Hvað ættu fjármögnunarfyrirtækin að gera?
20.6.2010 | 06:58
Nú þegar í ljós kemur að fjármögnunarfyrirtækin hafa farið af hörku gegn viðskiptavinum sínum, lántakendum sem kallaðir hafa verið því harðneskjulega nafni "skuldarar", út frá forsendum sem reynst hafa ólöglegar og haft gífurlegar neikvæðar afleiðingar á þjóðfélagið, verða þessi fyrirtæki að bæta fyrir misgjörðir sínar og sýna algjöra iðrun til að starfsmönnum þeirra verði fyrirgefið. Það má réttilega kalla þessi fjármálafyrirtæki glæpasamtök eða mafíur, enda byrja þau starfsemi sína með því að "hjálpa" fólki að eignast hluti, en síðan þegar þetta fólk lendir í vandræðum er allt gert til að kreista úr þeim síðasta dropann, og ef ekki tekst að taka peninginn af þeim góðu er hann tekinn með illu:
Lögregla send á heimili viðkomandi, bifreið fjarlægð, metin, keypt á lágmarksverði, seld aftur á hámarksverði, og ógreidd skuld enn á reikningi viðskipavinarins.
Hvað er slíkt annað en skipulögð glæpastarfsemi?
Yfirleitt þarf að stinga glæpamönnum í fangelsi og láta þá dúsa þar yfir langan tíma áður en þeir átta sig á að eigin réttlætingar á slíkum framkvæmdum voru ekki réttlætanlegar. Kemur að því að viðkomandi iðrast og leitar þá sjálfsagt fyrirgefningar hjá samfélaginu sem hann hefur brotið gegn.
Þetta þarf ekki að ganga svona langt. Viðurkenni einhver eigin sök, sýnir iðrun og reynir að bæta fyrir misgjörðir sínar, þá verður viðkomandi hugsanlega fyrirgefið og réttlætinu þannig fullnægt með góðu; en neiti viðkomandi augljósri sök og firrist við, þá verður réttlætinu fullnægt með illu - sem er ekki ánægjulegt fyrir neinn.
Afleiðingar hinna gengistryggðu lána út í þjóðfélagið hafa verið gífurleg. Ég man eftir frétt um einn mann sem svipt hefur sig lífi vegna lánsins, og mögulegt að fleiri hafi farið þá leið. Fjölskyldur hafa liðast í sundur vegna fjárhagslegra erfiðleika og þessi gengistryggðu lán hafa verið dropinn sem fyllti mælinn. Fyrir vikið þjást alltof mörg börn vegna fjölskylduslita.
Margir hafa flutt úr landi með fjölskyldur sínar, meðal þeirra mikið af góðu og hæfileikaríku fólki sem vill láta gott af sér leiða, en fékk ekki tækifæri til þess á Íslandi vegna þrýstings frá lánafyrirtækjum sem aldrei gefa eftir, og hafa her lögfræðinga á bakvið sig til að réttlæta allar innheimtuaðgerðir.
Það er ekki auðvelt fyrir börn að flytja úr landi, vera slitin upp frá rótum, leita sér nýrra vina í nýju landi og jafnvel þurfa að læra nýtt tungumál. En sum börn upplifa þetta sem nauðsyn, og þau gera þetta, og þau lifa þetta af. En þau munu aldrei gleyma þeim skrímslum sem neyddu foreldra þeirra úr öruggu skjóli eigin húsnæðis og af landi brott.
Börnin munu læra um þá illsku sem gott fólk í samvinnu getur skapað með því að fela sig undir nafni og kennitölu fyrirtækja, og þannig vonandi hjálpað framtíðinni að varast þessa vá, rétt eins og sýnt þeim hvað fólk árið 2010 var forneskjulegt, gamaldags, eigingjarnt og ómanneskjulegt í hugsunarhætti, ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim - í skjóli fyrirtækja.
Því gott fólk sem stendur aðgerðarlaust hjá þegar illvirki eru framkvæmd er ekkert skárra en þeir sem framkvæma illverkin af fúsum og frjálsum vilja með gleði í hjarta og grilla svo á kvöldin.
Þessi setning af forsíðu Lýsingar í dag gefur ekki tilefni til bjartsýni: "Áhrif dómsins eru um margt óljós og getum við ekki á þessari stundu svarað því hvaða afleiðingar það hefur að greiða eða greiða ekki þegar útgefna greiðsluseðla."
Mynd: Wikipedia - Cumberland School of Law
Athugasemdir
Hvað er óljóst skil ég ekki ,Að tengja íslensku krónunna er ólögmæt segir í dómi Hæstaréttar og hefur verið ólöglegt síðan 2002 og eitthvað segir nér að stjórnendur bankanna hafi vitað þetta allann þennan tíma ,Ég er enginn spekingur en eðlilegt framhald málsins er sú að menn komi sér saman um réttláta leið til að loka þessu máli ,það er ljóst að skaði fyrirtækja er nokkur en ég held að hann sé mun minni en menn láti af vera og það séu nógar innistæður fyrir leiðréttingu svo mikið hafa fjármögnunarfyrirtæki hagnast +a þessu ólöglega athæfi sínu og spurninginn finnst mér líka vera hverjir bera ábyrgð á þessari ósvífni gagnvart grunlausum borgurum og fyrirtækjum?
Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 20.6.2010 kl. 07:28
Góð samlíking að líkja ástandi undanfarinna mánaða við skipulagða glæpastarfsemi.
"Börnin munu læra um þá illsku sem gott fólk í samvinnu getur skapað með því að fela sig undir nafni og kennitölu fyrirtækja,.........."
Stjórnmálamenn, bankmenn, lögfræðingar sem og aðrir ættu að hugsa út í það sem persónur, hve lengi er hægt að skýla sér á bak við það að vera í vinnunni þegar farið er fram gegn varnarlausu fólki.
Magnús Sigurðsson, 20.6.2010 kl. 08:56
DÓMUR ER FALLINN !
Ég reyndi að semja við SP , en það gekk ekki 50/50 !
Af því að það hefði verið hagstætt fyrir mig . Mikið hlakka ég til þegar skattskráin kemur út .Þá ætla ég að skoða launin "strákanna" .Var ekki frétt í blaði nýlega um banka sem hafði hagnast um 51 milljarð s.l. ár ?
Og hvað þá með allar sorgirnar okkar hinna ?
Kristín (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 19:26
Verða ekki viðskiptavinirnir bara að gera það sama og fara með hörku gegn stjórnendum bankanna?
Er hægt að sýna þeim miskun? Sýndu þeir skuldurunum miskun?
Ég var svo heppinn að vera með bíl á svona myntkörfuláni og gat borgað það upp eftir að það hafði hækkað eitthvað um 300 þús á milli mánaða en þetta var sumarið 2008. Skyldi maður fá þessa upphæð greidda til baka?
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 21:48
Góður pistill Hrannar
Viðskiptavinir sem voru með gengistryggð lán og búið er að traðka í mánuðum saman eru örugglega margir þannig farnir eftir þessi ósköp öll að þeir hafa hvorki kjark eða peninga til að snúast til varnar. Það er helst ef um hópmálsóknir verður að ræða (þegar þær eru orðnar löglegar) að margt af þessu fólki leggi til atlögu.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 26.6.2010 kl. 01:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.