Sé glæpurinn nógu stór mun enginn trúa að hann hafi verið framinn.
Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Ríkisstjórn Íslands, stofnanir sem brugðust almenningi algjörlega fyrir efnahagshrunið, endurtaka leikinn og bregðast almenningi algjörlega aftur á sama hátt og áður. Það hefur verið skipt um andlit í brúnni, en afstaðan er óbreytt: einkarekin fjármálafyrirtæki ber að vernda umfram önnur fyrirtæki og heimili í landinu þó svo að þar hafi verið framin afbrot innandyra með alvarlegum afleiðingum fyrir þjóðina alla.
Ég sé til að mynda engan mun á afstöðu Vinstri grænna sem eru við völd í dag með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokks sem var við völd fyrir Hrun ásamt Samfylkingu. Eini munurinn virðist felast í einhverjum gæluverkefnum sem tengjast kynjafræðum og femínisma, nokkuð sem hefur lítið að gera við frumþarfir almennings, ef þú kíkir á færslu mína um þarfapíramída Maslows: Sveltur fólk á Íslandi í dag?
Ást og umhyggja eru mikilvægar þarfir en ætti ekki að forgangsraða á undan öryggi og frumþörfum.
Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Ríkisstjórn Íslands gáfu út leiðbeinandi tilmæli sem gefa lánafyrirtækjum leyfi (þó ólöglegt sé) til að setja vexti eftir eigin hentisemi á gengistryggð lán í stað gengistryggingar láns sem stökkbreyttist við gengisfall krónunnar. Þannig er verið að verðlauna og bjarga þeim sem brutu lögin, í stað þess að refsa þeim og bæta almenningi þann gífurlega skaða sem hann hefur orðið fyrir vegna þessara lögbrota.
Sumir tala um að ef eitthvað sé gert fyrir "skuldara" (lántakendur) sé verið að verðlauna áhættusækið fólk, jafnvel fjárhættuspilara. Það kann vel að vera í sumum tilfellum. En í fjölmörgum tilfellum er um að ræða fólk sem keypti sér bíl til þess eins að sinna nauðsynlegum ferðum, eins og að komast til og frá vinnu, kaupa í matinn, fara með börnin í skóla, - nokkuð sem því miður er afar erfitt að gera með almenningssamgöngum.
Þetta fólk tók lán til að fjármagna kaup á bílum, og margt þeirra keypti notaða bíla þannig að mánaðarleg greiðsla var viðráðanleg. Þegar sú greiðsla tvöfaldast hins vegar, var mikil hætta á að fólk færi á hausinn. Það gat þó fryst bílalán í takmarkaðan tíma, og tekið út séreignarsparnað til að halda sér á floti, en séreignarsparnaður er peningur sem fólk hafði áætlað að nota sem lífeyri. Nú þegar sá lífeyrir er búinn, hvað verður um eftirlaunaáætlanir þessa fólks?
Talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna hafa brugðist við tilmælum valdaklíku ríkisstjórnarinnar með eigin tilmælum sem eru meira í anda íslenskra laga og þeirra aðstæðna sem eru í gangi, og halda áfram að verja almenning gegn stöðugri ógn fjármálavaldsins sem virðist nota ríkisstofnanir sem strengjabrúður eftir geðþótta. Hvernig slík stjórn á stofnunum er möguleg má lesa um í Rannsóknarskýrslunni góðu.
Smelltu hér til að lesa tilmælin frá HH.Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Góð færsla um þetta sjóðheita mál. Sjóðheita vegna þess að SI og FME leyfðu sér að gefa út sín fáránlegur tilmæli og viðskiptaráðherra hefur gefið sitt álit á málinu sem ekki er mjög neytendavænt.
Ef ekki væri jafn öflugur talsmaður Neytenda og raun ber vitni, jafn dugmiklir lögmenn og sóttu mál lántakenda og síðast en ekki síst hin gríðarlega sterki og vönduðu samtök Hagsmunasamtök heimilanna, þá væri þetta fólk sem tók gengistryggðu lánin og fengu gríðarlegar hækkanir á verð tryggða lán vegna forsendubrests, algjörlega óvarið.
Það eru í raun nýmæli hér á landi að skuldarar eigi sér talsmenn og stjórnvöld og stofnanir því gjörsamlega óviðbúin. Skuldarar hafa bara verið afgreiddir sem óreiðufólk og þar með er málið dautt.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 5.7.2010 kl. 16:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.