Sveltur fólk á Íslandi í dag?
3.7.2010 | 17:18
Mig langar aðeins að skoða eigin viðhorf til þess hvernig íslenskur almenningur stendur gagnvart þarfapíramída Maslows, en hugmyndin er sú að nauðsynlegt sé að uppfylla allar þessar þarfir til að manneskja geti öðlast hamingju. Þetta eru fyrst og fremst vangaveltur um stöðu mála, og algjörlega óljóst hvort ég hafi rétt fyrir mér í þessum vangaveltum, sem mér finnst þó þess virði að velta upp á yfirborðið.
MENNTUN
Með menntun á ég einfaldlega við þá þörf sérhverrar manneskju að vera hún sjálf að eins miklu marki og mögulegt er, að manneskjan sé mennsk og geti unnið með öðrum manneskjum til að bæta sjálfa sig, hinar manneskjurnar og heiminn.
Menntuð manneskja lifir eftir og tekur þátt í mótun siðferðis, er skapandi, frumleg, leysir vandamál, forðast fordóma og sættir sig við staðreyndir.
Til að öðlast menntun er ekki nóg að ganga í skóla og lesa mikið. Það þarf að kynnast alúð og umönnun fjölskyldu og vina, upplifa lífið og leysa vandamál, auk þess að finna leiðir til að bæta heiminn. Besta leiðin og öruggasta til að bæta heiminn er að bæta sjálfan sig. Út á það gengur menntun, en hún er líka gæði í sjálfri sér sem uppfyllir djúpa þörf okkar til að skilja heiminn og sjálf okkur betur, og framkvæma þannig að verk okkar hafi góðar afleiðingar. Án menntunar er erfitt að sjá fyrir hvaða afleiðingar gerðir okkar hafa til lengri tíma.
Menntunarstigið á Íslandi er ekkert sérstaklega hátt í dag, sé farið eftir þessum viðmiðum.
VIRÐING
Við þörfum öll á virðingu að halda. Þá á ég ekki við hefðbundna virðingu, þar sem hin ungu virða hin eldri, nemendur virða kennara, almenningur virðir stjórnmálamenn, heldur dýpri virðingu og gagnkvæmari heldur en það að lúta vilja einhvers sem hefur meira félagslegt vald.
Sjálfsvirðing er forsenda sjálfs frelsisins. Ef manneskja virðir ekki sjálfa sig og eigin hugsanir, þorir ekki að tjá sig og telur eigin skoðanir minna virði en annarra, þá er viðkomandi manneskja einfaldlega ekki frjáls. Hún er fangi í eigin hugarheimi, og hugsanlega samfélagi sem reynir að útiloka raddir þeirra sem ekki hafa valdastöður. Einnig fylgir virðingu traust, árangur, og virðing til annars fólks og virðing frá öðru fólki.
Þegar ég horfi yfir fréttir og sé hvernig stjórnmálamenn og auðmenn tala niður til fólks, og hvernig gert er lítið úr fólki sem tekur til máls og það kallað undarlegum nöfnum eins og kverúlant eða skríll, þá er það merki um skort á virðingu. Við þurfum á virðingu að halda til að öðlast menntun.
Ég sé ekki betur en að íslensk þjóð uppfylli ekki þá þörf að virðing sé borin fyrir fólki án undantekninga, né að almenningur hafi kost á raunverulegri menntun, þó að vissulega geti sumir einstaklingar brotist úr viðjum samfélagsins og öðlast slíka virðingu og menntun með eigin átaki.
ÁST OG UMHYGGJA
Öll þurfum við á ást og umhyggju að halda. Ást og umhyggju fáum við ekki sjálfkrafa. Við fáum ást og umhyggju með því að gefa hana. Reyndar fáum við flest skilyrðislausa ást og umhyggju frá foreldrum okkar í æsku, en síðar meir frá ættingjum og öðrum vinum. Loks þurfum við á ást og umhyggju að halda frá maka. Í þessu tilfelli felst viskan í því að sælla er að gefa en þiggja.
