Hvað er svona merkilegt við að vera svalur?

Snoopy--Joe-Cool--Maxi-Posters-331290

Flestir virðast skilja hvað meint er með því að segja einhverja manneskju vera svala, og flestir virðast gefa svalanum gildi. En býr eitthvað mikilvægt að baki því að vera svalur? Er það einhvers konar lífsstefna? Eða er það hunsun á lífsstefnu?

Hinir svölu virðast eiga það sameiginlegt að þeir dansa línudans ósýnilegrar línu. Stígi þeir feilskref, tapa þeir svalanum. Takist þeim að dansa línuna án mistaka, hljóta þeir aðdáun þeirra sem fylgjast með.

Það virðist ekki mögulegt að vera svalur án áhorfenda. Það verður einhverjum öðrum að finnast maður svalur, og þegar þessi annar tjáir að maður sé svalur, þá skal hinn svali láta eins og hann taki ekki eftir hrósinu, því taki hann eftir því og þakkar kannski fyrir sig, þá tapar hann svalanum.

Kannski.

Hægt væri að þakka fyrir sig á svalan hátt, en það er sjálfsagt einhvers konar listform.

Frægt fólk í sviðsljósi gerir allt fyrir svalann. Líf og afkoma geta snúist um að vera, eða að minnsta kosti láta líta út fyrir að maður sé svalur. En það er bara yfirborðið. Lítum dýpra.

Hvað þýðir að vera svalur?

Að vera svalur er að vera einhvers staðar nálægt því að vera kaldur, en vera það samt ekki. Hinn kaldi reiknar út allar mögulegar leiðir, á meðan hinn heiti vekur hrifningu, en hinn svali lætur einhvern veginn eins og ekkert sé, en sýnir samt einhvers konar umhyggju fyrir umheiminum. Þessi svali kemur stöðugt á óvart, er óútreiknanlegur. 

Hinn svali hefur góða stjórn á eigin tilfinningum og látbragði, og hefur fullkomna stjórn á eigin tjáningu. Hinn svali lætur sig engu skipta þau mál sem hann hefur enga stjórn á, og dissar þau sem eitthvað utan hans umfangs. 

Gallinn er sá að hinn svali þarf stöðugt að vita hvað það er sem hann getur haft áhrif á, og hvað það er sem hann hefur engin áhrif á. Hinn svali getur dissað eldgos eða flóð, dauðann eða slys og jafnvel mannkynssöguna, en þegar kemur að atburðum samtímans, verður erfiðara að velja um hvað það er sem viðkomandi getur haft áhrif á og hvað ekki.

Getur þú haft stjórn á framtíð þjóðar þinnar? Ef þú getur það, en gerir ekkert í málinu, þá ertu varla svöl manneskja. Ef þú getur það, og gerir eitthvað í málinu, þá ertu svöl manneskja. Ef þú getur það ekki og gerir ekkert í málinu, þá ertu hugsanlega svöl manneskja, og ef þú getur það ekki en reynir það samt, ertu ekki svöl manneskja, heldur örvæntingarfullt flón.

Hinn svali er sá sem þekkir sín takmörk, þekkir sjálfan sig og heiminn af dýpt, og tekst að tjá þessa þekkingu með látbragðinu einu saman. Hin svala manneskja þekkir sjálfa sig.

Það er merkilegt. Það er svalt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Mig langar í Svala

Ómar Ingi, 23.9.2010 kl. 22:12

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég man þegar vinkonu dóttur minnar þótt ég svöl, vegna þess að ég hlustaði á Rammstein.  Mér þótti það svalt...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.9.2010 kl. 00:58

3 Smámynd: Garðar Valur Hallfreðsson

Er þetta ekki bara spurning um álit hvers og eins...?

Garðar Valur Hallfreðsson, 24.9.2010 kl. 11:35

4 Smámynd: Óskar Arnórsson

Góður pistill. Það er til fólk sem kýs að lifa án tilfinningalífs og árangur þess er að finna um allt þjóðfélagið. Það sækist gjarna í háar stöður og kallar m.a. grægði fyrir dugnað...ég er að skrifa bók um þessa persónuleika á sænsku.

Óskar Arnórsson, 25.9.2010 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband