7 leiðir til að höndla einelti á netinu
1.5.2010 | 07:00
Þessar leiðir eiga ekki bara við um bloggið. Þetta eru ráð sem hægt er að nota í lífinu, bæði innan og utan netsins.
Hvernig höndlarðu það þegar einhver skrifar neikvæða athugasemd undir grein sem þú hefur skrifað? Hvernig höndlarðu það ef einhver böggar þig stöðugt með rugl athugasemdum.
Sumir fjarlægja athugasemdirnar og aðrir loka á IP númer þess sem sendi hana. Þessar aðferðir virka, en eru eins fasískar og hugsast getur séu þær notaðar af reglusemi.
Á vafri mínu um vefinn fann ég ágæta grein sem fjallar um þetta mál: 7 Great Principles for Dealing with Haters eftir Tim Ferriss. Hérna fyrir neðan er listinn hans.
- Það skiptir ekki máli hversu margir skilja þig ekki. Það sem skiptir máli er hversu margir skilja þig.
- 10% fólks finnur leiðir til að taka hvað sem er persónulega. Reiknaðu með því.
- "Að leita vinsælda frá öllum er merki um meðalmennsku." (Colin Powell)
- "Ef þú hefur veruleg áhrif, mun 95% af því sem er sagt um þig vera neikvætt." (Scott Boras)
- "Ef þú vilt bæta þig, sættu þig við að vera álitinn kjánalegur og heimskur." (Epíktet)
- "Að lifa góðu lífi er besta hefndin." (George Herbert)
- Haltu ró þinni og haltu áfram.
Það er hægt að læra af þessum lista.
Síðan ég byrjaði að blogga á blog.is hef ég einu sinni lokað á athugasemdir eins einstaklings, og hálfpartinn sé eftir því í dag. Þó að athugasemdirnar hafi verið hatursfullar og dónalegar, er hugsanlega betra að leyfa þeim að hanga inni til merkis um sögu viðkomandi manneskju, og einnig til að maður átti sig betur á hvernig fólk hugsar ólíkt um það sem manni dettur í hug að blaðra um á netinu.
Mig langar að velta fyrir mér hvort ég geti verið sammála þessum 7 leiðum Tim Ferriss.
1. Ég hef til þessa gert ráð fyrir að maður geti ómögulega náð til allra þegar maður skrifar greinar. Þess vegna verður maður að ímynda sér lesanda. Minn ímyndaði lesandi er ég sjálfur einhvers staðar í framtíðinni, jafnvel eftir hundrað ár. Ef einhver annar lesandi skilur ekki hvað ég er að fara, þá þarf ég hugsanlega að endurmeta eigin skrif, og jafnvel eigin hugmyndir, sem er bara jákvætt, og stundum missir gagnrýnin marks, en maður verður bara að meta það sjálfur hafi maður á annað borð áhuga á að bæta sig.
2. Ég hef rekist á það, sérstaklega í skrifum um trúmál eða stjórnmál, ekki endilega eigin skrifum, að á netinu hafa bæði stjórnlausir og trúlausir gífurlega sterkar raddir. Þetta er yfirleitt frekar gáfað fólk sem hugsanlega er félagslega einangrað af einhverju leyti og leitar því á náðir vefsins til að tjá sig. Eftir því sem vefurinn verður vinsælli, verða raddir þeirra háværari. Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér: ef Biblían er orð Guðs, er hann þá ekki líka með einhverja IP tölu og kemur visku sinni fyrir einhvern veginn eða einhvers staðar á Netinu?
3. Ég játa mig sekan um slíka meðalmennsku. Mér hefur þótt gaman að skrifa greinar sem eiga að henta öllum. En það er ekki vegna þess að ég vil að öllum líki við mig eða það sem ég skrifa, heldur geri ég mitt besta til að átta mig á sem flestum sjónarhornum sérhvers máls, og reyni að setja mig í spor þeirra sem eru með ólíkar skoðanir en ég sjálfur. Þannig getur litið út fyrir að ég sé stundum skoðanalaus, en í raun er ég bara að dýpka eigin skilning með því að ganga um í skóm frá hinum og þessum. Þetta hefur síðan áhrif á þær ákvarðanir sem ég tek í lífinu sjálfu, hvort ég sé hugrakkur þegar þess er þörf, hvort ég geti tekið erfiðar ákvarðanir af visku frekar en eigingirni, og þar fram eftir götunum. Bloggið er þannig ákveðinn skóli.
4. Mér dettur í hug stjórnmálamenn sem eru stöðugt á milli tanna fólks. Þeir eru milli tanna fólks vegna þess að þeir hafa áhrif. Hins vegar sýnist mér þeir hunsa algjörlega gagnrýni á þeirra störf og halda áfram sína leið sama hvað hver segir. Þetta er þrjóskuleið. Hún er öruggust allra leiða. En ég er viss um að hún er röng, því hún útilokar meðtöku á gagnrýni og þeim möguleika að viðkomandi hafi hugsanlega rangt fyrir sér. Þarna verður mikilvægara að sýnast meiri en aðrir með því að þykjast alltaf hafa rétt fyrir sér og skipta aldrei um skoðun, á meðan raunveruleg stórmenni eru þeir sem geta viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér, og geta skipt um skoðun þegar þeir sjá að þeir hafa málað sig út í horn.
