Robin Hood (2010) *1/2
16.5.2010 | 20:47
Hrói Höttur er sígild persóna. Flestir þekkja hann sem ref í teiknaðri Walt Disney útgáfu og margir muna enn eftir Kevin Costner í hlutverkinu sem "Robin Hood: Prince of Thieves" fyrir sautján árum. Besta kvikmyndin um hetjuna, að mínu mati, er "The Adventures of Robin Hood" frá 1938, en þar lék Errol Flynn aðalhlutverkið á eftirminnilegan hátt. Persónan hefur birst í meira en 100 kvikmyndum, og í sumum þar sem gert er miskunnarlaust grín að henni, eins og í "Robin Hood: Men in Tights" eftir Mel Brooks.
"Robin Hood" er leikstýrð af engum öðrum en Ridley Scott með Russell Crowe í aðalhlutverkinu. Cate Blanchett sem Lady Marion. Öll eru þau í eldri kantinum en maður er til í að kíkja á þroskaða túlkun slíkra listamanni á sögupersónu sem er meðal þeirra stærstu. Því miður, myndarinnar vegna, fannst mér ég stundum vera að horfa á "Monty Python and the Holy Grail," sérstaklega í atriði þar sem Robin er margoft kallaður "Sir Robert". Þeir sem þekkja Holy Grail kannast kannski við "The Tale of Sir Robin".
Þar að auki er kvikmyndatónlistin afar misheppnuð. Hún verður oft meira áberandi en sagan sjálf, en það er kannski vegna þess að sagan er kolflöt, og einfaldlega nauðgun á öllum fyrri sögum um Hróa Hött. Russell Crowe og öðrum leikurum tókst ekki að móta persónur sínar á áhugaverðan hátt, og í stað þess að berjast gegn spillingu milli Breta þar sem John prins er illmennið með ýmsa áhrifamenn á sínum snærum til að klófesta Hróa kallinn, eru þeir ekkert annað en peð í höndum landráðamannsins Godfrey (Mark Strong) sem reynir að koma á borgarastyrjöld í Bretlandi til þess að gefa Frökkum tækifæri á árangursríkri innrás.
Fullt af góðum leikurum leikur í þessari mynd. Helsta má nefna William Hurt sem ráðgjafa konungs og Max Von Sydow sem Walter Loxley, en af einhverjum ástæðum var ákveðið að Robert Loxley er ekki Hrói Höttur í þessari mynd, heldur smiðssonurinn Robin Longstride, sem fer í hlutverk hins fallna Robert Loxley, tekur sér eiginkonu hans, Mario (Kate Blanchett) og fær föðurlega sálfræðiráðgjöf hjá Walter. Helstu persónurnar úr sögunum eru til staðar, en þær eru hver annarri flatari.
Þrátt fyrir allt er myndatakan yfirleitt mjög góð, sem og hvert einasta smáatriði sem á að stimpla inn tíðarandann. Það vantaði bara meiri kraft í þessa sögu. Það vantaði illmenni sem Hrói Höttur þurfti að kljást við og höndla með vitsmunum, kjarki og klókindum, en ekki bara aflsmunum og bogfimi.
Þeir sem gera ekki of miklar kröfur til kvikmyndaleikstjóra eins og Ridley Scott og þeir sem hafa ekki hugmynd um hvað Hrói Höttur er, gætu haft gaman að þessu. En mér leiddist. Mér leiddist það mikið að ég leit þrisvar á úlnlið minn þar sem úrið átti að vera, en ég hafði gleymt henni heima. Það eru ekki góð meðmæli.
Þessi útgáfa af "Robin Hood" er álíka góð og "Transformers", án Megan Fox.
Í stað þess að sjá "Robin Hood" í bíó, kíktu á sýnishornið hér fyrir neðan. Það er miklu betra en myndin sjálf.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Og ég sem var farinn að hlakka til að sjá hana. Nú þarf ég ekki að eyða peningunum mínum í hana.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 21:28
Fínasta skemmtun
oddur ingi (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 23:41
og þú eyddir 2 og hálfum stjörnum á Date Night , common ég er reyndar ekki búin að djá Robin Hood ennþá en hún getur ekki verið verri en sá viðbjóður.
Ómar Ingi, 17.5.2010 kl. 00:10
Ómar Ingi: Mér fannst þessi mun verri en Date Night, sem er meðalmynd. Reyndar fannst konunni minni Robin Hood nokkuð góð. En hún hafði bara séð teiknimyndina einhvern tíma fyrir mörgum árum og hafði engar væntingar. Þetta er bara minn smekkur og hugsanlega eru vonbrigði mín lituð af þeim væntingum sem ég hafði, um að Robin Hood væri karakter sem töggur væru í.
Oddur Ingi: Gott að þú fannst eitthvað skemmtilegt þarna.
Rafn Haraldur: það virðist vera sem að fólk sé á mjög skiptum skoðunum um hvort að Robin Hood sé góð eða slök. Hún fær 7.4 á IMDB og 45% á RottenTomates, þannig að það er greinilega stór hluti fólks sem fær eitthvað út úr henni. Ég er einfaldlega ekki einn af þeim.
Hrannar Baldursson, 17.5.2010 kl. 06:28
mér fannst transformer skemmtileg, en hver er Megan Fox?
Óskar Þorkelsson, 17.5.2010 kl. 10:51
Óskar, ef þér fannst Transformers skemmtileg gildir sjálfsagt það sama um Robin Hood.
Hrannar Baldursson, 17.5.2010 kl. 13:53
nei þú ert að misskilja.. mér finnst gaman af actionmyndum .. en hef lítið gaman af því að einhverjum kerlingum sé troðið inn í myndina fyrir bólugrafna graða unga menn..
Óskar Þorkelsson, 17.5.2010 kl. 16:06
Óskar. Nú ert það þú sem ert að misskilja.
Mér hefur líkað við flestar myndir Ridley Scott, fyrir utan "Legend" með Tom Cruise, en "Robin Hood" er á svipuðum stalli.
Crowe er einn af mínum uppáhalds leikurum, en hann hefur aldrei verið lélegri. Honum tekst ekki að gefa Hróa neina dýpt. Persónan er algjörlega flöt, þó að reynt sé að dýpka hana með frekar slökum flash-back atriðum í barnæsku.
Sjálfur hef ég mjög gaman af mörgum hasarmyndum, en sem hasarmynd er "Robin Hood" ekki góð. Ég hef líka gaman af mörgum stríðsmyndum, en sem stríðsmynd er "Robin Hood" ekki heldur góð. Ég hef mjög gaman af ævintýramyndum, en "Robin Hood" er ekki ævintýramynd. Hún væri líka léleg gamanmynd.
Það eru svo margar holur í handritinu að ég vil helst ekki minnast á þær, því þá þyrfti ég að eyða alltof miklum tíma í að hugsa um mynd sem er ekki þess virði.
Þetta eru mestu vonbrigði mín í bíó síðan ég sá "Sunshine" eftir Danny Boyle. Báðir frábærir breskir leikstjórar, en báðir þess umkomnir að senda frá sér agljört drasl.
Hrannar Baldursson, 17.5.2010 kl. 16:22
Ég reikna með að drengurinn minn dl myndinni fyrir mig.. skoða hana kannski um helgina.
Óskar Þorkelsson, 17.5.2010 kl. 16:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.