Það er mikið áhyggjuefni þegar börn, unglingar og annað fólk fær ekki þessa nauðsynlegu ást og umhyggju.
Eftir Hrunið hafa margar fjölskyldur rofnað, flutningar átt sér stað og samband við ástvini slitnað. Þegar hjónaskilnaðir eiga sér stað og börn eru í spilinu, þá er mikil hætta á að þau finni fyrir skort á ást og umhyggju sem þau síðan bera með sér inn í framtíðina. Það er mikið áhyggjuefni hversu mikið af skilnuðum og brottflutningi af landi hefur átt sér stað að undanförnu.
Mig grunar að sífellt færri Íslendingar upplifi nógu mikla ást og umhyggju. Ætli þurfi ekki að efna til knúsdaga þar sem við erum minnt á mikilvægi þess að sýna umhyggju hvert gagnvart öðru, í stað þess að loka okkur inni í þeim skemmtilega heimi sem fylgir að útiloka umheiminn með tónlistarspilurum, tölvuleikjum, sjónvarpsglápi og öðru slíku - sem smám saman holar steininn.
ÖRYGGI
Áður en kemur að ást og umhyggju þurfum við samt á líkamlegu öryggi að halda, við þurfum að hafa tryggingu fyrir því að við höfum aðgang að grundvallarnauðsynjum, sem ég kem að síðar, sem getur falist í að hafa atvinnu eða baktryggingu fáist ekki starf við hæfi. Einnig er mikilvægt að geta treyst því að fólk komi almennilega fram við mann og að maður komi almennilega fram við annað fólk - slíkt er kallað siðferði, nokkuð sem sumir virðast halda að sé einhver lúxusvara, á meðan það er í raun afar djúp þörf.
Við öðlumst einnig öryggi með því að hafa fjölskyldu í kringum okkur, en hjörðin verndar einstaklinginn, eitthvað sem virðist sterkt í manneðlinu. Sum okkar eru dádýr sem verjum okkur gegn rándýrum og sum okkar eru rándýr sem veiðum dádýrin. Það getur verið erfitt að átta sig á hver er hvað: ertu í úlfahjörð eða dádýrahjörð?
Mér sýnist mikið af peningafólki hafa skipað sér í úlfahjörð sem hefur elt uppi og slátrað ekki aðeins þeim veikustu í dádýrahjörðunum, heldur reynt að útrýma sumum þeirra algjörlega, og enn virðast dádýrin í ríkisstjórn ekki fatta að úlfar sveima í kringum þau og yfir þeim og halda í strengi, toga í spotta og ýta á takka, þannig að greyin í ríkisstjórn gera nákvæmlega það sem þeim er sagt og ekkert annað, af hræðslunni einni saman og von um að bjarga eigin skinni.
Við þurfum á heilsu að halda, en eftir að kreppan skall á, velti ég fyrir mér hvort að geðheilsa þjóðarinnar sé í hættu. Henni stafar ógn af þeirri gífurlegu reiði sem liggur bæld í gífurlegum fjölda einstaklinga, og hún hlýtur að hafa áhrif á heilsu þessa fólks, sem aftur íþingir þeim sem eru þeim nástaddir.
Eitt af því sem við þurfum fyrir öryggið er að hafa eignir. Við þurfum að eiga hluti. Börn þurfa að eiga dúkku eða bangsa. Fullorðnir þurfa að eiga skjól yfir höfuðið, fararskjóta, klæði, mat. Eignir. Þegar eignir eru hirtar af fólki er forsendu fyrir ást og umhyggju, virðingu og menntun kippt undan þeim. Þetta er að gerast í dag!
FRUMÞARFIR
Loks eru það frumþarfirnar, sem felast í að anda, éta, drekka, sofa, skíta, pissa, kynlífi og stöðugleika.
Á Íslandi er svo komið að sumar fjölskyldur virðast ekki hafa efni á mat. Vatnið er til allrar hamingju ennþá frítt og hægt er að komast af lengi með vatni og lofti einu saman, en þó ekki of lengi. Án matar getur fólk ekki verið öruggt, og getur þar af leiðandi ekki gefið af sér eða þegið ást og öryggi, og virðing og menntun verða framandi hugtök sem virðast ekki koma lífinu neitt við, þar sem öll orkan fer í það mikilvægasta, að komast af.
