Hugsarðu alltof mikið?

Calvin_and_hobbes

Þessa dagana er ég að velta fyrir mér hvernig við hugsum og bloggum, og er að tengja það saman við vangaveltur sem spretta við lestur Camus, Sartre, Kafka og Kierkegaard. Síðustu færslur hafa sprottið að mestu úr slíkum tilvistarpælingum. Skiljanlega átta sig ekki allir á hvað ég hef verið að pæla en markmiðið með færslum mínum á þessu bloggi hefur einatt verið gert til þess að læra aðeins meira um heiminn, deila með samferðarfólki mínu því sem leitar á mig, og finna leiðir til að finna ný sjónarhorn, nýjar spurningar og vonandi einhver svör.

Í dag stóð ég samtímis þrjár klukkustundir í rigningu fyrir utan strætóskýli. Á meðan velti ég eftirfarandi spurningum fyrir mér:

  1. Hvort ætli sé verra, að hugsa alltof mikið eða hugsa alltof lítið?
  2. Hvernig áhrif hafa hugsanir á tilfinningar okkar?
  3. Líður okkur betur ef við hugsum "fallegar" hugsanir og verr ef við hugsum "ljótar" hugsanir?
  4. Hvernig væri líf manneskju sem hugsaði ekki neitt, en leitaði bara í þægindi?
  5. Hvernig væri líf manneskju sem hugsaði alltof mikið, og er sama um þægindi?
  6. Eru hugsanir okkar og tilfinningar óaðskiljanleg heild?
  7. Hvernig er gremja sem tilfinning ólík sársauka?
  8. Verður sá sem hugsar of lítið auðveldlega að fórnarlambi ríkjandi hugmynda með því að fylgja þeim blint eftir?
  9. Verður sá sem hugsar of mikið auðveldlega að fórnarlambi eigin takmarkana og dæmdur til að blekkja sjálfan sig?
  10. Er munur á að hugsa lítið og að hugsa illa? 
  11. Er munur á að hugsa mikið og að hugsa vel?

Mér fannst gefandi að velta þessum spurningum fyrir mér og vildi deila þeim með varðhundum bloggsins míns. Blush

Ég fann svör við öllum þessum spurningum, en er viss um að þau svör eru sjálfsagt ólík þeim svörum sem þú finnur. Að spyrja gefur stundum meira en að svara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Skemmtilegar pælingar hjá þér Hrannar. Ein er sú tegund hugsunar sem oft elur af sér vanlíðan en það er hugsunin um eigin vanmátt eða hreinlega sjálfsásökun um að maður hafi ekki staðið sig eða uppfylli ekki einhverjar ímyndaðar kröfur. Þessi hugsun stendur föstum fótum í tilfinningalífinu og gengur oft eins og malandi vél við hliðina á öllu öðru sem þarf að hugsa um.

Ráð til að líða betur er að beina hugsun sinni að verkefni utan við sjálfan sig eða hugsa um aðrar manneskjur. Helst að gera þeim eitthvert gagn. Barnslega einfalt er það, en þó svo flókið.

Annað sem má gera er að skoða kröfurnar sem maður telur sig þurfa að fylgja. Getur verið að þeir standist ekki nánari skoðun? Það er auðvitað ekkert rangt við þessar angistarhugsanir en þær geta orðið of fyrirferðarmiklar. Fjölmiðlar hafa sterk og lúmsk áhrif á þessa vitundarstarfsemi.

Guðmundur Pálsson, 14.11.2010 kl. 02:46

2 identicon

Ég ætla mér ekkert að fara að velta mér upp úr þessum skemmtilegu  pælingum hjá þér, en þær  minna mig á manninn sem var að keyra í sveitinni og það sprakk hjá honum rétt hjá bóndabæ.

Þegar hann ætlar að skipta um dekk tekur  hann eftir því að það var enginn tjakkur í bílnum hann ákveður því að labba að bóndabænum og biðja bóndann um tjakk.

Hann gengur af stað inn heimreiðina að bænum og hugsar sem svo,

ég er viss um að hann eigi  tjakk og tímir ekki að lána hann.

Svona halda hugsanirnar áfram og er hann er kominn nálægt bænum, hugsa hann sem svo:

ég er viss um að hann eigi hundruðir  tjakka og tímir ekki að lána þá, hvað þá einn.

Nú, hann kemur að bænum og bankar  uppá og bóndinn kemur til dyra og áður en bóndinn getur svo mikið sem boðið góðan dag segir maðurinn í mikilli geðshræringu.

"Þú getur troðið öllum þínum skítugu bíltjökkum upp í þann hluta líkamans þar sem að sólin aldrei skín!" Með það var maðurinn rokinn og bóndinn stóð eftir á hlaðinu  og klóraði sér í hausnum  .

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.11.2010 kl. 09:11

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hrannar, að mínu mati er spurningin í fyrirsögninni  sú eina sem er auðsvarað; Nei.  Við eigum ekkert val, við eðlilegar aðstæður er heilabúið alltaf að, jafnvel þegar við sofum.  Þetta svarar svo sjálfkrafa sp. nr. 1.

Hinar spurningarnar fjalla svo frekar um HVAÐ hugsað er, sem er enn flóknara að svara.  Gefist okkur næði til þess að hugsa,  ótruflað, þá er það (a.m.k. mín reynsla) að einhver hugdettan leiði af sér enn aðrar og síðan geti liðið þó nokkur tími áður en hugsunin snýr aftur á byrjunarreit.

Því hefur verið haldið fram að karlar hugsi línulega en konur í hring.  Miðað við það sem ég sagði hér að ofan, má vel vera að það sé tilfellið  

Kolbrún Hilmars, 14.11.2010 kl. 16:41

4 Smámynd: Ómar Ingi

http://ommi.blog.is/blog/ommi/entry/1117075/

Svona eitthvað til að hugsa um og brosa svo ; )

Ómar Ingi, 17.11.2010 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband