Af hverju kasta mótmælendur eggjum í þingmenn?
1.10.2010 | 18:51
Fólki finnst það svikið.
Núverandi ríkisstjórn komst til valda eftir að fyrri ríkisstjórn var hrint úr valdastól. Nýja ríkisstjórnin lofaði öllu fögru en hefur reynst copy/paste fyrri ríkisstjórnar og hjakkar í nákvæmlega sama farinu.
Fólk er að tapa heimilum sínum. Ég veit ekki hvort satt sé að verið sé að bera út heilu fjölskyldurnar, en sú breyting hefur þó orðið á högum fólks að það býr ekki lengur við það öryggi að eiga heimili sitt, og getur aðeins leigt húsnæði tímabundið. Leigt húsnæði er tímabundin lausn. Það þekkja allir sem leigja. Við finnum djúpt öryggi í því að eiga okkar eigin húsnæði og vita að þaðan verðum við ekki hrakin af einhverjum öðrum eiganda.
Hæfileikaríkt ungt fólk hefur horfið af landi brott og leitað sér leiða á erlendri grundu. Ég veit ekki hversu margir hafa horfið frá Íslandi með þessum hætti frá 6. október 2008, en reikna með að þeir skipti þúsundum. Þetta fólk hverfur af atvinnuleysisskrá þegar það tekur sér búsetu annars staðar, og virðist gleymast, eins og það sé ekki lengur til.
Fólk er reitt vegna landsdómsmálsins. Ekki vegna þess að Geir var ákærður, heldur vegna þess að þingið setti upp skjaldborg um sjálft sig um leið og því var ógnað, skjaldborg sem heimilum var fyrir löngu lofað, en reynst hefur innantómur frasi einhverra kviðlinga úr Samfylkingunni.
Þar sem ég bý og starfa í dag er mest lögð áhersla á tvennt: að fólk framkvæmi í samræmi við orð sín, og allt sé gert til að vernda fólk og umhverfi frá allri hugsanlegri hættu. Mér líður vel í slíku samfélagi. Mér þykir leitt að slíkt samfélag virðist ekki fyrirfinnast á Íslandi.
Það er móðgandi og særandi þegar maður hefur verið sannfærður um að treysta manneskju sem segist ætla að leggja á sig ferð til helvítis og aftur heim til að hjálpa þér út úr vandræðum þínum, að í ljós kemur að þessi manneskja hefur lagst upp í sófa heima hjá sér og leyst krossgátur í stað þess að það sem hún lofaði að gera. Að kasta eggi í slíka manneskju, sérstaklega ef hún virðir þig ekki viðlits eftir að þú hefur borgað henni með atkvæði þínu, virðist væg hefnd.
Að sjálfsögðu er hægt að gera lítið úr slíkum mótmælum, segja að þetta sé bara fólk sem hefur einhverja ákveðna skoðun og megi alveg hafa sína skoðun fyrir sig, það sé bara þeirra mál, það má segja að þetta fólk sé skiljanlega uppfullt af reiði og að það megi alveg tjá þessa reiði, en að reiðin sé út í marga ólíka hluti, en ekki sameiginlegan málstað.
Málstaðurinn er sameiginlegur.
Fólk er reitt út í spillingu og svik ráðamanna. Það reiðist þegar engin virðing er borin fyrir þeim. Það reiðist þegar ráðamenn svíkja orð sín. Það reiðist þegar ráðamenn sína vanhæfni. Það reiðist þegar spillingin grasserar sem aldrei fyrr. Það reiðist þegar réttlætiskröfu almennings er hafnað með skrípalátum.
Íslendingar eru búnir að fá upp í kok af spillingu. Spillingin sem slík er erfið viðureignar því hún er yfirleitt ósýnileg. Þingmönnum hefur tekist á síðustu dögum að gera spillinguna sýnilega og sjálfa sig að skotmörkum. Það þýðir lítið að kasta í þeim orðum, því fáir þeirra hlusta og skilja að heimurinn er stærri en það þrönga egg sem þeir búa sjálfir í.
Kannski er eggjum kastað á táknrænan hátt til að brjóta skurnina sem virðist hylja þetta furðulega fólk sem virðist lítið annað gera en gaspra skilningslaust í pontu og fyrir framan myndavélar, en geta ekki stigið fram fyrir múginn og spurt einfaldlega: "hvernig get ég orðið að liði?"
Þetta á þó ekki við um þau öll, en tilhneiging fjöldans er að dæma heild fyrir hluta, sérstaklega ef hlutinn kemst upp með ranglæti, og er varinn af meirihluta heildarinnar.
Athugasemdir
http://www.youtube.com/watch_popup?v=29JewlGsYxs&vq=small
Númer 6 (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 19:49
Það var sálarbætandi að vera á Austurvelli og finna taktinn í mótmælunum...
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.10.2010 kl. 01:24
Sæll Hrannar.
Nú ertu búinn að skilgreina reiðina og ástæður hennar. Hvað um lausnir? Hvað heldur þú að þetta gervi lýðræði sem flokkafyrirkomulagið er, dugi til að gera það sem er rétt, en ekki það sem er þægilegast og líklegast til að tryggja valdastöðuna, hver sem hún kann svo að vera?
Ef Íslendingar eru komnir með upp í kok af spillingu, eins og þú orðar það, ætti hver maður að sjá að þetta flokkspólitíska kerfi sem við búum við er höfuðvandinn. Ertu sammála því að það beri að að banna stjórnmálaflokkum að bjóða fram til alþingis?
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.10.2010 kl. 01:40
Já, Svanur.
Ég er sammála því að flokkarnir eins og þeir eru í dag gera meira ógagn en gagn. Þjóðin er það smá að einstaklingskosningar ættu að duga, þó að það sé heldur engin trygging gegn spillingu.
Eina lausnin sem ég sé er frekar óraunsæ. Hún felst í algjörri hugarfarsbreytingu þar sem spilling verður gerð að höfuðóvini númer eitt, og reynt að uppræta hana með öllum tiltækum ráðum, eins og með því að banna algjörlega að stjórnmálamenn verði styrktir, að fjármálaráðherra eigi persónulega hagsmuni að gæta (til dæmis sem eigandi banka), að sjálfhverft hugarfar (hvort sem er fyrir einstakling eða flokk, verður fjarlægt og í staðinn kemur krafa um að ávallt verði unnið fyrir almannaheill), en þetta eru sjálfsagt bara draumar - sem ég er reyndar, að ég tel, að upplifa sjálfur hérna í Noregi.
Það er ekki jafn gaman að vera óspillt þjóð, en það er verulega uppbyggjandi fyrir hvern einasta þjóðfélagsþegn.
Hrannar Baldursson, 2.10.2010 kl. 05:58
Jóna Kolbrún: Það virðist afar breið gjá milli þings og þjóðar. Ég botna ekkert í þingmönnum lengur, nema kannski þeim hjá Hreyfingunni og Eygló Harðar, hugsanlega Lilju Mósesdóttur.
Ég sé ekki jarðsamband hjá öðrum.
Hrannar Baldursson, 2.10.2010 kl. 06:02
Þar sem ég bý og starfa í dag er mest lögð áhersla á tvennt: að fólk framkvæmi í samræmi við orð sín, og allt sé gert til að vernda fólk og umhverfi frá allri hugsanlegri hættu. Mér líður vel í slíku samfélagi. Mér þykir leitt að slíkt samfélag virðist ekki fyrirfinnast á Íslandi.
Þetta eru orð að sönnu Hrannar.
Takk fyrir góðan pistil.
Óskar Þorkelsson, 2.10.2010 kl. 06:32
Góður pistill.
Ég er bara á leið um bloggið að kenna fólki enska hugtakið "CON" sem þróast eins og hver önnur fíkn. Hún uppgvötas því miður ekki hjá flestu fólki nema þeim sem lenda í efnaneyslu.
Og þá stoppar þróunin oftast nær. Ef viðkomandi verður ekki fyrir neinu sálartjóni sem þróar þetta, vex fram "ConArtist" sem spilar á allt og alla eins og pianó. Kann allt hagkerfið, raðar saman grúppum hér og þar og tengir allt saman.
Ekki vegna peninganna, heldur vegna þess að það er svo gaman. Þessi hugsýki þróar rándýr hagkerfissins. Það verður engin samúð til staðar. Engar normal tilfinningar. Þeir hlægja að tjóninu og bankahruninu sín á milli. Opinberlega segja þeir að þeim þyki þetta leitt.
Þessi tegund af hugsýki verður bara hættuleg fólki með mikil völd. Og ef það hefur aðgang af miklu fjármagni. Sumir stimulera hugan með efnum, enn ekki allir.
Sumir hafa þetta bara í sér og Olympiuleikar "GonGamers" er ekki lokið á Íslandi. Enn á eftir að flytja flugvélafarma af peningum frá Íslandi. Það getur verið að flestir sjái þetta öðruvísi.
Enn ég held að það verði að fara að ræða þetta bankahrun á öðru tungumáli enn íslensku. Blessað málið er svo fátækt að það er ekki nokkur leið að gera sig skiljanlega á því um þetta mál.
Þetta endar náttúrulega með því að allt spingur og fólk reiðist. Það er engin orðin reiður enn. Íslendingar vita ekki einu sinni hvað reiði er. Enda aldrei verið nein ástæða fyrir neinum pirringi fyrr enn nú.
Óskar Arnórsson, 3.10.2010 kl. 03:33
Óskar: Það er nokkuð til í þessu, og leikurinn heldur áfram. Honum var haldið við með því að tryggja allar inneignir á bankareikningum. Hefði það ekki verið gert, hefði öll þjóðin áttað sig strax á því að við vorum öll í sama báti og að vandinn er raunverulegur. Vegna þessarar samtryggingar hefur aðeins um 40% þjóðarinnar lent í alvarlegum vandræðum en hin 60% finnast þau ennþá örugg. Smám saman eykst þó fjöldinn sem veit af þessum vandræðum, en það er eins og þessi vitneskja verði ekki meðvituð fyrr en fólk fer að finna fyrir henni á eigin skinni.
Hrannar Baldursson, 3.10.2010 kl. 07:08
Munstrið í þessu ástandi, ef má kalla heildarmyndina "ástand" er algjörlega eins og þegar einhver fjölskyldumeðlimur er að laumast í dópneyslu. "CON" hugsunarháttur og hugarástand heróínistans er keimlíkt.
Málið er að eiginlega bara á Íslandi af öllum löndum sem ég þekki til, er það tabú að skoða mál frá þessu sjónarhorni.
Ég talaði persónulega við Björn Bjarnason fyrir mörgum árum um að glæpir á Íslandi væru komnir algjörlega úr böndunum og spurði af hverju ekkert væri gert?
Hann hafði ekki hugmynd um hvað ég talaði um. Nú hefur Eva Joly lýst þessu fyrirbæri aðeins, og á akademísku máli. Enn það er takmarkað sem hefur náð í gegn.
Ef fjölskyldumunstur er notað, 2 foreldrar og 4 börn sýstemið, þá er eins og það sé 3 á móti einum í fjölskyldunni sem eru orðnir snarruglaðir, leika sig smá heilbrygða fyrir nágrannana, það mesta lítur vel út, útávið séð, enn það er ekki raunveruleikinn.
Þó ég hafi ekki verið lengi á Íslandi síðustu ár, þá sá ég persónulega nóg til að vita hvað stýrir þessu. Það eru margir innblandaðir og þeir sem eru helstu drifkraftarnir í þessum geggjaða "bankaleik" hefur aldrei verið minnst á einu einasta orði opinberlega.
Enda er það "lögmál leiksins" og spilareglum. "Its the Name of the game" eins og það heitir á ensku.
Lausnin er fólgin í að finna nafnið á leiknum.
Óskar Arnórsson, 3.10.2010 kl. 10:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.