Allar þessar þarfir eru mikilvægar.
Það er mikilvægt að þjóðfélagið standi vörð um þessar þarfir og passi að enginn Íslendingur eða gestur á Íslandi skorti til að afla sér þeirra.
Því miður virðist ríkisstjórnin í dag ekki einu sinni getað staðið vörð um frumþarfirnar, þar sem fjöldi fjölskylda hefur ekki þessar nauðsynjar, vegna þess að hjálparstofnanir þurfa að vera í sumarfríi á sama tíma.
Þjóðin á ekki að þurfa slíkar hjálparstofnanir. Þær eiga aðeins að vera til staðar í neyð. Nú er neyð á Íslandi og fólk hugsar um að skella sér í sumarfrí og leysa vandamálin með haustinu.
Nánari upplýsingar:
Um þarfapíramída Maslowsa á Wikipedia
Athugasemdir
Sæll Hrannar, Þetta er fín hugleiðing hjá þér, en ég hef grun um að margir vilji breyta röðun þarfanna. Varðandi það hvort fólk svelti á íslandi í dag þá er það óumdeilanlegt. En þú finnur það fólk ekki í biðröðum hjálparstofnana. Þeir sem þar standa margir hverjir, forgangsraða bara á þann veg að endar ná ekki saman.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.7.2010 kl. 18:23
flottur pistil og vekur til umhugsunar
Óskar Þorkelsson, 3.7.2010 kl. 19:45
Hrannar skemmtilegar hugleiðingar þó ég sé ekki alveg viss um niðurstöðurnar. Það er umhugsunarvert hvað rekur þessa þjóð áfram. Það er einhver hluti þjóðarinnar sem ekki á fyrir mat. Hann hefur hægt um sig rekinn áfram af skömm. Síðan er hluti þjóðarinnar sem stendur uppi með miklar skuldir, annað hvort vegna gengislána eða vísitölulána annars vegar og lækkandi tekna hins vegar. Þetta fólk mótmælir ekki. Það er allt á suðupunkti, en engar aðgerðir. Hver hindrunin er veit ég ekki. Hef frekar trú á að ef greina hvar þjóðin sé stödd, þá sé það hrædd þjóð með slæmt sjálfsmat.
Sigurður Þorsteinsson, 3.7.2010 kl. 23:11
Þú ert flottur Hrannar, bið þig að skoða blogg Ólínu Þorvarðard. kl. 12.08
Aðalsteinn Agnarsson, 3.7.2010 kl. 23:40
Góðar hugleiðingar og Maslows þarfaþríhyrningurinn er góður til skýringar á stöðu einstaklingsins. Ég bý erlendis og hef ekki aðstöðu til að kynna mér hvort fólk býr í raun við svo þröngan kost á Íslandi í dag að matur sé ekki á borðum. Af eigin reynslu veit ég að hægt er að búa við þröngan kost um sinn þótt áður hafi búið við allsnægtir. Veit ég líka að íslenski Einirkinn (Bjartur í Sumarhúsum) þarf að fara yfir stóran þröskuld til að biðja sér matar. Að þyggja ölmusu er ekki í okkar siðferði nema við getum goldið í sömu mynt. Það minnir mig á gamla daga í uppvexti þegar lítið var um vinnu og fjármuni til framfærslu en þá þekktu menn jú ekki annað og var ekki svo erfitt. Þá höfðu hrægammar ekki slegið eign sinni á sjávarauðlindina og fengu menn gefins, sem báru sig eftir því, fisk á bryggjunni í sjávarþorpinu. Mín tillaga er að til þess að tryggja að uppréttir menn verði ekki beygðir til bónar þá verði gerð ráðstöfun af hálfu yfirvalda til að tryggja að allir Íslendingar geti sótt sér skammarlaust fisk í matinn hjá þeim sem hafa forréttindi í dag til veiða. Aðgerðir sem þessar koma í veg fyrir að menn svelti skammarlaust. Vilji menn vín með matnum og humar í forrétt þá verði þeir sér út um það sjálfir
I.V.Ingólfsson (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 09:42
Sæll. Ég var að koma heim frá London og hef einmitt mikið verið að pæla í og ræða um hversu gott við höfum það hér á landi, grunnþörfum okkar flestra er mjög vel sinnt og við erum á margan hátt mjög dekruð og höfum verið lengi og kunnum því ekki öll að meta allt það góða sem við höfum, erum dugleg að væla yfir hlutum sem skipta litlu máli þegar upp er staðið. Væri til í að kenna þjóðinni að meta allt það góða sem við höfum og eigum.
Ásdís Sigurðardóttir, 4.7.2010 kl. 11:57
Flottur
Ómar Ingi, 4.7.2010 kl. 13:17
Sæll Hrannar, virðulegi skákmaður og heimspekingur. Nú má ég til með að senda þér kveðju og þakkir fyrir þessa góðu grein um grunnþarfirnar.
Þú hreyfir við máli sem er okkur öllum hugleikið en er ekki alltaf krufið til mergjar. Það þarf að gera og setja frumþarfir ofar öllu öðru því annars væru þær ekki í fyrsta sæti.
Sigurður Herlufsen (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 13:52
Takk öll fyrir athugasemdirnar.
Jóhannes: ég get trúað því að forgangsröðin geti verið vitlaus hjá fjölda fólks. Í stað þess að eiga fyrir mat í hálft ár gætu sumir freistast til að kaupa sér flatskjá og henda gamla sjónvarpinu, þó að nákvæmlega engin raunveruleg þörf sé fyrir slíku. Og jafnvel ekki nógu mikill peningur til staðar.
Óskar: Takk
Sigurður: Já, ég held að við sjáum stöðuna hvert og eitt á örlítið ólíkan hátt, og ég get auðveldlega skilið hvað þú meinar og samþykkt það.
Aðalsteinn: Ég kíkti á blogg Ólínar. Þar virðist hart barist um hvort að fólk eigi yfir höfuð rétt á að veiða sér til matar úr hafinu. Nokkuð sem hljóta að vera sjálfsögð mannréttindi. Sjávarútvegurinn er fullur af furðulegum þversögnum, en auðvitað ætti fólk að mega sigla út á kænu og veiða sér til matar. Annað virðist út í hött.
Ingólfsson: Sammála.
Ásdís: Við höfum flest haft það gott á Íslandi. En ekki allir. Það er heil kynslóð sem kemst ekki af á Íslandi þrátt fyrir dugnað, menntun og gáfur. Það er ekki að hafa það gott.
Ómar: Sömuleiðis, takk.
Sigurður: Blessaður góði félagi. Hárrétt hjá þér að frumþarfirnar þarf að setja í fyrsta sæta og varðveita fyrir alla þegna landsins. Það er þannig komið fyrir fjölmörgum þjóðum að stór hluti þjóða, lágstéttin, kemst aldrei upp úr neðsta þrepinu. Ég tel mig hafa alist upp á Íslandi þar sem þessum frumþörfum var fullnægt, af þinni kynslóð með gífurlegri elju og stöðugri vinnu, en er ekki viss um að það sé gert í dag. Kannski þjóðin hafi glatað einhverju af feðranna frægð?
Hrannar Baldursson, 4.7.2010 kl. 19:10
Flott greyning hjá þér. Mér finnst sérstaklega skoðunarvert hvað öryggi Íslendinga hefur farið minnkandi og óvissa vaxandi á mörgum sviðum.
Fólk verður að sætta sig við lækkandi laun og bætur á meðan álögur hækka og kostnaður við t.d. að eiga hús og bíl hefur hækkað á sama tíma og verðgildi og veðhæfni þessarra eigna hefur lækkað.
Góðar hugleiðingar hjá þér gamli vinnufélagi.
Frímann (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 14:49
Takk Frímann.
Þetta er einmitt mikið áhyggjuefni.
Hrannar Baldursson, 11.7.2010 kl. 08:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.