir meiri peningum frá þjóð sem næstum varð gjaldþrota á einu bretti, og sett voru neyðarlög til að bjarga því. Ekki var gert upp á fólki vegna þjóðernis, heldur aðeins umráðs íslenskra stjórnvalda. Ríkið tryggði fullar innistæður á Íslandi og lágmarksinnistæður erlendis, enda réði þjóðin aldrei við að greiða fullar innistæður. Hefðu ekki allar innistæður verið tryggðar á Íslandi eru líkur á að kerfið hefði hrunið, þess í stað hefur það hneigt sig og er byrjað að rísa á ný með gífurlegum gróða íslenskra einkabanka og banka sem hafa verið yfirteknir af ríkinu, enda streyma peningar inn til þeirra vegna gífurlegs magns af verðtryggðum húsnæðislánum heimila, sem sumar fjölskyldur geta aðeins borgað vegna aðgangs að séreignarsparnaði, en sjá fram á gjaldþrot með áframhaldandi stöðugu álagi.

Í gangi er undirbúningur fyrir tvö dómsmál sem gera "já" leiðina stórhættulega. Annars vegar er mál þar sem dæmt verður um lögmæti neyðarlaganna. Tapi ríkið því málið án þess að hafa "já" samning er líklegt að fjármálakerfið íslenska hrynji. Nauðsynleg endurreisn fer í gang strax. En þá kemur í ljós að Bretar og Hollendingar halda í kröfur sínar, og hóta að fara í mál sem Íslendingar hafa ekki lengur efni á að taka þátt í. Þeir vilja sinn pening enda er skuldin orðin raunveruleg. Í stað peninga verður sótt í aðrar náttúrulegar auðlindir, sama hverjar þær eru, hugsanlega orkusamninga yfir 100 ár, aðgang að vatni í 100 ár, eða eitthvað slíkt. Annað eins hefur gerst víða um heim. Verði enginn slíkur samningur að þvælast fyrir þjóðinni mun endurreisnin ganga betur.

Annað dómsmál í undirbúningi er gegn sjálfum gjaldeyrishöftunum. Það er ljóst að falli gjaldeyrishöftin í dómsmáli, verður endurgreiðslan strax mun erfiðari. Evrópubankinn hefur eitt mat á verðmæti krónunnar. Það sem kallað er "raungildi" er miklu hagstæðari upphæð, en er í rauninni "platgildi" þar sem því er haldið vegna gjaldeyrishaftanna.

Niðurstaða mín er að hvorki "já" né "nei" muni klára málið. Hins vegar hefur áróður ríkisstjórnar frá upphafi snúist um að koma þessu "leiðinlega" máli frá svo það hætti að flækjast fyrir uppbyggingu. Þetta er einfaldlega ósatt. 

Það eina sem "já" tryggir er að ábyrgðarmenn Icesave skuldanna sleppa með skrekkinn og undan reiði Hollendinga og Breta, og þurfa aðeins að takast á við reiði íslensks almennings sem finnur fyrir auknum þunga á eigin herðar. Ég reikna með að mikill fjöldi muni finna sig knúna til að flytja úr landi, og spurning hvert þetta fólk geti farið, enda erfið kreppa víða um heim í dag.

"Já" er ekki það sama og að loka málinu. Ef ég tryði því og þeim upplýsingum sem hefur verið dælt í þjóðina af ríkisstjórn og fjármálastofnunum fyrir þessar kosningar, þætti mér freistandi að velja "já". En ég trúi ekki að þessar upplýsingar séu neitt áreiðanlegri en þær sem gefnar voru fyrir Icesave II kosningarnar og enn lengra aftur í tímann, um hinn "glæsilega" Svavars-samning sem átti að þvinga hljóðlaust gegnum atkvæðagreiðslu á þingi. Ég hef eiri ástæðu til að efast um áreiðanleika upplýsinga frá þessum aðilum, þar sem þeir hafa reynt vísvitandi að blekkja mig og þjóð mína, ekki bara einu sinni eða tvisvar, heldur stöðugt og í næstum hverju einasta máli. Reynt er að sannfæra frekar en að segja satt, og það böggar mig. 

Svar mitt er "nei". Málið klárast ekki með "já".

 

---

Kíktu á þessa grein sem sönnunargagn 1 til að sjá svart á hvítu að þessari ríkisstjórn er ekki treystandi: Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skúli Pálsson

Nýjustu upplýsingar um verðmæti eigna í þrotabúinu komu frá Financial Times. Óþarf að gruna ríkisstjórnina um einhverja lævísi þar.

Skúli Pálsson, 8.4.2011 kl. 08:30

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sigmundur Davíð útskýrði Icesavemálið fyrir þjóðinni í Kastljósi kvöldsins.

Hann ræddi mögulega niðurstöðu EFTA dómstólsins varðandi sakfellingu fyrir brot á EES samningnum vegna þess að innstæðueigendum Landsbankans í Englandi og á Íslandi var mismunað.

Sigmundur greip til líkingamáls, þreif í jakka Sigmars þáttastjórnanda og sagði að fyrir hrun þá hefðu bæði enskir og íslenskir sparifjáreigendur getað keypt sér 10 svona jakka.

En eftir hrun þá hefði sá enski, sem fékk allt greitt út í pundum getað keypt sér aðra 10 jakka, en íslenski sparifjáreigandinn sem fékk allt sitt einnig greitt út í íslenskum krónum, gat einungis keypt sér 6 jakka. Og Sigmundur spurði: „Hvor fær sitt bætt? Englendingurinn fær allt sitt, Hollendingurinn fær allt sitt. Íslendingurinn hinsvegar fær minna“

Það er augljóst. sagði Sigmundur Davíð, að það er sá íslenski sem hefur orðið fyrir mismunun. 6 jakkar eru ekki það sama og 10.

Þegar hér var komið sögu þá fór ég að klóra mér í hausnum og fann að samúð mín var hjá íslenska aðilanum sem gat ekki keypt sér nema 6 jakka. Dæmið varð þó aldrei raunverulegt í mínum huga þar sem þetta magn af jökkum vafðist fyrir mér. Sigmundur Davíð er að vísu af efnafólki og giftur inn í milljarðafjölskyldu og áttar sig betur á svona kaupastandi heldur en ég.

Hvað um það - niðurstaða formanns Framsóknarflokksins var sú að það væri ekki hægt að dæma þjóð, sem fær borgað í ónýtum gjaldeyri, fyrir brot á milliríkjasamningum.

Ég hinsvegar dró þá ályktun að þetta væri gengis-mismunur en ekki mismunun eins og Sigmundur taldi.

Ég vissi að króna er ekki það sama og pund og ég vissi að krónan skítféll - en ég vissi ekki að þessi skilningur á mismunun væri í EES samningum? Ég hélt að aðgerðir íslenska ríkisins, þegar það tryggði íslenska sparifjáreigendur en lét þá bresku og hollensku róa, væri hin saknæma mismunun. Ef skilningur Sigmundar er rétt þá erum við í góðum málum

En svo rifjaðist það upp fyrir mér að þetta er ekki í fyrsta sinn sem jakkainnkaup hafa ruglað Framsóknarmenn í ríminu. Í janúar 2008 varð mikill hvellur þegar Björn Ingi keypti 5 jakkaföt á kostnað flokksins. Þá fannst mörgum framsóknarmönnun innkaupin vera misferli.

Hjálmtýr V Heiðdal, 8.4.2011 kl. 23:08

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

http://huxa.blog.is/blog/huxa/   mín skoðun á IceSlave

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.4.2011 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband