Hefur tekist að slökkva bál byltingarinnar?
16.10.2010 | 19:48
Aðeins 12 dagar frá fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar, þar sem Alþingi virti að vettugi kröfur um réttlæti og aðgerðir. Þingheimi virðist hafa tekist að slökkva í bálinu með því að lofa öllu fögru og svíkja það svo. Að nú yrði loks farið í aðgerðir fyrir heimilin.
Dagar liðu og niðurstöður funda sífellt á sömu leið, að niðurstöður fengjust á næstu fundum, að stofnuð yrði nefnd. Kannski á morgun, kannski hinn, kannski eftir einhverjar vikur, kannski mánuði.
Þannig hefur tekist að slökkva bálið. Kannski.
Nú þegar bálið logar ekki lengur og stjórnarliðum finnst þeir öruggir á ný, skal dregið úr stóru yfirlýsingunum og allur spilastokkur blekkingarstjórnmála og áróðursbragða notaður til að kveða niður efasemdir.
Og mig grunar að það hafi tekist. Mótmælaraddir hafa þagnað. Bumbur óma ekki lengur í fjölmiðlum. Mig grunar þó að enn kraumi undir, að það sé heilmikil olía og súrefni eftir, að það þurfi ekki nema fáeina neista til að logarnir skjótist fram á nýjan leik.
Leiðrétting á stökkbreyttum lánum er sjálfsögð, réttlát og sanngjörn krafa. Fólk er ekki að tala um að græða á ástandinu, heldur að fá miskabætur fyrir þann stórfellda glæp sem unninn hefur verið gegn Íslendingum öllum, af fáeinum landsmönnum sem vildu eignast allt sem líkaminn girnist.
Um 90% lánþega standa í skilum. Spunalæknar ríkisstjórnar túlka það þannig að þá hlýtur meirihlutinn að vera í góðum málum. Ég held að þessir lántakendur séu heiðarlegt fólk sem gerir allt í sínu valdi til að borga skuldir sínar, jafnvel þó að þær séu bæði ósanngjarnar og óréttlátar vegna glæpsamlegs forsendubrests. Þetta fólk er að borga. Og þessar greiðslur, ásamt auknum sköttum, hækkandi vöruverði og lækkandi launum, verða sífellt erfiðari viðureignar.
Reyndar hafa um 50.000 manns farið í greiðsluaðlögun, sem þýðir að mánaðargreiðslan hefur verið lækkuð, en höfuðstóllinn stækkar samt enn hratt, og nýjar mánaðarlegar greiðslur eftir aðlögun hækka stöðugt.
Verði ekkert gert fyrir þær manneskjur sem lifa sífellt við þrengri kost, og vita að ekkert má fara úrskeiðis án þess að allt fari fjandans til, munum við þurfa að horfa upp á afar sorglega atburði, mannlegar hamfarir sem enn er hægt að koma í veg fyrir með smá hugrekki og visku.
Engin manneskja verður gjaldþrota að gamni sínu, þó að fullt af eigendum fyrirtækja finnist það flott sport, enda afleiðingarnar nánast engar fyrir fyrirtækin, en afleiðingarnar nær útlegð og dauðadómi fyrir einstaklinga sem verða gjaldþrota. Að verða gjaldþrota Íslendingur er hugsanlega verri örlög en þyngsta refsing sem dómstólar geta veitt. Morðingjar sem fá lífstíðardóm geta sloppið út eftir 8 ár fyrir góða hegðun. Manneskja sem verður gjaldþrota getur verið eignalaus í áratugi vegna ákvæðis um að kröfuhafar geta endurnýjað kröfur sínar á tveggja ára fresti.
Hvernig þingheimur getur verið blindur gagnvart þessum hamförum er mér ráðgáta.
Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.
Athugasemdir
Það er alveg á hreinu að stjórnvöld ráða engu um þetta og munu engu breyta ... og því síður hið auma alþingi. Yfirvöldin á Íslandi eru fjármagnseigendur og AGS. Þeirra markmið er bara eitt: Að eignast Ísland.
Hólímólí (IP-tala skráð) 16.10.2010 kl. 22:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.