Hvar er auðmýktin?
6.10.2010 | 22:25
Á mánudaginn var fylgdist ég dolfallinn með mótmælum á Austurvelli gegnum Netið frá Noregi. Á einum skjá sést brenna á Austurvelli og fólk tromma á tunnur. Víggirðing hefur verið reist umhverfis Alþingi og ræðurnar sýndar beint.
Það lítur út eins og ræðumenn séu staddir innan í gríðarstórri tómri tunnu, sem verið er að berja utanfrá. En enginn bumbusláttur heyrist, aðeins innantómar ræður, tómari en nokkur tunna - og ég get ekki annað en hugsað með mér hversu hátt bylur í þeim tómu.
Átta til tíuþúsund manns stóðu fyrir utan Alþingi og öskruðu eins og hungrað barn sem ekki getur tjáð sig öðruvísi. Íslenska þjóðin er barn. Móðir þess og faðir hefur yfirgefið hana. Skilið hana eftir. Þegar venjulegt fólk notar tungumál og reynir að tjá sig í rólegheitum, er ekki hlustað. Þetta fólk þykir kannski ekki nógu merkilegt til að ná eyrum hinna háttvirtu.
Og ég velti fyrir mér hvað getur náð þessum háttvirtu eyrum. Út frá ræðunum að dæma, ósköp fátt. Það þarf að berja á hinum háttvirtu hlustum til að þær hlusti. Enginn af þeim sem ræður, stjórnar, drottnar eða sér sig sem lítinn guð talar beint til fólksins sem stendur úti í kuldanum og skapar hávaða. Nei. Höfðingjarnir fela sig á bakvið þykka múra, lögregluvegg og sérhannaðan mótmælavegg, og þeir voga sér ekki að tala við þá sem vilja það eitt að á þá sé hlustað, tekið mark, að unnið sé saman að markmiðum og lausnum. Er beðið um of mikið?
Ég velti þessu fyrir mér. Hvað ef Jóhanna eða Steingrímur og flestöll hin hefðu sleppt því að halda sínar innantómu ræður og þess í stað vogað sér að opna svaladyrnar, gengið fram á svalir, veifað og sýnt að þau hafi áhuga á að hlusta á fólkið? Hefðu þau fengið í sig egg eða flösku? Eða hefði slík athöfn verið túlkuð sem hugrekki af fjöldanum og ráðamönnum hugsanlega tekist að vinna sér inn vott af virðingu á ný? Það fáum við aldrei að vita því tækifærið rann þeim úr greipum.
Ég velti fyrir mér auðmýktinni. Hvernig hún virðist hverfa úr hjarta stjórnmálamannsins, rétt eftir að hann eða hún lýsir yfir auðmjúku þakklæti eftir kosningar. Kannski auðmýkt sé bara einnota græja notuð á tyllidögum?
Að lokum, eitt af þeim lögmálum sem ég reyni að fylgja hvern einasta dag í mínu lífi:
Vitræn auðmýkt: Að vera meðvitaður um takmarkanir eigin þekkingar, þar með talið tilfinningu fyrir aðstæðum þar sem manns eigin sjálfhverfa er líkleg til að blekkja mann sjálfan; tilfinningu fyrir hlutdrægni, fordómum og takmörkunum eigin sjónarhorns. Vitræn auðmýkt kannast við að maður ætti ekki að þykjast vita meira en maður veit. Hún er ekki merki um hugleysi eða þrælslund. Hún hefur í för með sér skort á vitrænni tilgerð, stolti eða svikulli lund, og styrkir innsæi í rökrænar undirstöður eigin skoðana, eða skort á slíkum undirstöðum. (Foundation for Critical Thinking)
Athugasemdir
Flottur ertu Hrannar, hvað er að þessu fólki ?
Má ég nefna Jóhönnu, hún lofaði þjóðinni frjálsum handfæraveiðum.
Fátæk Þjóð gæti bjargað sér, með frjálsum handfæraveiðum,
en Jóhanna gleymdi loforði sínu.
15.000. manneskjur eru án vinnu og meira á eftir að koma,
hvernig er hægt að fá konuna til að efna loforð sitt.
Aðalsteinn Agnarsson, 7.10.2010 kl. 00:00
Frábær pistill hjá þér Hrannar... Bara að auðmýkt réði gjörðum sitjandi stjórnar, mér finnst þau Jóhanna og Steingrímur hafa sýnt þjóðinni hroka. Þessvegna er allt vitlaust núna.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.10.2010 kl. 00:08
Flottur pistill eins og þín er von og vísa Hrannar. Maður spyr sig??
Ásdís Sigurðardóttir, 7.10.2010 kl. 13:39
Sæll Hrannar, langar að segja þér að ég fór á þessi mótmæli. Þegar ég labbaði inn á Austurvöll og heyrði þennan þunga takktfasta drumbuslátt og sá framan í fólkið sem sumt hvert var með börnin sín, annað fólk komið til ára sinna þá varð mér hugsað til síðustu mótmæla fyrir rúmu ári síðan þar sem að nákvæmlega sama fólkið var að mótmæla nema þá var verið að mótmæla meðal annars að óréttlátar klifjar kæmu ekki á bak okkar til greiðslu.
Í dag þá er þetta fólk búið að missa eigur sínar, hefur ekki vinnu og þarf að fara í matar-biðraðir til að svelta ekki og þegar ég gerði mér grein fyrir þessu þá langaði mig að gráta... Ég fann til með því vegna þess að núverandi Ríkisstjórn sem hafði allt í hendi sér til að snúa þessu blaði við kaus að gera það ekki, heldur kaus hún að stinga allt þetta fólk sem kaus hana í góðri trú í bakið...
Það er búið að gagnrýna það að fólk hafi tekið börnin sín með sér, en hvað á fólk að gera, börnin fara líka á götuna með pabba sínum og mömmu.
Ríkisstjórn okkar Íslendinga kemur fram með miklum hroka og yfirgangi við okkur fólkið núna og á ekki að líðast svoleiðis framkoma af þeim sem eiga að vera fyrirmyndir okkar jafnt út á við sem inn á við...
Góður pistill hjá þér...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 7.10.2010 kl. 14:21
Finnum bæ þar sem fjórflokkarnir ráða ekki ríkjum og tökum yfir hann og Lýsum hann sjálfstæðan frá þessu ógeði þessu fjórflokkssulli.
Kristján Loftur Bjarnason (IP-tala skráð) 7.10.2010 kl. 20:13
Já, við kunnum að koma á óvart mótmælendur Sumir segja að það hafi látið nærri að þeir hafi verið um 12.000 sem hafi komið við á Austurvelli þetta kvöld. Eitt er víst að þetta voru stærstu mótmæli Íslandssögunnar, hvorki meira né minna!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.10.2010 kl. 02:09
Takk fyrir athugasemdirnar.
Hrannar Baldursson, 8.10.2010 kl. 05:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.