5. Það elska allir trúða, en það tekur þá enginn alvarlega þegar þeir hafa eitthvað mikilvægt að segja, er það sem mér dettur í hug núna, og verður hugsað til nokkurra blogga á vefnum þar sem bloggari gerir grín að öllum sköpuðum hlutum og skrifar síðan einhverja grein sem skiptir hann miklu máli. Hann áttar sig ekki á að hann hefur safnað að sér húmoristum sem í athugasemdum geta ekki stillt sig um að skrifa eitthvað fyndið um hans hjartans mál. Móðgast viðkomandi? Að sjálfsögðu.
Ég hef þá stefnu í eigin bloggi að þegar ég skrifa um hluti, þá er ég að skrifa til að læra af þeim. Ég safna mér eins mikillar þekkingar og ég get um viðkomandi málefni, og með þá vitneskju í farteskinu að ég er ekki alvitur einstaklingur, geri ég ráð fyrir að hafa misst af einhverju, og þá hugsanlega mikilvægum þáttum, misskilið einhverja merkingu eða túlkun, hugsað ekki nógu djúpt eða verið þjakaður af eigin fordómum, sem eðlis þeirra vegna er eitthvað sem maður getur ekki séð auðveldlega í eigin ranni. Ég skrifa til að læra. Það að aðrir læri á því sem ég skrifa er bara launauppbót.
6. Ég átti samtal við föður minn um daginn, um útrásarvíkinga og hvernig þeim hlýtur að líða þessa dagana. Hann telur að þeir séu bara sáttir við lífið og tilveruna, njóti þess að vera ennþá ríkir og haldi áfram, en ég er svo einfaldur að telja þá vera það samviskulausa að þeir geti lifað sáttir einfaldlega vegna þess að þeir hafa ekki lengur samvisku. Þegar manneskja er samviskulaus er hún orðin að dýri, slík manneskja er ekki lengur manneskja. Þannig að þeir sem geta lifað sáttir við eigin glæpi, hljóta að hafa tapað því dýrmætasta sem ég hef sjálfur fundið í þessu jarðlífi, það að vera mennskur. Það má lengi deila um þetta.
En þetta er satt. Ef einhver vill skaða þig og þú sýnir merki um að þú hafir tekið illa við högginu, liggur á gólfinu með glóðarauga á eftir að hafa dottið yfir skrifborð í fallinu, þá fær sá sem höggið veitti miklu meira út úr því heldur en ef þér tekst að standa á sama stað og gera högg viðkomandi að vindhöggi einu og hlæja jafnvel góðlátlega að viðkomandi fyrir að reyna.
7. Það er ágætt að horfa fram á veginn með jafnvægisgeði. Að bæta mig stöðugt og vinna vel, og hafa góð áhrif út á við er mikilvægt fyrir mig, og ég veit að ef ég færi að sökkva mér í hatursfullar athugasemdir, þá myndi það hindra mig frá því. Það er betra að þoka sig áfram á veginum gegnum lífið en að horfa stöðugt um öxl.
Athugasemdir
Mjög góðar athugasemdir, Hrannar.
Er sammála þér í því að ekki er sniðugt að loka á hatursfullar athugasemdir, jafnvel þó maður telji að sendandinn muni sjá eftir sendingunni. Ég ætlaði að hafa þann háttinn á að "hjálpa" fljótfærum ákafamönnum með því að samþykkja ekki birtingu sumra athugasemda, en hef ekki haft ástæðu til að beita þeirri aðferð og mun ekki gera það.
Flosi Kristjánsson, 1.5.2010 kl. 08:21
Ásdís Sigurðardóttir, 1.5.2010 kl. 11:42
Sæll Hrannar,
Á mínu bloggi var ég með opnar athugasemdir þar til ég fékk óskiljanlega fúkyrðaflaum í tveimur póstum, sem áttu lítið skylt við það sem ég var að blogga um, endaði með því að eyða þeim út. Eftir það setti ég það upp þannig að ég þarf að samþykkja athugasemdir, en þetta var einstakt tilfelli svo ég held ég taki þessa síu af. Ég blogga sennilega ekki um neitt nógu áhugavert til þess að menn nenni að rífast við mig
Kveðja
Arnór Baldvinsson, 1.5.2010 kl. 15:20
Sæll Hrannar, hér vantar náttúrulega nokkrar forsendur sem gætu útskýrt neikvæðar athugasemdir:
1. Greinaskrifara mistekst að koma frá sér því sem hann er að fjalla um
2. Greinin sé svo löng og þvælin að menn missi þráðinn við lesturinn (athyglisbrestur)
3. Greinaskrifari sé ofstækismaður sem kallar á ýkt viðbrögð (einelti)
4. Greinaskrifari sé vísvitandi að halda fram röngum málstað (trolling)
Persónulega þá aðhyllist ég 100% skoðanafrelsi, líka fyrir þá sem eru ósammála mér. Ég forðast rifrildi um skoðanir en get vel rökrætt um staðreyndir. Kurteisir og málefnalegir menn eins og þú kalla ekki á neikvæðar athugasemdir. Ef það gerist þá er ekki við þig að sakast. Fólk er bara misjafnlega heilbrigt á sinni
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.5.2010 kl. 16:26
Takk fyrir þessa grein, ég fékk að kópera þessi 7 atriði og setja í athugasemd á mínu bloggi. Vona að það sé í lagi.
Jóhanna Magnúsdóttir, 1.5.2010 kl. 23:47
Takk öll fyrir athugasemdirnar!
Ekkert mál Jóhanna.
Hrannar Baldursson, 2.5.2010 kl. 06:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.